VALMYND ×

Fréttir

Dagur stærðfræðinnar

Dagur stærðfræðinnar er í dag, en hann er haldinn fyrsta föstudag í febrúar ár hvert. Markmið með deginum er annars vegar að vekja nemendur og sem flesta aðra til umhugsunar um stærðfræði og hlutverk hennar í samfélaginu og hins vegar að fá nemendur til að koma auga á möguleika stærðfræðinnar og sjá hana í víðara samhengi.

Flötur, samtök stærðfræðikennara, hefur gefið út fjölmörg verkefni í tilefni dagsins og geta áhugasamir nálgast þau hér.

Rauður dagur

Febrúar er hjartamánuðurinn og er honum fagnað víða um land. Árið 2009 fór Ísland í samstarf með alþjóða hjartasamtökunum og GoRed verkefninu með megináherslu á konur og hjartasjúkdóma. Verkefnið hefur síðan þróast í gegnum árin og að þessu sinni er allur mánuðurinn undir, efnið óháð kyni og aldri því hjartaheilsa varðar alla. 

Rauði dagurinn er að þessu sinni er föstudagur 3. febrúar n.k. Þá eru starfsmenn sveitarfélaga og þá sérstaklega í skólum, ásamt nemendum, hvattir til að klæðast rauðu og sýna þannig í verki að við eigum að hugsa vel um hjartað okkar, undirstöðu þess að við erum á lífi. 

Mætum í rauðu á morgun!

Katla og Ásrós sigruðu Samvest

Sigurvegararnir þær Katla og Ásrós
Sigurvegararnir þær Katla og Ásrós

Undankeppni Samfés fór fram í gær og kepptu 12 atriði um þátttökurétt í aðalkeppninni, sem fram fer í Reykjavík 24. - 26. mars n.k.

Sigurvegarar voru þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir úr Grunnskólanum á Suðureyri og Þingeyri, en þær fluttu lagið Big Jet Plane eftir Angus og Julie Stone. í 2. sæti höfnuðu Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Rakel Damilola Adeleye og Helena Haraldsdóttir úr G.Í. með lagið Þessi reynsla, sem er frumsamið rapplag. Í 3. sæti urðu Ólöf Einarsdóttir, Hlynur Ingi Árnason, Árný Margrét Sævarsdóttir og Ísabella Rut Benediktsdóttir úr G.Í. með lagið Little Talks eftir hljómsveitina Of Monsters and Men.

Dómarar voru söngfuglarnir Dagný Hermannsdóttir, Málfríður Hjaltadóttir og Benedikt Sigurðsson. Við óskum öllum þessum flytjendum til hamingju með árangurinn og fylgjumst spennt með siguratriðinu í lokakeppninni.

 

 

SAMVEST

Samvest undankeppnin fyrir söngkeppni félagsmiðstöðva, fer fram í sal skólans í kvöld kl. 19:30. Tólf atriði frá norðanverðum Vestfjörðum eru skráð til leiks og keppa um þátttöku í aðalkeppni Samfés, sem haldin verður helgina 24. - 26. mars n.k. í Reykjavík.

Keppnin í kvöld er opin almenningi og er miðaverð kr. 1.000.

Allir lesa

Nú styttist í hinn stórskemmtilega landsleik Allir lesa og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum sínum. Bæði er hægt að skrá þann tíma sem hver og einn liðsmaður les sjálfur og einnig má skrá tíma sem lesinn er fyrir börnin, bæði á þann sem les og þann sem hlustar. Þegar börn lesa fyrir foreldra gildir hið sama, tíminn skráist á báða aðila. Lið samanstanda af þremur eða fleiri liðsmönnum og má skrá allan aldur, jafnvel nokkurra daga gömul kríli geta verið mikilvægir liðsmenn. Börn og fullorðnir verja æ meiri tíma fyrir framan skjái og því er tilvalið að byrja árið á því að verja meiri tíma í yndislestur.

Landsleikurinn varir frá 27. janúar til 19. febrúar og allir geta myndað lið, eða keppt sem einstaklingar. 

Skráning er hafin á allirlesa.is en þar er einnig að finna frekari upplýsingar um leikinn.

Þorrablót 10. bekkjar

Þorrablót 10. bekkjar verður  haldið föstudaginn 20. janúar kl. 20:00 í sal skólans. Skemmtiatriði verða í höndum foreldra og starfsmanna skólans, sem hafa unnið að undirbúningi síðustu vikur. Einnig hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi, þannig að búast má við frábæru kvöldi.

