VALMYND ×

Fréttir

Lesfimi

Af hverju er alltaf verið að prófa börn í hraðlestri?

Er það ekki lesskilningurinn sem skiptir mestu máli?

 

Þetta eru góðar og gildar spurningar sem skólafólk heyrir stundum og hér skal reynt að svara þeim eftir bestu getu.

  • Við viljum forðast að tala um hraðlestur en notum frekar orðið lesfimi sem lýsir betur hvað átt er við, því ekki er eingöngu verið að prófa hversu hratt barnið les, heldur líka hversu rétt og örugglega. Villur eru dregnar frá atkvæðafjöldanum. Sá sem ekki skilur það sem hann les, gerir fleiri villur, getur jafnvel hlaupið yfir línur án þess að taka eftir því o.s.frv. þannig að skilningur getur líka haft mikil áhrif á niðurstöðuna á lesfimiprófi.
  • Lesfimipróf eru einföld og þægileg leið til að meta hversu góðum tökum nemendur hafa náð á lestrartækni. Lestrartækni er bara einn þáttur í góðu læsi, lesskilningur og framsögn eru aðrir þættir sem ekki eru síður mikilvægir og eru líka prófaðir. En tækni er ein af undirstöðum læsis, ásamt málþroska og orðaforða - enginn nær góðum lesskilningi án þess að hafa góð tök á lestrartækninni, góða lesfimi.
  • Þegar börn taka lesfimipróf er mikilvægt að aðstæður séu þægilegar og við reynum að gera börnin ekki stressuð. Við biðjum þau að lesa eðlilega, vanda sig að lesa rétt og halda vel áfram – ekki segja okkur söguna af Sigga frænda í miðju prófi, eins og stundum gerist – en ekki flýta sér. J
  • Við forðumst að ræða niðurstöður lesfimiprófanna við yngstu nemendurna, þær eru fyrst og fremst til upplýsingar fyrir okkur fullorðna fólkið, kennarana og foreldrana. Við viljum ekki ýta undir samkeppni og meting á milli barnanna þótt við hvetjum þau til að sinna lestrarnáminu vel og vera dugleg að lesa heima.
  • Þegar nemendur hafa náð 300 atkvæðum á mínútu er lokamarkmiði skólans náð og við mælum ekki meiri hraða. Fluglæs manneskja sem les eins hratt og hún getur, nær auðveldlega a.m.k. tvöföldum þeim atkvæðafjölda. Við erum því ekki að ýta undir að nemendur lesi óeðlilega hratt, þótt við fylgjumst vel með lesfimi þeirra.
  • Lestrarnámið er samstarfsverkefni heimilanna og skólans. Gott samstarf við foreldra er því algerlega nauðsynlegt og mikilvægt að sátt ríki um þær aðferðir sem notaðar eru. Við hvetjum foreldra eindregið til að hafa samband og ræða málin við okkur ef þeir hafa spurningar eða athugasemdir. /HMH

Nemendum fjölgar

Nú vill svo skemmtilega til að nemendum skólans hefur fjölgað á milli ára. Síðastliðið vor voru þeir 326 talsins, en eru í dag 341. Við vonum svo sannarlega að nú sé þróuninni snúið við eftir fækkun síðustu ára.

Matseðlar tilbúnir

Nú er allt að verða klárt fyrir komandi skólaár. Matseðlar fyrir ágúst og september eru komnir inn á heimasíðuna og um að gera að ganga frá skráningu í mötuneytið sem allra fyrst.

Lykilorð í mentor

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um hvernig nálgast má nýtt eða gleymt lykilorð í mentor, sem er upplýsingakerfið sem skólinn notar.  Við hvetjum alla  foreldra til að gera það sem fyrst og þá sérstaklega foreldra nemenda í 1. bekk.

https://www.youtube.com/watch?v=ifwOntk280M

 

Skráning í mötuneyti

Nú er búið að opna fyrir skráningar í mötuneyti skólans og eru foreldrar beðnir að skrá börn sín fyrir 19. ágúst. Við ætlum að prófa að halda skráningum inni frá því í fyrra, þannig að þeir sem vilja halda skráningum óbreyttum þurfa ekkert að gera, en þeir sem vilja breyta eða hætta við þurfa að fara inn á matartorgið og afhaka við það sem valið er. Foreldrar nemenda í 1. bekk þurfa að skrá sín börn sem og foreldrar nýrra nemenda. Nánari leiðbeiningar varðandi skráningar má nálgast hér.

