VALMYND ×

Fréttir

Tilnefning til hvatningarverðlauna ÖBÍ

Hluti af nemendum 6. og 9. bekkjar s.l. vor ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur, kennara.
Hluti af nemendum 6. og 9. bekkjar s.l. vor ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur, kennara.
1 af 2

Síðastliðið vor unnu þáverandi 6. og 9. bekkur  saman að verkefni varðandi aðgengi fatlaðra á Ísafirði að frumkvæði Ingibjargar Sigríðar Guðmundsdóttur, kennara. Umsjónarkennarar bekkjanna, þær Bergljót Halldórsdóttir, Hlíf Guðmundsdóttir, Bryndís Bjarnason og Guðríður Sigurðardóttur voru nemendum innan handar við vinnu og skipulag verkefnisins.

Það er skemmst frá því að segja að nú hefur Öryrkjabandalag Íslands tilnefnt verkefnið til hvatningarverðlauna sinna og býður aðstandendum á afhendingarhátíð í Silfurbergi í Hörpu 3. desember n.k. kl. 17:00 -19:00.

Í ár bárust 122 tilnefningar um 75 aðila. Það er mikill heiður að vera tilnefndur því í því felst að verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli, hvort heldur til verðlauna kemur eður ei.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á þeim sem hafa stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Verðlaunin eru veitt á alþjóðadegi fatlaðra, 3. desember, ár hvert og eru nú afhent í áttaunda sinn. Þau eru veitt í þrem flokkum, flokki einstaklinga, fyrirtækja/stofnana og umfjöllunar/kynningar, þrjár tilnefningar eru í hverjum flokki og ein verðlaun verða veitt í hverjum þeirra. 

Foreldrar og forvarnir

Heimili og skóli, landssamtök foreldra, stendur fyrir fræðslufundi í sal skólans kl. 20:00 í kvöld. Þar verður farið yfir það sem foreldrar geta gert til að efla forvarnir og styðja börn sín í uppvextinum. Fræðslan er öllum opin og eru allir foreldrar hvattir til að mæta. Aðgangur er ókeypis.

Marita fræðsla

Í morgun hélt Magnús Stefánsson hjá Marita fræðslunni fyrirlestur fyrir 5. og 6. bekk í sal skólans í boði VáVest hópsins. Forvarnarfélagið Hættu áður en þú byrjar heldur úti Maritafræðslunni sem er verkefni sem fræðir börn, unglinga og foreldra þeirra um skaðsemi fíkniefna o.fl. 

Í fræðslunni í morgun var lögð áhersla á að setja sér markmið í lífinu, standa með sjálfum sér og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl. Nemendur tóku fræðslunni afar vel og voru virkir í umræðum, enda mjög meðvitaðir krakkar.

Í kvöld heldur Magnús svo fyrirlestur fyrir unglingastig skólans kl. 20:00 í sal skólans og eru foreldrar einnig velkomnir.

Lestrarhestar G.Í.

Landsleiknum Allir lesa lauk á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember s.l. Tuttugu starfsmenn Grunnskólans á Ísafirði skráðu sig til leiks undir nafninu Grisa1 og kepptu í vinnustaðaflokki 10-29 starfsmanna.

Starfsmenn G.Í. stóðu sig aldeilis vel og höfnuðu í 4. sæti flokksins af 50 liðum.

Kynfræðsla

Sigríður Dögg Arnardóttir (mynd: siggadogg.is)
Sigríður Dögg Arnardóttir (mynd: siggadogg.is)

Í vikunni kom Sigríður Dögg Arnardóttir, kynfræðingur og ræddi við nemendur 9. og 10. bekkjar um kynlíf, klám og ýmislegt annað um samskipti einstaklinga. Einnig hélt hún fyrirlestra fyrir foreldra og starfsfólk skólans.

Mikil ánægja var með fyrirlestrana, enda ekki oft sem rætt er um þessi mál á jafn opinskáan og hreinskilinn hátt og Sigríður Dögg gerir og voru nemendur sérstaklega duglegir að bera upp spurningar.

Samsöngur

Frá því að skólanum var færður flygill að gjöf haustið 2008, hefur sú góða hefð skapast að nemendur 1. - 7. bekkjar hittast í tveimur hópum í dansstofu skólans og syngja saman. Samsöngurinn er vikulegur og undirleik annast Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri.

Nú þegar líða fer að aðventu má búast við að jólatónar fari að hljóma um skólann og verður það virkilega notalegt í svartasta skammdeginu.

 

Kýpurferð

Nemendur á Kýpur
Nemendur á Kýpur

Vikuna 2. - 7. nóvember s.l.  voru umsjónarkennarar 8. bekkjar, þær Herdís M. Hübner og Monica Mackintosh, á ferðalagi um Kýpur vegna Comeniusarverkefnisins All different, all the same, Europe‘s Children, sem skólinn er aðili að. Þar hittu kennarar og nemendur frá Póllandi, Portúgal, Rúmeníu og Íslandi, félaga sína á Kýpur og fræddust um land þeirra og þjóð.

Ferðin var mjög fræðandi og margt merkilegt að sjá og heyra eins og sjá má í samantekt ferðasögu þeirra Herdísar og Monicu.

 

 

Dagur íslenskrar tungu

Sunnudaginn 16. nóvember er Dagur íslenskrar tungu. Hann hefur verið haldinn hátíðlegur um allt land frá árinu 1996 á þessum degi sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. 

Á mánudaginn verður dagskrá í Hömrum af þessu tilefni og mun Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk verða sett þá. Einnig hefst svokölluð skáldavika, þar sem eitt íslenskt skáld er kynnt sérstaklega og varð Andri Snær Magnason fyrir valinu í þetta skiptið.

Jól í skókassa

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. 7. bekkur G.Í. hefur undanfarnar vikur safnað ritföngum, leikföngum, sælgæti, fötum og hreinlætisvörum og náðu krakkarnir að fylla rúmlega 20 kassa, sem þeir skiluðu til Ísafjarðarkirkju, sem er móttökuaðili verkefnisins.

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu en þar búa um 46 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Foreldradagur

Miðvikudaginn 12. nóvember er foreldradagur og mæta þá nemendur í viðtöl til sinna umsjónarkennara, ásamt foreldrum. Opnað hefur verið fyrir tímapantanir á mentor.is og geta foreldrar valið sér hentugar tímasetningar.

Í dag fengu nemendur í 5. - 10. bekk sjálfsmatseyðublað, sem þeir eru beðnir að fylla út ásamt foreldrum og skila í viðtölunum.