VALMYND ×

Fréttir

Nemendum boðið út að borða

Vetur konungur kveður okkur blíðlega með rjómalogni og sólskini. Víða mátti sjá nemendur léttklædda á lóð skólans í dag og margir kennarar nýttu sér góðviðrið til útikennslu. 

Heimilisfræðival á unglingastigi gerði sér lítið fyrir og dreif sig út að borða þær kræsingar sem matreiddar höfðu verið, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Tungumálaforði

Í viku móðurmálsins, 21. – 28. febrúar 2014, var efnt til samvinnu við skóla um skráningu á tungumálaforða sínum á Tungumálatorginu. Í ljós kom að heildarfjöldi tungumála í íslenskum skólum er yfir 90 og í þeim skólum sem skráðu upplýsingar eru töluð frá 1 upp í 36 tungumál.

Allir skólar sem sendu inn upplýsingar um tungumálaforða sinn fengu send rafræn viðurkenningarskjöl. 7.HS er einn þeirra bekkja sem tók þátt í þessari skráningu og hér má sjá viðurkenningarskjal þeirra.

Við athugun hér í Grunnskólanum á Ísafirði telst okkur til að töluð séu 10 tungumál að íslensku meðtaldri.

Velkomin vertu harpa

Þá er skólastarf hafið að páskaleyfi loknu. Vikan verður þó stutt, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn og engin kennsla þann dag. Samkvæmt gömlu íslensku tímatali er harpa fyrsti mánuður sumars og hefst hún á fyrsta fimmudegi eftir 18. apríl. 

Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomu og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur ,,frýs saman" aðfaranótt sumardagsins fyrsta.

Páskaleyfi

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páskaleyfi. Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 22. apríl samkvæmt stundaskrá.

Gleðilega páska.

Lestrarvenjur barna kannaðar

Í mars síðastliðnum voru lagðar fyrir nemendur 5. -10. bekkjar nokkrar spurningar varðandi lestrarvenjur þeirra. Sambærilegar kannanir höfðu verið lagðar fyrir þennan aldurshóp þrisvar áður, þ.e. 1999, 2004 og 2009 svo að við höfum nokkuð gott yfirlit yfir þær breytingar sem hafa orðið á lestrarvenjum barna á þessum aldri síðustu 15 árin og einnig koma viðhorf þeirra til lesturs vel fram. Herdís Hübner, kennari við skólann, hefur haft veg og vanda að þessum könnunum og tekið saman niðurstöður.

Þótt ekki sé hægt að segja að niðurstöðurnar séu ánægjulegar, er vissulega fróðlegt að skoða þær og margt athyglisvert sem þar kemur fram. 

Tími reiðhjólanna runninn upp

Síðustu daga og vikur hefur það færst í aukana að nemendur komi á reiðhjóli í skólann, enda vorið í augsýn. Því er ekki úr vegi að fara yfir skyldubúnað reiðhjóla.

  • Reiðhjólahjálmur 
  • Bremsur á fram- og afturhjóli
  • Bjalla (ekki má nota annan hljóðmerkjabúnað)
  • Hvítt eða gult ljós að framan ef hjólað er í myrkri
  • Rautt ljós að aftan ef hjólað er í myrkri
  • Þrístrend glitaugu, rautt að aftan og hvítt að framan
  • Keðjuhlíf
  • Teinaglit
  • Glitaugu á fótstigum
  • Lás 

Nú er um að gera að fara yfir hjólabúnaðinn til að hægt sé að njóta þess að hjóla við sem mest öryggi.

Æfingaferð til Manchester

2.flokkur BÍ/Bolungarvíkur (Mynd: Manchester æfingaferð - Facebook)
2.flokkur BÍ/Bolungarvíkur (Mynd: Manchester æfingaferð - Facebook)
1 af 2

Á þriðja tug nemenda í 9. og 10. bekk eru nú í æfingaferð með 2. og 3. flokki BÍ/Bolungarvíkur í Manchester í Englandi. Hópurinn hóf daginn í dag á skoðunarferð á Old Trafford leikvanginn sem er eflaust drauma áfangastaður margra ungra knattspyrnumanna. Hægt er að fylgjast með ferðinni á Facebook síðu hópsins. 

Við vonum að krakkarnir njóti ferðarinnar og eigi góða heimkomu.

 

Góð frammistaða í knattspyrnunni

Viktor Júlíusson nemandi í 10. bekk G.Í. og leikmaður 3.flokks BÍ/Bolungarvík var nú á dögunum valinn í 18 manna hóp U-17 landsliðs Íslands. Hann keppir með landsliði Íslands þessa dagana á undirbúningsmóti UEFA í Belfast á N-Írlandi.

Friðrik Þórir Hjaltason og Hjalti Hermann Gíslason, nemendur í 10. bekk hafa einnig verið kallaðir á æfingar hjá U-17 landsliðinu í vetur vegna góðrar frammistöðu hjá BÍ/Bolungarvík.

Í síðasta mánuði var Natalía Kaja Fjölnisdóttir nemandi í 9. bekk boðuð á landsliðsæfingar U-16 og fóru æfingarnar fram í Kórnum og Egilshöll. Natalía er á yngra ári í 3.flokki og hefur nú í haust og vetur æft með meistaraflokki kvenna.

Það er ljóst að þetta unga knattspyrnufólk er að standa sig gríðarlega vel í boltanum og vel fylgst með árangri þeirra. Við óskum þeim innilega til hamingju með þessu frábæru frammistöðu.

Söngur og gleði á Silfurtorgi

1 af 3

Í gær fóru krakkarnir í 1. bekk út á Silfurtorg í útivistartímanum sínum til að njóta veðurblíðunnar. Krakkarnir fengu sér heitt kakó og kex og sungu fyrir gesti og gangandi og er nokkuð víst að þeir hafi náð að syngja inn vorið.

Skólatónar

Tónlistarnemendur 4. og 8. bekkjar sem fram komu í morgun
Tónlistarnemendur 4. og 8. bekkjar sem fram komu í morgun
1 af 2

Í morgun héldu 4. og 8. bekkur sameiginlega tónleika í Hömrum. Í báðum þessum árgöngum eru margir tónlistarnemar við Tónlistarskóla Ísafjarðar og Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og léku þeir fyrir samnemendur sína og kennara. Dagskrá tónleikanna var fjölbreytt og skemmtileg og þökkum við þessum hæfileikaríku krökkum fyrir skemmtilega morgunstund.