Gleðilegt sumar
Í dag er sumardagurinn fyrsti, þó að jörð sé alhvít. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú boðar það gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman, þ.e. að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna - hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing segir um sumardaginn fyrsta:
Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.
Við megum því eiga von á góðu sumri samkvæmt þessu. Við óskum öllum gleðilegs sumars og þökkum fyrir veturinn.
Deila