eTwinning verkefni hafið
Í fyrrahaust skráði skólinn sig í eTwinning verkefni (rafrænt skólastarf) á vegum Erasmus+ sem er styrkjaáætlun ESB á sviði menntamála, æskulýðsstarfs og íþrótta. Eitt markmiða Erasmus+ er að auka gæði í menntun og þjálfun innan þeirra 34 Evrópulanda sem eiga aðild að áætluninni og stuðla að aukinni Evrópuvídd í menntastarfi. Þátttakendur í þetta skiptið eru auk Íslands; Króatía, Þýskaland, Lettland, Portúgal og Kýpur.
Fyrir skemmstu var skólanum veittur styrkur frá Landsskrifstofu Erasmus að upphæð 14.660 evrum eða rétt um 2 milljónum íslenskra króna. Þeir fjármunir verða nýttir í þróun og framkvæmd nýrra aðferða til kennslu í stærðfræði, vísindum og tungumálum í fjölþjóðlegum evrópskum kennslustofum, til að auka læsi og koma í veg fyrir að nemendur hætti snemma í námi og þá sérstaklega tví/fjöltyngdir nemendur.
Verkefnastjórar skólans eru þær Guðbjörg Halla Magnadóttir og Bryndís Bjarnason og eru þær nú farnar til Gaia í Portúgal á fyrsta fund verkefnisins, sem haldinn er dagana 21.-23. október.
Deila