VALMYND ×

Fréttir

Hinsegin fræðsla

Í morgun fengum við Sólveigu og Guðmundu, fulltrúa frá Samtökunum 78 í heimsókn í 8., 9. og 10. bekk. Tilgangur komunnar var að fræða nemendur um hinsegin hugtök, staðalmyndir, fordóma og hvernig fólk getur lagt sitt af mörkum við að gera skólaumhverfið og samfélagið hinseginvænt og opið fyrir hinsegin fólki. Farið var í gegnum helstu hinsegin hugtökin og tími gefinn fyrir nafnlausar spurningar frá nemendum og umræður um þær, enda voru nemendur mjög duglegir að spyrja hinna ýmsu spurninga um þessi mál.

 

Íþróttir innanhúss

Frá og með 3. október eru íþróttirnar kenndar innanhúss. Nemendur þurfa því að mæta með íþróttaföt og handklæði þá daga sem íþróttir eru á stundaskránni.

Tæknileg vandamál

Netþjónn skólans hefur ekki enn komist í lag eftir rafmagnsleysið í morgun og hefur því verið netsambandslaust í allan dag. Símkerfið er ekki heldur komið í lag, en skiptiborð skólans er tengt við símanúmerið 894-1688 sem tekur við öllum símtölum inn í skólann. Við bendum foreldrum einnig á að hægt er að skrá veikindi í gegnum mentor.is.

Á svona dögum erum við rækilega minnt á það hversu Netið er nauðsynlegt í okkar daglega lífi og starfi. Við vonum að allt verði fallið í ljúfa löð á morgun og þökkum fyrir að samræmdu könnunarprófin voru afstaðin!

Bilun í símkerfi

Símakerfi skólans hefur legið niðri eftir rafmagnsleysið í morgun og er unnið að viðgerð. Hægt er að ná sambandi við ritara í síma 894-1688.

Hollustan í fyrirrúmi

Grænmetisbaka með sætri chilisósu
Grænmetisbaka með sætri chilisósu
1 af 5

Valhópar á unglingastigi í heimilisfræði vinna að mjög fjölbreyttum verkefnum. Kennslan er að lang mestu leyti verkleg, en helstu markmið hennar eru þau að gera nemendur meðvitaða um gildi hollrar næringar og hjálpa þeim við að tileinka sér vönduð og góð vinnubrögð við matseld, sem án efa efla sjálfstæði og sjálfstraust þeirra. Í liðinni viku spreyttu nemendur sig á bráðhollu og gómsætu grænmetisfæði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. /GJ

Samræmd könnunarpróf í 4. bekk

Á morgun og föstudag verða samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði lögð fyrir nemendur í 4. bekk. Líkt og í 7. bekk í síðustu viku verða prófin lögð fyrir með rafrænum hætti. Almennt gengu prófin í 7. bekk vel og flest vandamál sem upp komu voru leyst í samstarfi Menntamálastofnunar og skólanna. Í nokkrum tilfellum gátu nemendur í 7. bekk ekki ritað broddstafi í ritunarþætti íslenskuprófsins, en það kom ekki að sök þar sem vandamálið var upplýst fyrir próftöku.

Skóladagur hjá 4. bekk verður með hefðbundnu sniði að prófunum slepptum. Nemendur mæta kl. 8:00 í skólann, prófin verða lögð fyrir frá kl. 9:00 - 10:10 og eftir það er hefðbundin kennsla. Nú er bara að vona að fyrirlögnin gangi jafn vel og hjá 7. bekk.

Heimferð frá Kaufering

Ísfirðingarnir voru kvaddir með gjöfum og veisluhöldum síðasta kvöldið í vinabæjarheimsókninni í Kaufering. Hópurinn kom til landsins í gær, sæll og glaður eftir frábæra dvöl í Bæjaralandi. Í apríl munu þýsku nemendurnir endurgjalda heimsóknina og verða þá væntanlega fagnaðarfundir.

Samræmd könnunarpróf

Á fimmtudag og föstudag verða lögð fyrir samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í 7. bekk. Þær breytingar verða á fyrirkomulagi prófanna að þau verða lögð fyrir með rafrænum hætti. Prófin hefjast klukkan 9:00 báða dagana og er próftími 80 mínútur.

Í næstu viku verður það svo 4. bekkur sem spreytir sig á fimmtudag í íslensku og á föstudag í stærðfræði. Prófin hjá þeim hefjast einnig kl. 9:00 og er próftími 70 mínútur.

Þá hefur verið ákveðið að halda samræmd könnunarpróf að vori í 9. bekk. Nemendur í 10. bekk skólaárið 2016-2017 munu þreyta próf vorið 2017, sömu daga og 9. bekkur, þ.e. dagana 7. - 9. mars.

Vinabæjarheimsókn til Kaufering

Í dag heldur hópur vaskra nemenda og kennara frá Ísafjarðarbæ til Þýskalands á vit ævintýra í vinabænum Kaufering í Bæjaralandi. Þetta eru sjö krakkar úr 10. bekk á Ísafirði og Þingeyri ásamt tveimur kennurum, þeim Herdísi Hübner og Monicu Mackintosh. Hópurinn mun dveljast þar ytra í eina viku og koma aftur heim laugardaginn 24. sept.

Nemendurnir dvelja á heimilum jafnaldra sinna í Kaufering og er ýmislegt spennandi á dagskrá vikunnar fyrir utan skólaheimsóknir. Er ekki að efa að hópurinn á skemmtilega og lærdómsríka viku framundan.​

Vinaliðar hefja störf

Vinaliðaverkefnið hefur nú sitt þriðja starfsár hér í skólanum, undir stjórn Árna Heiðars Ívarssonar, íþróttakennara. Vinaliðar sem kosnir voru lýðræðislegri kosningu, fengu þjálfun í dag varðandi sín hlutverk og eru með allt á hreinu og tilbúnir til starfa á mánudaginn.

Vinaliðaverkefnið snýst um það að setja upp leikstöðvar í frímínútunum hjá 4. - 6. bekk og stjórna vinaliðar því að allt fari vel fram á hverri stöð. Það er von skólans að með þessu finni allir eitthvað við sitt hæfi í frímínútunum og enginn verði afskiptur.