VALMYND ×

Fréttir

Síðasti kennsludagur skólaársins

Í dag var síðasti kennsludagur þessa skólaárs. Á morgun er frí hjá nemendum, en á föstudaginn er skólaslitadagur. Þá mæta nemendur 1. bekkjar í viðtöl hjá umsjónarkennurum og nemendur 2. - 7. bekkjar mæta í sínar umsjónarstofur kl. 10:00 og taka við vitnisburðum vetrarins.

Skólaslit verða svo í Ísafjarðarkirkju kl. 20:00 þar sem nemendur 8. - 10. bekkjar fá sína vitnisburði.

Póllandsferð

íslenski hópurinn í Kraká
íslenski hópurinn í Kraká

Haustið 2013 hóf G.Í.  þátttöku í Comeniusarverkefninu All different, all the same, Europe‘s children, í samstarfi við skóla í Kýpur, Portúgal, Rúmeníu og Póllandi. Markmið verkefnisins var að auka víðsýni og umburðarlyndi og draga úr fordómum, með sérstakri áherslu á Róma-fólk sem er sá minnihlutahópur sem stendur höllustum fæti í Evrópu.

Samstarfið byrjaði á því að 10. bekkur á síðasta ári vann ýmiss konar verkefni með þetta markmið í huga. Umsjónarkennarar þeirra fóru til Sibiu í Rúmeníu í október og var þar fyrsti fundur kennaranna sem stýrðu samstarfinu. Í mars fóru kennararnir ásamt 10 nemendum og skólastjóra til Leiría í Portúgal og dvöldu þar í viku. Í lok apríl tóku nemendur og kennarar 10. bekkjar svo á móti hópi gesta frá hinum þátttökulöndunum á Ísafirði.  

S.l. haust tók 8. bekkur við verkefninu og umsjónarkennararnir fóru til Kýpur í nóvember. Síðasta heimsóknin var svo í lok maí og þá fór hópur nemenda úr 8. bekk ásamt umsjónarkennurum og skólastjóra til borgarinnar Zabrze í Póllandi. Ferðin stóð í viku, frá 24. til 30. maí.


Meira

Súðavíkurheimsókn

1 af 3

Í morgun hélt 9. bekkur til Súðavíkur og heimsótti Melrakkasetrið og Raggagarð. Krakkarnir létu kuldann ekkert á sig fá og brugðu á leik í Raggagarði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Vorverkadagur

Vinabekkirnir 1. og 8. bekkur settu niður kartöflur.
Vinabekkirnir 1. og 8. bekkur settu niður kartöflur.

Í dag var vorkverkadagur í skólanum í samvinnu við Ísafjarðarbæ. Hver og einn árgangur fékk ákveðið verk t.d. að tína rusl, sá grasfræjum, gróðursetja, setja niður kartöflur, pússa, mála o.fl. Veðrið stöðvaði okkur ekki í dag þó heldur væri svalt, en við létum það ekkert á okkur fá og héldum okkar striki.

Eftir góða vinnutörn bauð mötuneytið öllum upp á grillaðar pylsur og svaladrykki eftir góðan morgun.

Myndir frá vorverkadeginum má finna hér.

 

Sveitaferð

Á vorin er fastur liður í skólastarfinu að fara í sveitaferð. 3. bekkur fór í slíka ferð í gær að Hólum í Dýrafirði, þar sem bændurnir Ásta og Friðbert tóku á móti þeim.  Hópurinn skoðaði fjárhúsin, kindurnar og lömbin sem sum voru nýfædd en önnur lengra komin.  Þar var heimaalningurinn Óli sem fékk nokkra til að þjóna sér og leiddist börnunum það ekki.  Ásta sýndi hópnum veðurathugunarstöðina sem þau fylgjast með og eftir það var skroppið í skemmuna að þiggja hressingu.

Eftir það lá leiðin í skólann aftur, þar sem allir áttu notaleg stund eftir skemmtilegan dag.

3. bekkur þakkar bændunum á Hólum í Dýrafirði kærlega fyrir góðar móttökur.

Vorverkadegi frestað

Samkvæmt vorskipulagi var stefnt að vorverkadegi á morgun fimmtudag. Vegna óhagstæðrar veðurspár hefur hann verið færður til föstudags. Umsjónarkennarar senda sínum árgöngum upplýsingar varðandi skipulag morgundagsins.

Heimsókn til Suðureyrar

Síðastliðinn fimmtudag buðu fiskvinnslufyrirtækin Íslandssaga og Klofningur á Suðureyri nemendum 1. bekkjar í heimsókn. Þetta var mikil ævintýraferð og sáu krakkarnir margskonar sjávardýr, sel, hval og marga fiska. Krakkarnir fengu höfðinglegar móttökur og fengu allir köku og safa auk 1 kg. kassa af fyrsta flokks þorski. Það voru aldeilis sælir krakkar sem komu heim eftir þessu góðu Suðureyrarheimsókn og þökkum við fiskvinnslunum kærlega fyrir þetta rausnarlega heimboð.

Löng helgi framundan

Á mánudaginn er annar í hvítasunnu og því löng helgi framundan. Eftir það taka svo við óhefðbundnir skóladagar eins og sjá má á vordagskránni hér vinstra megin á síðunni.

Danssýningar

3. bekkur
3. bekkur
1 af 7

Undanfarna daga hafa 1. - 4. bekkir skólans boðið foreldrum upp á danssýningar, þar sem nemendur hafa sýnt hvað þeir hafa lært í vetur. Krakkarnir stóðu sig með eindæmum vel og foreldrarnir ekki síður, þar sem margir hverjir skelltu sér út á gólfið og tóku þátt í dansinum með krökkunum. 

Kveðjukaffi 10. bekkjar

1 af 3

Í dag er síðasti hefðbundni skóladagur 10 bekkjar - árgangs 1999. Af því tilefni klæddu margir nemendur sig upp og starfsfólk skólans bauð þeim í kveðjukaffi á kaffistofunni.

Næstu daga eru prófadagar hjá árganginum og í næstu viku verður farið í vorferðalag að Bakkaflöt í Skagafirði. Að því loknu taka við starfskynningar og skólaslit.