Gestir koma sjálfir með sinn mat í trogum ásamt áhöldum, en 10. bekkur selur drykki á staðnum. Húsið opnar kl. 19:30.

Æfingapróf Menntamálastofnunar

Samræmd könnunarpróf í 9. og 10. bekk verða lögð fyrir dagana 7. - 10. mars n.k. Menntamálastofnun hefur nú gefið út æfingapróf, annars vegar fyrir nemendur og foreldra og hins vegar fyrir kennara. Prófin eru hugsuð fyrir nemendur og foreldra til að skoða og prófa kerfið sem prófin verða þreytt á. Eins fyrir kennara til að geta undirbúið sig áður en að sjálfu prófinu kemur og kynna sér uppsetningu prófsins og ræsingu þess. Kennarar, jafnt sem nemendur og foreldrar eru hvattir til að kynna sér prófið með því að fara í gegnum það.  

Hægt er að fylgjast með upplýsingum um innleiðingu rafrænna prófa á Facebook síðu Menntamálastofnunar.

Jákvæðar niðurstöður PISA-könnunar

Nemendur í grunnskólum Ísafjarðarbæjar voru yfir landsmeðaltali í öllum greinum PISA-könnunarinnar 2015 og yfir OECD-meðaltali í tveimur flokkum af þremur. Sé litið til einstakra sveitarfélaga þar sem niðurstöður hafa verið birtar er Ísafjarðarbær með besta árangur allra í náttúruvísindum og einungis Garðabær betri í stærðfræði og lesskilningi. PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms. Menntamálastofnun birti niðurstöður 8 stærstu sveitarfélaga landsins og var strax kallað eftir upplýsingum um árangur hjá grunnskólum Ísafjarðarbæjar sem hafa nú borist.

Í náttúrufræði voru nemendur í Ísafjarðarbæ með 503 stig, eða heilum 30 stigum yfir landsmeðaltali og 10 stigum yfir OECD-meðaltali. Í stærðfræði skoraði Ísafjarðarbær 507 stig (19 stigum yfir landsmeðaltali og 17 yfir OECD) og 489 í lesskilningi (7 stigum yfir landsmeðaltali, 4 stigum undir OECD).

Það sem kannski mestu máli skiptir er að nemendur í Ísafjarðarbæ bæta sig umtalsvert í öllum flokkum milli áranna 2012 og 2015 eins og sést í meðfylgjandi töflu. Í kjölfar dapra niðurstaðna 2012 var ráðist í umtalsverða vinnu sem hafði það einfalda markmið að bæta námsárangur barna, sjálfmynd þeirra og framtíð. Vel var fylgst með því sem önnur sveitarfélög voru að gera, settar voru upp skimunaráætlanir og lestrar- og stærðfræðiteymi tóku til starfa. Lestrarteymið lagði í heilmikla vinnu og á allra næstu dögum kemur út ný lestrarstefna Ísafjarðarbæjar og stærðfræðistefna er svo væntanleg með vorinu.

Þessa góðu niðurstöðu verður litið á sem hvatningu til frekari dáða, en ekki vísbendingu um að öllum markmiðum sé nú náð. Það er mjög mikilvægt að enginn sofni á verðinum; starfsfólk skólanna, nemendur eða foreldrar, og allir verða að muna að næg vinna er framundan.

Dansæfingar fyrir þorrablót

Hringdansinn var æfður í morgun ásamt skottís o.fl. dönsum.
Hringdansinn var æfður í morgun ásamt skottís o.fl. dönsum.

Hið árlega þorrablót 10. bekkjar verður haldið föstudaginn 20. janúar næstkomandi. Eins og allir vita er nauðsynlegt að vera vel undirbúinn fyrir gömlu dansana á slíkum samkomum. Árgangurinn leggur nú allt kapp á dansfimi sína og eru dansæfingar hafnar undir styrkri stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Lestrarátak Ævars snýr aftur

Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður, heldur áfram að stuðla að auknum lestri barna. Nú í upphafi árs hleypir hann af stokkunum þriðja lestrarátaki sínu sem hann heldur utan um. Lestrarátakinu lýkur 1. mars n.k. á því að dregnir verða út nokkrir þátttakendur sem verða persónur í næstu bók um bernskubrek Ævars vísindamanns.

Við hvetjum alla nemendur í 1. - 7. bekk að skrá sig til leiks og njóta lestursins.