VALMYND ×

Fréttir

Umferðaröryggi

Nú er daginn tekið að lengja og þá vex umferð barna í umferðinni, bæði við leik og á leið til og frá skóla. Því er við hæfi að rifja upp nokkur atriði varðandi umferðaröryggi sem gott er að hafa í huga. Umferðarfræðsla í grunnskólum ber mestan árangur þar sem gott samstarf við heimili nemenda næst. Hlutverk heimilanna í umferðarfræðslu og forvörnum er mikilvægt því þar er mótunin sterkust.

Foreldrar eru hvattir til að nýta góða veðrið og ganga eða hjóla í skólann með börnum sínum svo fækka megi bílum sem aka að skólanum á morgnana. Að vera börnum sínum góð fyrirmynd í umferðinni er öflugasta fræðslan ásamt því að kenna þeim um lög og reglur sem eru í gildi.

Gæta þarf að því að öryggisbúnaður barna sé í lagi sem og notkun reiðhjólahjálma. Á þessari síðu er hægt að skoða fræðslumyndbönd um hjólreiðar og í þessum ágæta bæklingi er m.a. hægt að fræðast um atriði sem hafa ber í huga varðandi hjólreiðahjálma.

Á náms- og fræðsluvefnum www.umferd.is  er svæði ætlað foreldrum/forráðamönnum. Hugmyndin er að leita eftir samstarfi við foreldra um leiðir sem þeir telja að komi sér vel í umferðarfræðslunni. Allar hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar og hægt er að senda þær á þetta netfang

Athygli er vakin á að samkvæmt 40. gr. umferðarlaga mega börn yngri en 7 ára ekki vera hjólandi í umferðinni nema í fylgd með 15 ára og eldri. Ekki má reiða farþega á reiðhjóli eða rafvespu, þó má vanur reiðhjólamaður sem náð hefur 15 ára aldri reiða barn yngra en 7 ára en ber þó að nota viðeigandi öryggissæti og búnað. Best er að nota hjálm, það er eina vitið. Börnum yngri en 15 ára er skylt að nota reiðhjólahjálma og viðeigandi hlífðarbúnað þegar þau ferðast um á reiðhjólum, rafvespum, hjólabrettum og línuskautum.

Alþjóðlegi Downs dagurinn

Á morgun, þriðjudaginn 21. mars, er alþjóðlegi downs dagurinn. Fólk um allan heim klæðist mislitum sokkum þennan dag til að fagna og sýna samstöðu með margbreytileikanum og hvetjum við alla til að taka þátt.

Þróunarverkefni í bígerð næsta vetur

Næsta vetur stendur til að fara af stað með þróunarverkefni í 1. bekk sem snýst um að vera með aukinn stuðning á yngsta stigi þannig að auðveldara verði að mæta þörfum allra nemenda og styðja umsjónarkennara til að sinna teymiskennslu. Verðandi 1. bekkur eru 47 nemendur og stefnt er að fimm kennara teymi. Hér er frábært tækifæri fyrir framsækna kennara til að takast saman á við teymiskennslu með faglegum stuðningi.
Frekari upplýsingar veitir skólastjóri Sveinfríður Olga Veturliðadóttir.

Náum áttum

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. Á síðasta fundi hópsins var fjallað um netnotkun barna og unglinga í snjalltækjum og hvernig best sé að bregðast við þeim vanda sem við blasir í nýjum könnunum meðal skólabarna. Upptökur af erindum má nálgast hér  og hvetjum við foreldra til að fylgjast með þessum fróðlegu erindum og nýta sér þau í uppeldishlutverkinu.

G.Í. í Skólahreysti

Í dag keppti Grunnskólinn á Ísafirði í Vestfjarðariðlinum í Skólahreysti ásamt Bolvíkingum, Súgfirðingum og Hólmvíkingum. Keppnin fór fram í íþróttahúsinu Mýrinni í Garðabæ fyrir fullu húsi.

