VALMYND ×

Fréttir

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu og var hann haldinn hátíðlegur með ýmsum hætti hér í skólanum. Í Hömrum var setningarhátíð Litlu og Stóru upplestrarkeppnanna, sem ætlaðar eru nemendum 4. og 7. bekkjar. Allir nemendur þessara árganga taka þátt og æfa framsögn af kappi næstu vikur og mánuði. Nemendur 4. bekkjar munu svo bjóða foreldrum til upplestrarhátíðar síðar í vetur. Í mars verður svo lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar hjá 7. bekk, en þangað komast þeir sem standa sig hvað best í framsögn.

Við setningarathöfnina lásu nokkrir nemendur úr 8. bekk sögubrot og ljóð og léku á hljóðfæri. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir stýrði dagskránni og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, setti hátíðina formlega. 

 

 

Snjókoma í kortunum

Næstu daga er gert ráð fyrir snjókomu og viljum við minna alla á að koma klædda eftir veðri. Á þessum dimmasta tíma ársins sem nú fer í hönd er einnig nauðsynlegt að sjást vel í umferðinni og geta endurskinsmerki gert gæfumuninn. 

Heimsókn til Kýpur

Þann 23.október fóru kennararnir Bergljót Halldórsdóttir og Bryndís Bjarnason til Kýpur vegna Erasmus+ verkefnis sem skólinn er þátttakandi í og voru móttökur höfðinglegar.

Haldnir voru vinnufundir þar sem hver skóli kynnti verkefni sem unnin höfðu verið í viðkomandi skólum og voru þau mörg áhugaverð. 
Portúgalarnir voru með verkefni sem þeir höfðu unnið með 11 – 13 ára nemendum þar sem þeir lærðu að nota GPS til að finna ákveðna staði. 
Króatar kynntu verkefni sem byggðist á samþættingu stærðfræði, samfélagsfræði, þjóðfélagsfræði og textílmennt. Króatísku nemendurnir gerðu húfu sem fylgir þjóðbúningi karlmanna þar í landi og voru milkir útreikningar á bak við þeirra vinnu. Í Króatíu er ekki hefðbundin textílkennsla og fengu nemendur í þessu verkefni tilsögn í saumaskap.
Lettar kynntu stærðfræðivef í 6 þyngdarflokkum sem er ætlaður nemendum sem eiga í stærðfræðiörðugleikum og eru tvítyngdir. Það þurfti ekki mikinn orðaforða til að vinna verkefnin. 
Þjóðverjar kynntu hvernig þeir vinna með tvítyngdum nemendum til að koma þeim betur inn í þýskt málsamfélag.
Kýpverjar sýndu verkefni þar sem samþætt var ljóð og drama og vakti ljóðið upp margar siðferðislegar pælingar.
Þær Bergljót og Bryndís kynntu verkefni sem nemendur G.Í. höfðu unnið með mismunandi bókmenntagreinar og gert kynningar fyrir jafnaldra sína.

Að loknum kynningum voru umræður. Einnig höfðu allar þjóðirnar átt að vinna efnafræðiverkefni þar sem tónlist var nýtt til þess að auðvelda tök á efnafræðinni. Þetta verkefni var að undirlagi Pólverja og hafði verkefnið fengið verðlaun í Portúgal og vildu þeir vita hvernig og hvort hægt væri að nýta það annars staðar í heiminum.

Þessir dagar voru ekki eingöngu nýttir til vinnu. Farið var í skoðunarferð til Limasol og um höfðuborgina Nicosíu. Það var skrítið að dvelja í borg sem lýtur  stjórn tveggja landa, Kýpur og Tyrklands. Þátttakendur uður áþreifanlega varir við  spennu sem er þarna á milli. Það er lítið mál að fara yfir landamærin en Kýpurbúar fara ekki á milli. Þeim líkar ekki að ferðast um eigið land og þurfa að sýna skilríki til að fara yfir á Tyrklandshlutann. /BB

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.

 

Góð frammistaða G.Í. í FIRST LEGO League

1 af 3

Nú er keppni lokið í Háskólabíói og stóðu okkar menn sig frábærlega. Þeir kepptu undir nafninu Grísa og unnu til verðlauna fyrir besta hönnun og forritun. Þetta er virkilega góður árangur hjá þessum ungu strákum í sinni frumraun í keppni sem þessari og er framtíðin svo sannarlega björt hjá þeim. Innilega til hamingju strákar, við erum virkilega stolt af ykkur!

G.Í. keppir í forritun

Nemendur við lokafráganginn í morgun
Nemendur við lokafráganginn í morgun
1 af 3

Árleg keppni FIRST LEGO League verður haldin laugardaginn 12. nóvember í Háskólabíói. Í ár eru 22 lið skráð til leiks og er þemað „Animal Allies“ – Samstarf manna og dýra. Grunnskólinn á Ísafirði tekur nú þátt í fyrsta skiptið og eru það þeir Hafsteinn Már Sigurðsson, Hlynur Ingi Árnason, Jón Ingi Sveinsson, Magni Jóhannes Þrastarson, Sveinbjörn Orri Heimisson og Þráinn Ágúst Arnaldsson sem skipa liðið, en þeir eru nemendur í 8. og 10. bekk. Liðsstjóri og leiðbeinandi er Jón Hálfdán Pétursson, sem kennt hefur tæknilegó sem valgrein síðast liðna tvo vetur.

