Bókasafnsmánuður
Grunnskólinn á Ísafirði og Bæjarbókasafnið hafa sammælst um að efla samstarf sín á milli og verður næsti mánuður því nokkurs konar bókasafnsmánuður í skólanum. Hann hófst í dag, 14. október, með því að allir nemendur á unglingastigi fóru upp á bókasafn og hlýddu á fyrirlestur Ómars Smára Kristinssonar myndlistarmanns um teiknimyndasögur. Farið var í nokkrum hópum enda ekki pláss fyrir alla nemendur í 8.-10. bekk í einu í sal bókasafnsins. Ómar Smári er manna fróðastur um teiknimyndasögur og var fyrirlesturinn bæði mjög fróðlegur og skemmtilegur og er útilokað annað en að hann hafi kveikt áhuga hjá mörgum unglinganna á að kynna sér heim teiknimyndasagnanna betur – enda er sá heimur mjög fjölbreyttur og hægt að finna allt mögulegt þar.
Þann 4. nóvember fara unglingarnir aftur að hlusta á fyrirlestur á bæjarbókasafninu, í það skiptið tekur Fjölnir Ásbjörnsson á móti þeim og talar um vísindaskáldsögur. Auk þess verður farið í fleiri heimsóknir af margvíslegu tilefni og m.a. verður gerð heimildamynd um bókasafnið./HMH
Deila