VALMYND ×

Fréttir

Teiknimyndasýning

Á sumardaginn fyrsta sem var 24. apríl s.l., var sett upp skemmtileg bókmenntavaka í Edinborgarhúsinu fyrir börn og fullorðna, undir yfirskriftinni Börn og bækur. Þetta árið var áherslan á teiknimyndasögur.

Nemendur úr 3., 5. og 6. bekk G.Í.  og Grunnskóla Bolungarvíkur sýndu teiknimyndir sínar á bókmenntavökunni og nú hafa myndirnir verið settar upp til sýningar í anddyri G.Í. við Aðalstræti.

Við hvetjum alla til að líta við á þessa skemmtilegu sýningu.

Skóladagatal næsta skólaárs

Nú hefur skóladagatal skólaársins 2014-2015 verið samþykkt af fræðslunefnd. Dagatalið má nálgast hér vinstra megin á síðunni.

Söguslóðir Gísla Súrssonar heimsóttar

Á morgun, þriðjudaginn 6. maí, mun 10. bekkur halda á slóðir Gísla Súrssonar í Haukadal. Lagt verður af stað kl. 8:00 og komið til baka um hádegi. Kennsla verður skv. stundaskrá eftir hádegi.

 

Verum ástfangin af lífinu

Þorgrímur Þráinsson
Þorgrímur Þráinsson

Þorgrímur Þráinsson mun halda opinn fyrirlestur fyrir íbúa Ísafjarðarbæjar mánudaginn 5. maí n.k. kl. 20.00 í sal Menntaskólans á Ísafirði. Yfirskrift fyrirlestrarins er Verum ástfangin af lífinu. Þorgrímur mun halda fyrirlestur svipaðs efnis fyrir unglingadeild Grunnskólans á Ísafirði fyrr um daginn.

Í fyrirlestrinum fjallar hann um mikilvægi þess að vera sinnar eigin gæfu smiður og bera sig eftir draumum sínum. Það sé ekki sjálfgefið að vera ástfanginn af lífinu og finna jafnvægi á milli einkalífs, atvinnu og áhugamála sem stuðlar að því að maður lifir í sátt við sjálfan sig og aðra. Ein mesta áskorun lífsins er að sigrast á sjálfum sér og finna sannleikann, hinn innri frið. Þorgrímur segir nokkrar sögur, fjallar um mikilvægi þess að fara út fyrir þægindahringinn, hvernig Ólafur Stefánsson handboltakappi hugsar daginn sinn með hámarksárangur í huga og að lokum teiknar hann upp hjól lífsins sem er nokkurs konar ,,sjálfspróf" á eigin frammistöðu á ólíkum vettvangi.

Við viljum hvetja íbúa Ísafjarðarbæjar til að mæta á fyrirlesturinn, en þátttaka er án endurgjalds.

 

1. bekkur fær reiðhjólahjálma að gjöf

Gunnar Veturliðason og Kristján Andri Guðjónsson frá Kiwanisklúbbnum Básum, ásamt 1. bekk með hjálmana góðu.  (Mynd: Halldór Sveinbjörnsson).
Gunnar Veturliðason og Kristján Andri Guðjónsson frá Kiwanisklúbbnum Básum, ásamt 1. bekk með hjálmana góðu. (Mynd: Halldór Sveinbjörnsson).

Í dag fékk 1. bekkur góða gesti í heimsókn en þá komu Kiwanismenn frá Kiwanisklúbbnum Básum á Ísafirði með reiðhjólahjálma handa öllum árganginum.

Krakkarnir voru mjög þakklátir fyrir  þessa veglegu gjöf og vonandi verða allir duglegir að nota hjálmana sína.

 

Kiwanishreyfingin er alþjóðlega hreyfing sem hefur lagt áherslu á að vinna að velferðarmálum barna um heim allan.  Eftir helgi fara þeir með samskonar sendingar í aðra skóla á svæðinu.  

 

Útileikfimi

Frá og með mánudeginum 5. maí verða íþróttatímarnir úti undir berum himni. Við biðjum því alla að gæta þess að vera klæddir eftir veðri og aðstæðum hverju sinni.

Verkalýðsdagurinn

Á morgun, fimmtudaginn 1. maí, er baráttudagur verkamanna sem er lögbundinn frídagur og þar af leiðandi engin kennsla.

Íslandsheimsókn lokið

Hópurinn fyrir utan Gamla sjúkrahúsið
Hópurinn fyrir utan Gamla sjúkrahúsið

Dagana 22. - 26. apríl voru góðir gestir Grunnskólans á Ísafirði í heimsókn á Íslandi í tengslum við Comeniusarverkefnið „All different, all the same, Europe‘s children.“ Þetta voru 21 manns frá Portúgal, Rúmeníu, Póllandi og Kýpur, 14 fullorðnir og 7 unglingar. Dagskrá heimsóknarinnar var þéttskipuð og fjölbreytt og má segja að hver mínúta hafi verið nýtt til hins ýtrasta. Farið var í Bláa lónið, skoðað Gullfoss og Geysi, komið við á Þingvöllum og keyrt vestur á Ísafjörð með viðkomu í Reykjanesi. Á Ísafirði var þétt dagskrá þar sem 10. bekkur bauð upp á fjölmenningarkvöld í Edinborgarhúsinu, kíkt var í FabLab, siglt inn í Vigur, heimsótt Íslandssögu á Suðureyri o.fl. ásamt því sem veitingastaðir voru heimsóttir.

Erlendi hópurinn var alsæll með Íslandsferðina og gestgjafarnir ekki síður. Ferðasöguna ásamt nokkrum myndum má sjá hér á heimasíðu 10. bekkjar.

Kynningar frá ADHD samtökunum

Mánudaginn 28. apríl n.k. verður kynningarfundur ADHD samtakanna haldinn kl. 14.30  í sal Grunnskólans á Ísafirði,  í samvinnu við Velferðarráðuneytið. Fundurinn er ætlaður starfsfólki leik-, grunn- og framhaldsskóla, sérfræðingum í skóla- og félagsþjónustu og öllum þeim sem starfa með börnum, ungmennum eða fullorðnum með ADHD. Foreldrar eru einnig velkomnir.

Efni fundar: Hvað er ADHD og hvað gera ADHD samtökin? Elín Hoe Hinriksdóttir sérkennari og formaður stjórnar ADHD samtakanna og Björk Þórarinsdóttir gjaldkeri ADHD samtakanna kynna samtökin.


Meira

Góðir gestir heimsækja G.Í.

Í gær kom hópur af erlendum gestum í heimsókn til okkar. Þetta er hópur kennara og nemenda frá Kýpur, Portúgal, Póllandi og Rúmeníu sem verður hér í tengslum við Comeniusarverkefni sem skólinn er þátttakandi í og hefur yfirskriftina: All different, all the same, Europe's children. Hópurinn verður hér fram á laugardag og er þétt dagskrá þessa daga s.s. Vigurferð, leiksýning, skíðaferð o.fl. 

Í kvöld stendur svo 10. bekkur fyrir fjölmenningarkvöldi í Edinborgarhúsinu kl. 20:30, í tengslum við þessa kærkomnu heimsókn. Þar verður boðið upp á vandaða dagskrá s.s. tónlist, ljóðalestur, dans o.fl. frá hinum ýmsu löndum. Léttar veitingar verða í boði og er aðgangseyrir aðeins kr. 500 og allir hjartanlega velkomnir.