VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn í 3X Technology

Í fyrradag var nemendum 10. bekkjar boðið í heimsókn í 3X Technology. Þar tók Karl Ásgeirsson rekstrarstjóri á móti hópnum, kynnti fyrirtækið og sýndi alla þá ótrúlega miklu hönnun og framleiðslu sem þar fer fram. Að lokum fengu allir veitingar og voru leystir út með gjöf eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Nemendur voru hæstánægðir með heimsóknina og þakka kærlega höfðinglegar móttökur.

 

Nýtt nemendaráð G.Í.

Í morgun fór fram kjör formanns nemendaráðs Grunnskólans á Ísafirði 2015-2016. Nýr formaður var kosinn Bjarni Pétur Marel Jónasson og varaformaður verður Ólöf Einarsdóttir.

Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að vinna með þeim næsta vetur.

Vordagskrá 2015

Nú er skipulagið fyrir vordaga komið hér inn á síðuna og hvetjum við alla til að kynna sér það vel. Nánari upplýsingar t.d. tímasetningar ferða og slíkt, verða sendar heim þegar nær dregur.

Grænmetisræktun hjá 1. bekk

1. bekkur að huga að grænmetisræktun
1. bekkur að huga að grænmetisræktun
1 af 12

Það er ekki einungis 4. bekkur sem farinn er að huga að grænmetisræktun. Fyrsti bekkur undirbýr nú vorkomuna með því að láta kartöflur spíra og sá baunum og kryddjurtum. Krakkarnir eru líka mjög duglegir að borða grænmeti og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, þá er einnig hægt að gera heil listaverk úr grænmetinu.

Tómatarækt í 4. bekk

1 af 4

Það eru ýmis störf sem tekin eru fyrir núna á vordögum. Í heimilisfræðinni eru krakkarnir i 4. bekk til dæmis að rækta tómataplöntur. Í dag var umpottað og nú gerum við okkur vonir um að plönturnar taki vaxtarkipp og við förum jafnvel að sjá blóm fara að myndast. Við fylgjumst spennt með framhaldinu á næstu vikum.

Samvera hjá 2. og 3. bekk

Í mörg ár hefur tíðkast sá skemmtilegi siður hér í skólanum að hafa svokallaða samveru hjá yngri bekkjum. Í síðustu viku hittust 2. og 3. bekkur og höfðu þannig samverustund. Margir nemendur stigu á stokk og sýndu hæfileika sína á ýmsum sviðum og má þar nefna söng, fiðludúett, brandara, töfrabrögð, grínatriði, pýramída og fleira.  Það getur reynst erfitt fyrir krakka að standa fyrir framan stóran hóp og leika listir sínar, en þessir krakkar eru orðnir vanir að koma fram og stóðu sig eins og hetjur. Í lokin sungu krakkarnir svo árshátíðarlögin sín og hafa engu gleymt. 

Mánuður eftir af skólastarfinu

Það styttist óðum í skólalok þetta skólaárið, en síðasti kennsludagur er 3. júní. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á vorskipulagið og mun það birtast fljótlega hér á síðunni.

Við minnum á að skóladagatalið í heild sinni er að finna hér ef fólk vill hafa það til hliðsjónar við skipulagningu sumarfrísins. Við megum ekki gleyma því að þó að lítið bóklegt nám fari fram hér í skólanum síðustu kennsludagana, að þá er heilmikið annað sem nemendur fá út úr þeim dögum. 

1. maí

Á morgun er 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins og engin kennsla.

Góður fyrirlestur um hrelliklám

1 af 3

Í gær hélt Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fyrirlestur fyrir foreldra í sal skólans um þá hættu sem myndbirtingar á Netinu geta valdið. Í morgun var 5. - 10. bekk einnig boðið upp á slíka fræðslu og rætt um þær alvarlegu afleiðingar sem hrelliklám og sexting getur haft á börn. Krakkarnir voru mjög opinskáir og spurðu góðra spurninga og spruttu upp góðar umræður um þessi viðkvæmu en mikilvægu mál.

Töfrastund

1 af 2

Í morgun fengum við töframennina Einar Mikael og Eyrúnu Önnu í heimsókn og sýndu þau nemendum 1. - 4. bekkjar nokkur töfrabrögð við mikinn fögnuð. Í lokin færðu þau svo öllum töfraspil að gjöf.

Samkvæmt heimasíðu Einars er hann færasti sjónhverfingamaður sem Ísland hefur átt. Hann smíðar allar sínar sjónhverfingar sjálfur enda með sveinspróf í sjónhverfingum og smíðum.