Opnun kaffihúss
Í morgun opnaði kaffihúsið ,,Kaffihús skrítnu strumpanna" hér í skólanum og var það opið í eina klukkustund. Starfsmönnum skólans var boðið og fengu þeir kennslupeninga við innganginn og gátu keypt sér veitingar. Boðið var upp á skonsur með rifsberjahlaupi og sólberjasultu með döðlum og eplum, en sólberin voru ræktuð hér á skólalóðinni. Einnig var á boðstólnum volg hjónabandssæla og pizzusnúðar með basil sem ræktað var hér í skólanum. Auk þess gátu gestir fengið sér melónu, djús og kakó.
Starfsmenn kaffihússins sem eru nokkrir nemendur í 9. og 10. bekk sáu um alla framreiðslu; þjónuðu til borðs, bökuðu skonsurnar jafnóðum og stóðu sig eins og þaulreyndir í veitingabransanum, enda fengu þeir ríflegt af þjórfé og allir kennslupeningarnir vel nýttir. Nafnið á kaffihúsið völdu þeir í sameiningu.
Kaffihúsið er hluti af heimilisfræðikennslu Guðlaugar Jónsdóttur kennara sem stýrt hefur þessu skemmtilega verkefni ásamt Árnýju Einarsdóttur stuðningsfulltrúa og eiga þær hrós skilið fyrir framtakið.
Í næstu viku er svo von á öðru kaffihúsi og hlökkum við til að fylgjast með opnun þess.
Deila