VALMYND ×

Fréttir

Lestrarsprettur

Paralestur í 5. bekk
Paralestur í 5. bekk

Í skólanum er mikil áhersla lögð á lestur, enda er hann grunnur að öllu frekara námi. Þessa dagana er sérstakur lestrarsprettur, þar sem reynt er að útfæra lesturinn á fjölbreyttan hátt. Sem dæmi um slíkt er paralestur þar sem tveir lesa saman sömu bókina og skiptast á við lesturinn, lestrarbingó, lestrarkapp með tímatöku og fleira.

Við vonum að þessi sprettur okkar skili árangri og hvetji einnig alla til að vera duglega við heimalesturinn.

 

,,Ber það sem eftir er"

Miðvikudaginn 29. apríl kl. 20:00 verður fluttur fyrirlestur í sal Grunnskólans á Ísafirði undir yfirskriftinni Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið en um er að ræða fræðslu fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ganga nektarmyndir af íslenskum börnum manna á milli á netinu, en lögreglunni hefur reynst erfitt að bregðast við vandamálinu. Dreifingin er stjórnlaus og netið gleymir engu. Sexting (að skiptast á nektarmyndum) meðal barna og unglinga eykur á vandann. Rík þörf er fyrir vitundarvakningu – og upplýstir foreldrar eru besta forvörnin. Ef ekkert er aðhafst gætu fleiri börn lent í því að vera ber það sem eftir er á netinu.

 

Aðgangur er ókeypis og allir foreldrar eru hvattir til að mæta á fyrirlesturinn enda mikilvægt að kynna sér áskoranirnar sem fylgja tækninýjungum, þótt börnin séu enn ung að árum. Fræðslan er í höndum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, höfundar verðlaunamyndanna Fáðu já! og Stattu með þér! sem notaðar eru í kennslu í grunnskólum landsins. Styrktaraðili átaksins er Vodafone.

 

7. sæti í Skólahreysti

Úrslitin í kvöld
Úrslitin í kvöld

Keppendur Grunnskólans á Ísafirði í Skólahreysti stóðu sig mjög vel í úrslitum keppninnar í kvöld. Skólinn endaði í 7. sæti með 40,5 stig, en Holtaskóli í Reykjanesbæ sigraði með 58,5 stig.

Við óskum okkar fólki, bæði keppendum, þjálfara og stuðningsmönnum, innilega til hamingju og góðrar heimferðar.

1. bekkingar fá reiðhjólahjálma

Gunnlaugur Gunnlaugsson, Rannveig Pálsdóttir og Árný Herbertsdóttir ásamt nemendum 1. bekkjar með hjálmana góðu.
Gunnlaugur Gunnlaugsson, Rannveig Pálsdóttir og Árný Herbertsdóttir ásamt nemendum 1. bekkjar með hjálmana góðu.

Í morgun kom Gunnlaugur Gunnlaugsson, umdæmisstjóri Kiwanishreyfingarinnar, færandi hendi og gaf öllum nemendum 1. bekkjar reiðhjólahjálma að gjöf. Það munu vera 25 ár síðan hreyfingin hóf að gefa slíka hjálma og er fjöldi þeirra kominn upp í 120-130 þúsund stykki.

Það munu vera öruggir krakkar sem hjóla út í sumarið á komandi vikum og ekki vafi að þessar rausnarlegu gjafir koma sér vel.

Löng helgi framundan

Á morgun, fimmtudaginn 23. apríl er sumardagurinn fyrsti og venju samkvæmt er engin kennsla þann dag. Föstudaginn 24. apríl er svo vorfrí og því fjögurra daga frí framundan. 

Úrslit í skólahreysti

Keppendur G.Í. frá vinstri: Gunnar Þór, Guðný Birna, Katrín Ósk, Birkir, Einar Torfi og Eva Rún.
Keppendur G.Í. frá vinstri: Gunnar Þór, Guðný Birna, Katrín Ósk, Birkir, Einar Torfi og Eva Rún.

Á miðvikudaginn fer fram úrslitakeppnin í Skólahreysti í Laugardalshöll kl. 20:00. Þar munu þau 12 lið sem sigruðu sína riðla keppa um meistaratitilinn. Eins og allir vita, þá vann G.Í. Vestfjarðariðilinn fyrr á árinu og munu krakkarnir okkar mæta galvaskir til leiks. Fyrir hönd G.Í. keppa þau Einar Torfi Torfason, Guðný Birna Sigurðardóttir, Gunnar Þór Valdimarsson og Katrín Ósk Einarsdóttir. Varamenn eru þau Birkir Eydal og Eva Rún Andradóttir.

Nokkur hópur stuðningsmanna mun fylgja okkar liði suður, en einnig er hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á RUV. Við óskum okkar fólki góðrar ferðar og góðs gengis.

Boðið í dans

1 af 3

Í morgun bauð Eva Friðþjófsdóttir, danskennari, leikskólakrökkunum af Eyrarsól í danstíma hér í skólanum. Það var virkilega gaman að sjá hversu vel þessir krakkar stóðu sig og eru þeir svo sannarlega efnilegir í dansfiminni, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Skemmtikvöld 10. bekkjar

Síðastliðinn þriðjudag héldu nemendur 10. bekkjar skemmtikvöld í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins fyrir gestina frá Kaufering í Þýskalandi. Þar komu fram margir hæfileikaríkir nemendur úr 10. bekk, sem spiluðu, sungu og lásu upp ljóð. Gestirnir halda svo heim á leið á morgun.

Nemendatónleikar

Nemendur 4. og 8. bekkjar komu saman á nemendatónleikum í Hömrum í gær, 15. apríl. Allir nemendur í þessum árgöngum sem eru í tónlistarnámi, hvort sem er í Tónlistarskóla Ísafjarðar eða Listaskóla Rögnvaldar, léku eitt eða fleiri lög fyrir skólasystkini sín og var þetta mjög fjölbreytt og skemmtileg dagskrá. Leikið var á píanó, fiðlu, gítar, trommur og þverflautu og er óhætt að segja að allir hafi staðið sig vel, bæði tónlistarmenn og áheyrendur.

Það er gaman fyrir tónlistarnemana að fá þetta tækifæri til að sýna hvað þeir eru að fást við og eins er hvetjandi fyrir áheyrendur að sjá þessa hlið á skólafélögum sínum um leið og þeir skemmta sér og læra hvernig á að hegða sér á samkomum sem þessum. 

Þetta er ákaflega skemmtileg hefð og þökkum við Tónlistarskóla Ísafjarðar kærlega fyrir að bjóða okkur á þessa ánægjulegu samkomu.

 

Útikennsla

1 af 3

Með hækkandi sól fjölgar kennslustundum utan dyra. Í gær nýtti 2. bekkur sér góða veðrið til útiveru í stærðfræði og náttúrufræði.

Annar hópurinn fór í klukkubingó í blómagarðinum þar sem þurfti að finna gula miða og athuga hvort sami tími passaði við klukkur á bingóspjaldinu.

Hinn hópurinn fór í vettvangsferð með myndavélar og spjaldtölvu til fuglaskoðunar. Hópurinn sá nokkrar tegundir fugla og náði að smella af nokkrum myndum áður en þeir flugu í burtu.