VALMYND ×

Fréttir

Samræmd könnunarpróf

Á fimmtudag og föstudag verða lögð fyrir samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði í 7. bekk. Þær breytingar verða á fyrirkomulagi prófanna að þau verða lögð fyrir með rafrænum hætti. Prófin hefjast klukkan 9:00 báða dagana og er próftími 80 mínútur.

Í næstu viku verður það svo 4. bekkur sem spreytir sig á fimmtudag í íslensku og á föstudag í stærðfræði. Prófin hjá þeim hefjast einnig kl. 9:00 og er próftími 70 mínútur.

Þá hefur verið ákveðið að halda samræmd könnunarpróf að vori í 9. bekk. Nemendur í 10. bekk skólaárið 2016-2017 munu þreyta próf vorið 2017, sömu daga og 9. bekkur, þ.e. dagana 7. - 9. mars.

Vinabæjarheimsókn til Kaufering

Í dag heldur hópur vaskra nemenda og kennara frá Ísafjarðarbæ til Þýskalands á vit ævintýra í vinabænum Kaufering í Bæjaralandi. Þetta eru sjö krakkar úr 10. bekk á Ísafirði og Þingeyri ásamt tveimur kennurum, þeim Herdísi Hübner og Monicu Mackintosh. Hópurinn mun dveljast þar ytra í eina viku og koma aftur heim laugardaginn 24. sept.

Nemendurnir dvelja á heimilum jafnaldra sinna í Kaufering og er ýmislegt spennandi á dagskrá vikunnar fyrir utan skólaheimsóknir. Er ekki að efa að hópurinn á skemmtilega og lærdómsríka viku framundan.​

Vinaliðar hefja störf

Vinaliðaverkefnið hefur nú sitt þriðja starfsár hér í skólanum, undir stjórn Árna Heiðars Ívarssonar, íþróttakennara. Vinaliðar sem kosnir voru lýðræðislegri kosningu, fengu þjálfun í dag varðandi sín hlutverk og eru með allt á hreinu og tilbúnir til starfa á mánudaginn.

Vinaliðaverkefnið snýst um það að setja upp leikstöðvar í frímínútunum hjá 4. - 6. bekk og stjórna vinaliðar því að allt fari vel fram á hverri stöð. Það er von skólans að með þessu finni allir eitthvað við sitt hæfi í frímínútunum og enginn verði afskiptur.

 

Þorgrímur Þráinsson í heimsókn

Í dag kom Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og fyrirlesari með meiru, í heimsókn í skólann. Hann hélt fyrirlestur undir nafninu ,,Verum ástfangin af lífinu" fyrir 10. bekk, en fyrirlesturinn fjallar fyrst og fremst um það að nemendur leggi sig fram og beri ábyrgð á sinni vegferð og séu flottir einstaklingar.

6. og 7. bekkur fengu að skyggnast á bak við tjöldin hjá íslenska landsliðinu í knattspyrnu, en Þorgrímur hefur unnið með liðinu í 10 ár og tók myndir og myndbönd sjálfur á EM í Frakklandi sem hann sýndi nemendum. Hann lagði upp með það að hver bekkur geti verið sterk liðsheild og náð frábærum árangri með því að hjálpast að og sýna samstöðu.

Að lokum veitti Þorgrímur nemendum 5. bekkjar innsýn í hugarheim rithöfundar þar sem hann sagði frá því hvernig hann hugsar sögu, teiknar upp persónur, býr til söguþráð, plott og fleira til að gera sögu spennandi. Þá las hann upp úr væntanlegri bók sinni ,,Henri og hetjurnar" . Bókin kemur út fyrir næstu jól og fjallar um hinn franska Henri (10-12 ára) sem vinnur á hótelinu í Annecy þar sem leikmenn íslenska landsliðsins í fótbolta dvöldu á meðan þeir tóku þátt í EM.

Það var virkilega gaman að sjá hversu vel Þorgrímur náði til krakkanna og þökkum við honum kærlega fyrir komuna.

 

Útivistarreglur

SAMAN hópurinn vill vekja athygli foreldra á að útivistartími barna og unglinga breyttist 1. september s.l. Starf hópsins miðar að því að styrkja og styðja foreldra í sínu uppeldishlutverki og vinna að forvörnum, uppeldi, menntun, meðferð og ráðgjöf.

