Lesfimi
Af hverju er alltaf verið að prófa börn í hraðlestri?
Er það ekki lesskilningurinn sem skiptir mestu máli?
Þetta eru góðar og gildar spurningar sem skólafólk heyrir stundum og hér skal reynt að svara þeim eftir bestu getu.
- Við viljum forðast að tala um hraðlestur en notum frekar orðið lesfimi sem lýsir betur hvað átt er við, því ekki er eingöngu verið að prófa hversu hratt barnið les, heldur líka hversu rétt og örugglega. Villur eru dregnar frá atkvæðafjöldanum. Sá sem ekki skilur það sem hann les, gerir fleiri villur, getur jafnvel hlaupið yfir línur án þess að taka eftir því o.s.frv. þannig að skilningur getur líka haft mikil áhrif á niðurstöðuna á lesfimiprófi.
- Lesfimipróf eru einföld og þægileg leið til að meta hversu góðum tökum nemendur hafa náð á lestrartækni. Lestrartækni er bara einn þáttur í góðu læsi, lesskilningur og framsögn eru aðrir þættir sem ekki eru síður mikilvægir og eru líka prófaðir. En tækni er ein af undirstöðum læsis, ásamt málþroska og orðaforða - enginn nær góðum lesskilningi án þess að hafa góð tök á lestrartækninni, góða lesfimi.
- Þegar börn taka lesfimipróf er mikilvægt að aðstæður séu þægilegar og við reynum að gera börnin ekki stressuð. Við biðjum þau að lesa eðlilega, vanda sig að lesa rétt og halda vel áfram – ekki segja okkur söguna af Sigga frænda í miðju prófi, eins og stundum gerist – en ekki flýta sér. J
- Við forðumst að ræða niðurstöður lesfimiprófanna við yngstu nemendurna, þær eru fyrst og fremst til upplýsingar fyrir okkur fullorðna fólkið, kennarana og foreldrana. Við viljum ekki ýta undir samkeppni og meting á milli barnanna þótt við hvetjum þau til að sinna lestrarnáminu vel og vera dugleg að lesa heima.
- Þegar nemendur hafa náð 300 atkvæðum á mínútu er lokamarkmiði skólans náð og við mælum ekki meiri hraða. Fluglæs manneskja sem les eins hratt og hún getur, nær auðveldlega a.m.k. tvöföldum þeim atkvæðafjölda. Við erum því ekki að ýta undir að nemendur lesi óeðlilega hratt, þótt við fylgjumst vel með lesfimi þeirra.
- Lestrarnámið er samstarfsverkefni heimilanna og skólans. Gott samstarf við foreldra er því algerlega nauðsynlegt og mikilvægt að sátt ríki um þær aðferðir sem notaðar eru. Við hvetjum foreldra eindregið til að hafa samband og ræða málin við okkur ef þeir hafa spurningar eða athugasemdir. /HMH