Ferð til Kaufering
Dagana 30.september til 6.október dvöldust 8 nemendur úr Ísafjarðarbæ ásamt fararstjórum, í Kaufering í Þýskalandi, sem er vinabær Ísafjarðar. Nemendur dvöldu á einkaheimilum og tóku þátt í daglegu lífi heimilisfólksins. Farið var í Montessori-skóla þar sem skólastarfið er nokkuð frábrugðið því sem við eigum að venjast. Til að mynda er enginn nemandi með síma á meðan skóli stendur yfir frá 8 – 15.
Það var farið í margar skoðunarferðir t.d í Neuschwanstein sem er ævintýrakastali frá 19. öld, Oktoberfest í München og Dachau sem voru fangabúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni. Það var mikill munur á þessum ferðum. Gleðin og munaðurinn annars vegar og svo hörmungar stríðsins hins vegar þar sem mannvonskan kom fram í sinni verstu mynd.
Tíminn var fljótur að líða við leik og lærdóm og það voru ánægðir og þreyttir nemendur og kennarar sem lentu á Keflavíkurflugvelli 6.október.
Deila