VALMYND ×

Fréttir

Fjallgöngur

Við njótum þeirra forréttinda hér á Ísafirði að vera í nánum tengslum við náttúruna og þurfum ekki langt að fara til að njóta hennar. Í allmörg ár hafa árgangar skólans farið í fjallgöngur að hausti og á hver árgangur ,,sitt fjall" eða gönguleið. Þannig hafa 1. bekkingar gengið upp í Stórurð, 4. bekkingar í Naustahvilft og 7. bekkingar upp að Fossavatni, svo dæmi séu tekin. Við lok 10. bekkjar þekkja nemendur því vel nærumhverfi sitt og mörg örnefni.

Þessa vikuna má búast við að sjá nemendur skólans upp um fjöll og firnindi, enda spáir vel næstu daga. 

Við bendum á að nú eru engar bekkjarsíður hér á heimasíðunni, en fréttir frá hverjum og einum árgangi verða settar inn á mentor.is.

Heimferðin gengur vel

Heimferðin frá Reykjum gengur vel.  Rútan var í Hólmavík um 14:30 og því má búast við að hún verði við skólann um 17:30.

7. bekkur á heimleið frá Reykjum

Nú er 7. bekkur á heimleið frá skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði, eftir vel heppnaða dvöl. Áætluð heimkoma er á milli kl. 18:00 og 19:00 í kvöld, en nákvæmari tímasetning mun koma hér inn á síðuna þegar nær dregur.

Veikindaskráningar í mentor

Nú hefur verið opnað fyrir veikindaskráningu í gegnum www.mentor.is og geta foreldrar nú sjálfir skráð börn sín veik. Hægt er að skrá samdægurs og einn dag fram í tímann. Þetta er gert með því að fara inn á mentor, velja fjölskdylduvef, síðan dagbók og skrá veikindi, hvern veikindadag. Foreldri sem skráir barnið fær staðfestingu í tölvupósti þegar skráningin hefur verið samþykkt af skólanum. Ef um önnur forföll er að ræða verður að hafa samband við skólann. 
Vonumst við til að þessi nýbreytni geti orðið til aukinna þæginda. /SOV

Heimsókn í Arnarfjörð

9. bekkur fór í heimsókn á Hrafnseyri og í Mjólkárvirkjun í dag, 26. ágúst. Ferðin gekk vel, veðrið var gott og allir hressir. Staðarhaldari á Hrafnseyri, Valdimar Halldórsson, tók á móti hópnum og byrjaði á að sýna rústir gömlu kirkjunnar og segja frá henni og ýmislegt um sögu staðarins. Síðan fór hópurinn í kapelluna þar sem sagt var meira frá sögu staðarins, Hrafni Sveinbjarnarsyni og Jóni Sigurðssyni. Eftir það var hópnum skipt upp, helmingurinn fór í gamla bæinn og borðaði nesti en hinn helmingurinn í safnið. Síðan var víxlað. Eftir það var farið út í leiki, veðrið var gott eins og fyrr segir og krakkarnir fengu lánaðan bolta og kylfu og léku sér á túninu fyrir framan bæinn. 
Um kl. 11 fór hópurinn svo aftur upp í rútu, þakkaði kærlega fyrir góðar móttökur og hélt áfram inn í fjörðinn og heimsóttum Mjólkárvirkjun. Þar var boðið upp á ágæta leiðsögn og upplýsingar og vélasalurinn skoðaður. 
Þegar því var lokið var haldið heim á leið og eftir stendur skemmtileg ferð og afskaplega fróðleg. 

Líkamsvitund barna og unglinga

Heimsókn Tómasar í 6.HS
Heimsókn Tómasar í 6.HS

Í dag fengu 5. og 6. bekkur heimsókn frá Tómasi Emil Guðmundssyni Hansen, sjúkraþjálfara. Tómas fór yfir mikilvægi hreyfingar og réttrar líkamsstöðu, ekki síst í sambandi við tölvur, spjaldtölvur og lestur. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og spurðu mikið og er alveg viðbúið að einhverjir foreldrar fá leiðbeiningar barna sinna eftir daginn.

Nýtt skólaár hafið

Í dag hófst nýtt skólaár hjá nemendum með foreldraviðtölum, þar sem allir settu sér markmið varðandi einelti, vinnufrið og ábyrgð á eigin námi í vetur. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá á morgun.

Í morgun fór 7. bekkur í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði, þar sem nemendur dvelja fram á föstudag. Nemendur 10. bekkjar eru einnig á faraldsfæti þessa dagana, en þeir munu halda í árlega Hornstrandaferð á morgun þriðjudag og koma til baka á miðvikudag. Aðrir árgangar munu skreppa í sínar fjallaferðir á næstu dögum og vikum, eftir því sem veður og aðrar aðstæður leyfa.

Nýtt fréttabréf

Fyrsta fréttabréf skólaársins hefur nú litið dagsins ljós og er aðgengilegt hér á vefnum. Við hvetjum foreldra til að kynna sér innihald þess, en þar koma m.a. fram upplýsingar varðandi foreldraviðtölin á mánudaginn.

Skólasetning

Skólasetning verður með öðru sniði en venjulega í skólanum. Mánudaginn 24. ágúst mæta nemendur og foreldrar í viðtöl til umsjónarkennara. Í viðtölunum er gert ráð fyrir að nemendur setji sér markmið fyrir ábyrgð og vinnu í skólanum. Opnað verður fyrir skráningar í viðtölin 19. ágúst. 

Innkaup

Nemendum er séð fyrir nánast öllum gögnum sem þeir þurfa til náms í skólanum.  Gert er ráð fyrir að  nemendur í 1.-7. bekk sjái sér sjálfir fyrir skriffærum og nemendur unglingastigs sjái sér sjálfir fyrir skriffærum, reglustiku, gráðuboga og litum.  Nemendur fá allar stíla – og reikningsbækur og möppur í skólanum.