Nýtt skólaár

Líkt og undanfarin ár er nemendum Ísafjarðarbæjar séð fyrir nánast öllum gögnum sem þeir þurfa til náms í skólanum.  Gert er ráð fyrir að  nemendur í 1.-7. bekk sjái sér sjálfir fyrir skriffærum og nemendur unglingastigs sjái sér sjálfir fyrir skriffærum, reglustiku, gráðuboga og litum.  Nemendur fá allar stíla– og reikningsbækur og möppur í skólanum.

Skólasetning verður með sama sniði og í fyrra. Mánudaginn 22. ágúst mæta nemendur og foreldrar í viðtöl til umsjónarkennara þar sem nemendur setja sér markmið fyrir ábyrgð og vinnu í skólanum. Opnað verður fyrir skráningar í viðtölin 17. ágúst. 

Mánudaginn 22. ágúst fer 7. bekkur í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Haft verður samband við foreldra í vikunni á undan varðandi skipulag ferðarinnar.

Skólaslit

Í kvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 141. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þau Hildur Karen Jónsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti ávarp og Anna María Daníelsdóttir flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 10. bekkur bauð upp á 3 tónlistaratriði, þar sem blásarakvartett lék eitt lag, Ína Guðrún Gísladóttir og Benedikt Hrafn Guðnason léku fjórhent á píanó og Pétur Ernir Svavarsson lék einnig eitt lag á píanó.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur. 

8. bekkur:

Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

 

9. bekkur:

Ásthildur Jakobsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Í dag barst sérstök viðurkenning frá Tungumálaveri Laugalækjarskóla fyrir framúrskarandi námsárangur í pólsku.  Þá viðurkenningu hlaut Michał Głodkowski, nemandi í 9. bekk.

Í vetur luku 12 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar. Þetta er þriðja árið sem skólinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein, undir stjórn Guðbjörns Páls Sölvasonar, en margra ára hefð er fyrir henni við Grunnskólann á Ísafirði.  Nemendur sem luku prófi eru: 
Axel Thorarensen, Birgitta Brá Jónsdóttir, Birna Sigurðardóttir, Bjarni Pétur Marel Jónasson, Einar Torfi Torfason, Flosi Kristinn Sigurbjörnsson, Ína Guðrún Gísladóttir, Ívar Tumi Tumason, Jón Ómar Gíslason, Lára Sigrún Steinþórsdóttir, Óliver Eyþór Þórðarson og Tinna Dögg Þorbergsdóttir.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir ástundun, framfarir, áræðni og jákvæðni í leiklist hlaut Ína Guðrún Gísladóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Tatjana Snót Brynjólfsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur, dugnað, samviskusemi og metnað í heimilisfræði hlaut Bjarni Pétur Marel Jónasson.

 

Snjólaug Ásta Björnsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Stúdíó Dan gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þau verðlaun hlutu Birna Sigurðardóttir og Birkir Eydal.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Pétur Ernir Svavarsson þau verðlaun.

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Ína Guðrún Gísladóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Mikolaj Ólafur Frach.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

Viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlutu þau Pétur Ernir Svavarsson og Anna María Daníelsdóttir.

Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gaf gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk  fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi.   Í ár skiptu tveir nemendur með sér verðlaununum þau Bjarni Pétur Marel Jónasson og Guðrún Ósk Ólafsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur vorið 2016 hlaut Pétur Ernir Svavarsson.

 

Hér má sjá myndasafn frá athöfninni.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2000 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Nýtt fréttabréf

Síðasta fréttabréf skólaársins er komið út. Þar er m.a. farið yfir þau fjölbreyttu verkefni sem nemendur hafa verið að fást við undanfarnar vikur.

Leikjadagur

Í dag var leikjadagur hjá 5. - 9. bekk. Krakkarnir hittust inni á Torfnesi og hófu leikinn á víðavangshlaupi. Eftir það var nesti og ýmsir leikir s.s. fótbolti, hlaupið í skarðið, gengið á stultum, stígvélakast, boðhlaup og fleira. Sólin mætti að sjálfsögðu á svæðið og gerði góðan dag enn betri. Hægt er að nálgast fjölmargar myndir hér inni á myndasíðu skólans.

Starfsdagur og skólaslit

Á morgun, fimmtudaginn 2. júní, er starfsdagur hér í skólanum.
Á föstudaginn mæta nemendur 2. - 7. bekkjar í sínar umsjónarstofur kl. 10:00 og taka við vitnisburðum. 1. bekkur mætir í foreldraviðtöl á uppgefnum viðtalstímum, hjá sínum umsjónarkennurum. Skólaslit verða svo í Ísafjarðarkirkju á föstudagskvöldið kl. 20:00 þar sem nemendur 8. - 10. bekkjar fá sína vitnisburði.