VALMYND ×

Fréttir

Löng helgi framundan

Á morgun, fimmtudaginn 23. apríl er sumardagurinn fyrsti og venju samkvæmt er engin kennsla þann dag. Föstudaginn 24. apríl er svo vorfrí og því fjögurra daga frí framundan. 

Úrslit í skólahreysti

Keppendur G.Í. frá vinstri: Gunnar Þór, Guðný Birna, Katrín Ósk, Birkir, Einar Torfi og Eva Rún.
Keppendur G.Í. frá vinstri: Gunnar Þór, Guðný Birna, Katrín Ósk, Birkir, Einar Torfi og Eva Rún.

Á miðvikudaginn fer fram úrslitakeppnin í Skólahreysti í Laugardalshöll kl. 20:00. Þar munu þau 12 lið sem sigruðu sína riðla keppa um meistaratitilinn. Eins og allir vita, þá vann G.Í. Vestfjarðariðilinn fyrr á árinu og munu krakkarnir okkar mæta galvaskir til leiks. Fyrir hönd G.Í. keppa þau Einar Torfi Torfason, Guðný Birna Sigurðardóttir, Gunnar Þór Valdimarsson og Katrín Ósk Einarsdóttir. Varamenn eru þau Birkir Eydal og Eva Rún Andradóttir.

Nokkur hópur stuðningsmanna mun fylgja okkar liði suður, en einnig er hægt að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á RUV. Við óskum okkar fólki góðrar ferðar og góðs gengis.

Boðið í dans

1 af 3

Í morgun bauð Eva Friðþjófsdóttir, danskennari, leikskólakrökkunum af Eyrarsól í danstíma hér í skólanum. Það var virkilega gaman að sjá hversu vel þessir krakkar stóðu sig og eru þeir svo sannarlega efnilegir í dansfiminni, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Skemmtikvöld 10. bekkjar

Síðastliðinn þriðjudag héldu nemendur 10. bekkjar skemmtikvöld í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins fyrir gestina frá Kaufering í Þýskalandi. Þar komu fram margir hæfileikaríkir nemendur úr 10. bekk, sem spiluðu, sungu og lásu upp ljóð. Gestirnir halda svo heim á leið á morgun.

Nemendatónleikar

Nemendur 4. og 8. bekkjar komu saman á nemendatónleikum í Hömrum í gær, 15. apríl. Allir nemendur í þessum árgöngum sem eru í tónlistarnámi, hvort sem er í Tónlistarskóla Ísafjarðar eða Listaskóla Rögnvaldar, léku eitt eða fleiri lög fyrir skólasystkini sín og var þetta mjög fjölbreytt og skemmtileg dagskrá. Leikið var á píanó, fiðlu, gítar, trommur og þverflautu og er óhætt að segja að allir hafi staðið sig vel, bæði tónlistarmenn og áheyrendur.

Það er gaman fyrir tónlistarnemana að fá þetta tækifæri til að sýna hvað þeir eru að fást við og eins er hvetjandi fyrir áheyrendur að sjá þessa hlið á skólafélögum sínum um leið og þeir skemmta sér og læra hvernig á að hegða sér á samkomum sem þessum. 

Þetta er ákaflega skemmtileg hefð og þökkum við Tónlistarskóla Ísafjarðar kærlega fyrir að bjóða okkur á þessa ánægjulegu samkomu.

 

Útikennsla

1 af 3

Með hækkandi sól fjölgar kennslustundum utan dyra. Í gær nýtti 2. bekkur sér góða veðrið til útiveru í stærðfræði og náttúrufræði.

Annar hópurinn fór í klukkubingó í blómagarðinum þar sem þurfti að finna gula miða og athuga hvort sami tími passaði við klukkur á bingóspjaldinu.

Hinn hópurinn fór í vettvangsferð með myndavélar og spjaldtölvu til fuglaskoðunar. Hópurinn sá nokkrar tegundir fugla og náði að smella af nokkrum myndum áður en þeir flugu í burtu.

Heimsókn frá Kaufering

Síðastliðið haust hélt hópur 10. bekkinga G.Í. og G.Þ. ásamt kennurum til Kaufering, vinabæjar Ísafjarðarbæjar í Þýskalandi.

Nú er komið að Þjóðverjum að endurgjalda heimsóknina og eru 8 nemendur ásamt 3 skólastarfsmönnum frá Kaufering, í heimsókn hjá okkur þessa vikuna. Hópurinn gistir í heimahúsum hjá nemendum 10. bekkjar G.Í. og mun hafa nóg fyrir stafni alla vikuna. Grunnskólar Ísafjarðarbæjar verða allir heimsóttir, auk þess sem litið verður inn í nokkur fyrirtæki í bæjarfélaginu. Þá verður haldið menningarkvöld, farið í bíó, borðað saman í Tjöruhúsinu og í stjórnsýsluhúsinu með bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, svo fátt eitt sé nefnt. Hópurinn heldur svo heim á leið á föstudaginn.

 

Blár apríl

Alþjóðlegur dagur einhverfu var 2. apríl síðastliðinn og stendur styrktarfélag barna með einhverfu fyrir styrktar- og vitundarátakinu Blár apríl. Stofnanir og fyrirtæki verða meðal annars lýst upp í bláum lit þennan mánuðinn.

Rétt eins og blæbrigði bláa litarins eru birtingarmyndir einhverfu óteljandi því hver einstaklingur hefur sinn stað
á rófinu með öllum þeim áskorunum sem einhverfu fylgja.

Við hvetjum starfsfólk og nemendur skólans til að klæðast einhverju bláu af þessu tilefni föstudaginn 10. apríl næstkomandi.

Dagur barnabókarinnar

Á hverju ári standa alþjóðasamtök IBBY fyrir degi barnabókarinnar – tilefni sem er nýtt til þess að vekja athygli á bókum handa börnum og bóklestri barna.
Íslandsdeild samtakanna heldur sem fyrr upp á daginn með því að færa öllum grunnskólanemum landsins smásögu að gjöf. Í ár hefur Gunnar Helgason skrifað söguna Lakkrís – eða Glæpur og refsing sem hentar lesendum á aldrinum sex til sextán ára. Sagan verður lesin á RUV í dag fimmtudaginn 9. apríl kl. 9:10.

Nýtt fréttabréf

Nýtt fréttabréf Grunnskólans fyrir mars er nýkomið út og má sjá hér. Þar er stiklað á stóru í því fjölbreytta starfi sem fram fer í skólanum og virkilega gaman að sjá hvað nemendur og starfsfólk eru að fást við.