Úrslit urðu þau að G.Í. hafnaði í öðru sæti á eftir Bolvíkingum og kemst því ekki í úrslitakeppnina. Við erum stolt af okkar fólki um leið og við óskum Bolvíkingum tll hamingju með góðan sigur. Fyrir hönd G.Í. kepptu þau Dagný Björg Snorradóttir í armbeygjum og hreystigreip, Davíð Hjaltason í upphífingum og dýfum, Daníel Wale Adeleye í hraðabraut og Hafdís Bára Höskuldsdóttir í hraðabraut. Varamenn voru þau Phakawat Janthawong og Svava Rún Steingrímsdóttir og þjálfari Guðný Stefanía Stefánsdóttir.

 

 

Úrslit í Stóru upplestrarkeppninni

Frá vinstri Lena Rut, Íris Embla og Auðbjörg Erna.
Frá vinstri Lena Rut, Íris Embla og Auðbjörg Erna.

Í dag var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar haldin í Hömrum, sal Tónlistarskólans. Tólf nemendur úr 7. bekk á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur. Auk þess lásu allir eitt sjálfvalið ljóð. Dómurum var vandi á höndum að gera upp á milli þessara frábæru lesara, en úrslitin urðu þau Auðbjörg Erna Ómarsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sigraði, Íris Embla Stefánsdóttir frá Grunnskólanum í Bolungarvík hafnaði í öðru sæti og Lena Rut Ásgeirsdóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði í því þriðja.

Dómarar þetta árið voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þ. Ingólfsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir og Kristín Ósk Jónasdóttir. Guðrún Birgisdóttir skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar hélt utan um dagskrána, en Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, sem hafnaði í 2. sæti keppninnar í fyrra, las inngangstexta. Þá lék skólalúðrasveit Tónlistarskólans nokkur lög í upphafi og sá um að koma öllum í rétta gírinn.

Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með góðan árangur.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fer fram í Hömrum fimmtudaginn 9. mars kl. 18:00. Á hátíðinni munu nemendur úr 7. bekk, sem valdir hafa verið úr Grunnskólum Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkur, lesa verk eftir skáld keppninnar, sem að þessu sinni eru þau Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason. Fyrir hönd Grunnskólans á Ísafirði lesa þau Arnar Rafnsson, Kári Eydal, Lena Rut Ásgeirsdóttir, Lilja Borg Jóhannsdóttir og Snæfríður Lillý Árnadóttir. Til vara verður Viktoría Rós Þórðardóttir. Að lestri loknum mun dómnefnd velja þrjá bestu lesarana og veita þeim verðlaun. Gestir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Lestrarátaki lokið

Nú er lestrarátaki Ævars vísindamanns lokið, en það hefur staðið frá 1. janúar. Góð þátttaka var og komu 123 lestrarmiðar í kassann hjá okkur og verða þeir sendir til Heimilis og skóla. Dregið verður í átakinu 8. mars og mun Guðni Th. Jóhannesson forseti þá draga út fimm miða úr lestrarátakspottinum. Haft verður samband við vinningshafa samdægurs og nöfnin tilkynnt opinberlega stuttu eftir það. Við þökkum öllum sem tóku þátt kærlega fyrir.

 

Maskadagur

Mánudaginn 27. febrúar er maskadagurinn eða bolludagur öðru nafni. Af því tilefni verða grímuböll á sal skólans sem hér segir:

1. – 3. bekkur kl. 8:20-9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:20-11:00

6. og 7. bekkur kl. 13:10-13:40

Nemendur og starfsfólk eru margir hverjir í grímubúningum þennan dag og verður gaman að sjá allar þær furðuverur sem verða á ferli.

Þriðjudaginn 28. febrúar (sprengidag) er svo starfsdagur kennara án nemenda og engin kennsla.

Viðurkenning í eldvarnagetraun

Orri Norðfjörð ásamt Hlyni Kristjánssyni frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar
Orri Norðfjörð ásamt Hlyni Kristjánssyni frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fór fram í grunnskólum landsins í nóvember síðast liðinn. þar sem nemendur í 3. bekk fengu m.a. fræðslu um eldvarnir. Nemendur tóku þátt í eldvarnagetraun slökkviálfanna Loga og Glóðar og er nú búið að draga úr réttum lausnum.

Einn nemandi Grunnskólans á Ísafirði var dreginn út og fékk viðurkenningu, en það var Orri Norðfjörð í 3.ÁH. Þeir Hlynur Kristjánsson og Hermann G. Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar komu í heimsókn í gær og afhentu Orra verðlaunin.