Þátttakendur keppninnar eru á aldrinum 10-16 ára. Í hverju liði eru hámark 10 keppendur og a.m.k. einn leiðbeinandi. Liðin keppa sín á milli við að leysa þrautir með forrituðum vélmennum, auk þess sem liðin eru dæmd út frá rannsóknarverkefni, hönnun/forritun á vélmenni og liðsheild.

Öllum er velkomið að fylgjast með spennandi keppni en auk hennar verður ýmis önnur skemmtun í boði fyrir alla fjölskylduna. Keppnin verður send út á Netinu á firstlego.is þar sem tengill verður aðgengilegur á keppnisdag. Við hvetjum alla til að láta ættingja og vini vita og fylgjast með þessum ungu forriturum.

 

Foreldraviðtöl

Miðvikudaginn 9. nóvember n.k. eru foreldraviðtöl hér í skólanum. Líkt og undanfarin ár, bóka foreldar viðtalstíma í gegnum Mentor. Opnað verður fyrir skráningar á morgun, föstudaginn 4. nóvember.

Hér má nálgast kynningarmyndband varðandi skráningu.

Samstarf heimila og skóla

Samstarf heimila og skóla skiptir miklu máli í velferð og vellíðan skólabarna. Margar rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna fram á að stuðningur foreldra er einn stærsti áhirfavaldur hvað varðar námsárangur, líðan og hegðun barna í skólanum. Í íslenskri rannsókn frá árinu 2008 kemur einnig fram að sterk samsvörun er á milli væntinga foreldra til barna sinna og árangurs þeirra og styður þessi rannsókn líka að foreldrar hafi mikil áhrif á líðan og árangur nemenda í skóla.

Í Grunnskólanum á Ísafirði var starfandi allt síðasta skólaár og fram á þetta ár, teymi kennara sem hafði það að markmiði að setja fram helstu áhersluþætti hvað varðar samstarf heimila og skóla.  Einnig skilgreindi teymið hlutverk foreldra og skóla, gerði tillögur að hagnýtum  verkefnum sem stuðla að samstarfi um hvert barn svo fátt eitt sé nefnt.  Markmiðið með vinnu teymisins var líka að skrifa kafla í skólanámskránna um foreldrasamstarfið og er þeirri vinnu næstum lokið.   En til að samstarf eigi sér stað þá þurfa bæði foreldrar og starfsmenn að koma að slíkri vinnu og var boðað til samstarfsfundar nú á miðvikudaginn til að fara yfir hugmyndir teymisins og fá fram hugmyndir foreldra um hvernig þeir myndu vilja sjá samstarfið. Mætingin var langt undir væntingum og mættu aðeins tveir foreldrar til fundarins og fundi því frestað. Við í skólanum óskum mjög eftir samstarfi við foreldra og biðjum þá að velta fyrir sér hvernig því sé best háttað. Á aðalfundi foreldrafélagsins, þann 1. nóvember næstkomandi, kl. 20:00, verður aftur farið yfir samstarf heimila og skóla og hvet ég foreldra eindregið til að mæta á fundinn.

Fundur um foreldrasamstarf

Undanfarin misseri hefur skólanámskrá G.Í. verið í vinnslu og er hún nú komin á heimasíðu skólans, að undanskildum kaflanum um foreldrasamstarf. Þeim kafla er ólokið og því boðum við foreldra á fund, miðvikudaginn 26. október kl. 17:00 (í dansstofunni) til að fara yfir hann. Síðasta vetur var sérstakt teymi kennara að skoða foreldrasamstarfið og er það búið að gera uppkast/tillögur að samstarfinu og nú óskum við eftir hugmyndum foreldra.

Fjölmenning og fjölbreytileiki

Í gær og fyrradag voru þemadagar hér í skólanum undir yfirskriftinni Fjölmenning. Nemendum var skipt í hópa eftir námsstigum þannig að hóparnir blönduðust nokkuð. Viðfangsefnin voru fjölbreytileg og fóru nemendur á margar skemmtilegar stöðvar s.s. fánasmiðju, dansstöð, lummubakstur, vinabandagerð, hópefli, veggmyndargerð, stuttmyndir o.fl.

Verkefni sem þessi krefjast mikils undirbúnings og skipulags af hendi kennara og eru allir sammála um að vel hafi til tekist og nemendur margs vísari um þann fjársjóð sem býr í öllum okkar litríku samfélögum. Afraksturinn má sjá víða um ganga skólans til að gleðja okkur og fræða, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Íþróttahátíðin í Bolungarvík

Föstudaginn 21. október er nemendum í 8.-10. bekk boðið á hina árlegu íþróttahátíð í Bolungarvík. Setning hátíðarinnar er klukkan 10 og mun keppni trúlega ljúka um kl. 18:40. Ekki eru lengur lið frá hverjum skóla heldur er öllum sem óska eftir að keppa, blandað í fjögur lið og fá allir að keppa í a.m.k. einni grein. Að keppni lokinni er svo ball í sal grunnskólans sem lýkur kl. 22:30.

Nemendur frá Ísafirði fara með rútum til Bolungarvíkur. Klukkan 9:30 fer rúta frá Holtahverfi sem stoppar á strætóleiðinni um Seljalandsveg. Önnur rúta fer frá skólanum kl. 9:30 og stoppar hún í Króknum og í Hnífsdal. Klukkan 19:00 er svo rúta til baka frá Bolungarvík inn á Ísafjörð og önnur eftir ballið kl. 22:40 sem fer strætóleiðina inn í Holtahverfi.

Nemendur frá GÍ hafa verið til fyrirmyndar í framkomu undanfarin ár og vonandi skemmta allir sér vel.