Samkvæmt útivistarreglum mega börn, 12 ára og yngri, ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.
Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag. 

Kveðja frá London

Hjaltlandseyjar
Hjaltlandseyjar
1 af 5

Þann 10. apríl 2015 sendu nemendur 4.P nokkur flöskuskeyti á haf út, með aðstoð skipverja á Júlíusi Geirmundssyni, en verkefnið var hluti af ritunar- og enskunámi þeirra. Krakkarnir skrifuðu stuttar kveðjur og merktu inn á landakort hvar þeir væru staddir í heiminum. Þeir báðu svo finnendur um að hafa samband við Grunnskólann á Ísafirði.

Þrjú skeyti hafa nú rekið á land á Bretlandseyjum. Það fyrsta fannst í desember s.l., en það voru þær Marianna Glodkowska og Sólveig Perla Veigarsdóttir Olsen sem höfðu sent það. Annað skeyti fannst nú í vor frá þeim Lilju Björgu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Dagbjörtu Sigurðardóttur. Nú um liðna helgi barst skólanum svo tölvupóstur, þar sem 9 ára gamall drengur frá London, Brian að nafni, hafði fundið þriðja flöskuskeytið í sumarfríinu sínu á Hjaltlandseyjum. Það skeyti reyndist vera frá Sigurjóni Degi Júlíussyni og Daða Hrafni Þorvarðarsyni. Brian vill endilega vera í sambandi við þá félaga og hafa þeir nú fengið netfang hans og móður hans til að svara fyrirspurnum hans. 

 

 

,,Bieber fever"

Poppgoðið Justin Bieber
Poppgoðið Justin Bieber

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að kanadíska poppgoðið Justin Bieber heldur tónleika þessa dagana á Íslandi. Í dag eru rúmlega 80 nemendur skráðir í leyfi hér í skólanum, en það er rúmur fjórðungur allra nemenda. Það má því með sanni segja að Bieber hafi áhrif á skólastarf dagsins.

Við vonum að allir skemmti sér vel á tónleikunum og komi heilir heim.

Norræna skólahlaupið

Í morgun tóku nemendur skólans þátt í Norræna skólahlaupinu, en það hefur verið haldið allt frá árinu 1984. Allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Nemendur G.Í. létu ekki sitt eftir liggja í morgun. Hlaupið var frá Bæjarbrekku og fóru yngstu nemendurnir inn að Engi, miðstigið hljóp inn að Seljalandi og unglingarnir inn að Golfskálanum í Tungudal og til baka.  

Kynning á læsissáttmála Heimilis og skóla

Á morgun, miðvikudaginn 7. september,  mun starfsfólk Heimilis og skóla kynna nýjan læsissáttmála samtakanna fyrir foreldrum og skólafólki. Kynningin hefst kl. 20:00 hér í skólanum og eru allir hvattir til að mæta.

Markmiðið með sáttmálanum er að hann verði notaður reglulega um land allt sem liður í að efla læsi barna á Íslandi og einnig að hann stuðli að því að styrkja samstarf heimila og skóla í landinu.

Stígamót með fundi á Vestfjörðum

Starfskonur Stígamóta halda fundi á Vestfjörðum þessa dagana og á morgun verða þær í Stjórnsýsluhúsinu kl. 17:15 - 19:00. Þar munu þær kynna samtökin og þá þjónustu sem þau veita, en Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Í ferðinni verður bæði boðið upp á opna fundi auk þess sem fundað verður með fagfólki á hverjum stað, líkt og lögreglu, læknum og heilsugæslufólki, skólastjórum og leikskólastjórum, prestum, starfsfólki tómstundamiðstöðva og öðrum þeim sem líklegt þykir að mæti brotaþolum í starfi sínu. Þar verður einnig rætt hvað gera megi til þess að koma í veg fyrir ofbeldi og bæta þjónustu við brotaþola.

Allir eru velkomnir á fundi Stígamóta sem verða sem hér segir:
Menntaskólinn á Ísafirði 6.9. Kl. 12-13 Fundur á sal með nemendum
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði 6.9. Kl. 17.15 Opinn fundur fyrir almenning
Grunnskólinn á Þingeyri 7.9. Kl. 17-19 Opinn fundur fyrir almenning