VALMYND ×

Fréttir

Námskeið um uppbyggingu sjálfsaga

Hluti starfsmanna GÍ og dægradvalar á Ísafirði nýtti vetrarfrísdagana 23. og 24. nóvember s.l. til að sækja námskeið um Uppeldi til ábyrgðar – uppbygging sjálfsaga.  Skólinn hóf innleiðingu á stefnunni haustið 2006 og hafa starfsmenn farið áður á nokkur námskeið tengd henni, en það er nauðsynlegt að halda kunnáttu og þekkingu við og alltaf bætist eitthvað nýtt við. Að þessu sinni var námskeiðið haldið í Boston og voru þátttakendur í heildina um 120 frá 20 stofnunum víðs vegar af landinu. Fyrirlesarar voru þær Diane Gossen, sem er upphafsmaður þessarar nálgunar og samstarfskona hennar Judy Anderson. Þær hafa báðar komið til Íslands nokkrum sinnum og haldið námskeið fyrir Íslendinga erlendis.

Á námskeiðinu var farið í ýmsa þætti, meðal annars mikilvægi þess að þjálfa börn og unglinga í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Einnig að stefnunni er ætlað að styðja starfsmenn skóla og foreldra við að móta sér skýra stefnu varðandi samskipti og agamál.  Skerpt var á hugmyndafræðinni sem byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömmum, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun.  Markmiðið er að styrkja einstaklinginn í að vera sá sem hann vill vera með hliðsjón af eigin sannfæringu frekar en að stjórnast út frá geðþótta annarra.

Opinn dagur

Á morgun er 1. desember, fullveldisdagur okkar Íslendinga. Sú hefð hefur skapast hér í skólanum að hafa opinn dag, þar sem foreldrar og aðrir velunnarar eru sérstaklega hvattir til að koma í heimsókn. Við vonum að sem flestir líti við og sjái það fjölbreytta og gróskumikla starf sem fram fer hér innan veggja.

Bilun í símkerfi

Skiptiborð skólans er sambandslaust í augnablikinu. Hægt er að ná sambandi í síma 894-1688.

Ævar vísindamaður

Í dag verður Ævar Þór Benediktsson á bæjarbókasafninu og mun hitta nemendur í 4. - 7. bekk GÍ á milli kl. 12:00 og 13:40. Hann mun kynna og lesa upp úr nýjustu bók sinni Þín eigin hrollvekja en einnig tala um fyrri bækur sínar.

Við þekkjum auðvitað Ævar úr sjónvarpsþáttunum um Ævar vísindamann, en hann er einnig leikari og hefur komið að útvarpsþáttagerð, skrifað innslög fyrir Stundina okkar og staðið fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns.

Við bendum öðrum nemendum á að hægt er að fara upp á bæjarbókasafn eftir skóla og hlusta á erindi hans.

Nýr samningur

Skrifað var undir nýjan kjarasamning á milli Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær. Kennarar munu því ekki ganga út í dag og skólastarf því með eðlilegum hætti.

Kennarar ganga út?

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hyggjast grunnskólakennarar ganga út úr skólum miðvikudaginn 30. nóvember kl. 12:30 hafi ekki náðst að semja.  Kennarar í Grunnskólanum á Ísafirði hyggjast einnig gera það.  Verði ekki búið að semja fyrir hádegi á morgun mun því öll kennsla í skólanum falla niður frá kl. 12:30. Nemendur í 5.-10.bekk fara heim þá en nemendum í 1.-4. bekk býðst að vera undir eftirliti í skólanum til kl. 13:40, þar til dægradvölin hefst. 

Fullveldisfagnaður

Föstudaginn 2. desember n.k. býður 10. bekkur til fullveldisfagnaðar með frumsýningu á leikritinu Feita mamma eftir Auði Jónsdóttur. Þessi sýning er einungis fyrir nemendur í 8. - 10. bekk G.Í. og nágrannaskóla og slegið verður upp balli á eftir. Miðaverð er kr. 1.500 á báða viðburði, en kr. 1.000 á annan.

Önnur sýning verður laugardaginn 3. desember kl. 14:00 og eru allir velkomnir á þá sýningu.

 

 

Starfsdagur og vetrarleyfi

Á morgun, þriðjudaginn 22. nóvember, er starfsdagur hér í skólanum. Eftir það er vetrarleyfi út vikuna og næsti kennsludagur því mánudagurinn 28. nóvember.

Ný lesfimimarkmið

1 af 2

Menntamálastofnun hefur gefið út lesfimiviðmið fyrir 1. - 10. bekk grunnskóla.  

Viðmið um læsi barna eru verkfæri fyrir nemendur, kennara og foreldra til að fylgjast með framförum, styðja við læsi og auka þannig líkurnar á því að sem flestir geti aflað sér menntunar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í nútímasamfélagi. 

Markmiðið með setningu lesfimiviðmiða, ásamt væntanlegum viðmiðum um lesskilning og ritun, er að stuðla að bættu læsi barna og ungmenna í íslensku skólakerfi.

Óveður

Vegna slæmrar veðurspár er eftirfarandi upplýsingum komið á framfæri: 

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

  • Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
  • Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
  • Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima  þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun talhólfsnúmer, 8781012,  þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður. 

Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast vel með  á heimasíðu almannavarna.