Góð staða í lesfimi
Við höfum löngum lagt mikla áherslu á lestur í Grunnskólanum á Ísafirði og höfum alltaf fylgst vel með framförum nemenda. Nú hefur Menntamálastofnun gefið út samræmd lesfimipróf fyrir 2. -10. bekk sem við leggjum fyrir þrisvar á ári. Nýlega sendi Menntamálastofnun frá sér niðurstöður úr þessum prófum þar sem fram kemur, ekki aðeins hversu nálægt viðmiðum stofnunarinnar nemendur G.Í. eru, heldur líka hvernig við stöndum miðað við aðra skóla á Íslandi.
Skemmst er frá því að segja að nemendur okkar eru þó nokkuð yfir landsmeðaltali í nánast öllum árgöngum og fögnum við því að sjálfsögðu. Lestrarnámið er samvinnuverkefni heimila og skóla, svo okkur þykir mjög ánægjulegt að geta sagt foreldrum frá þessu, við erum greinilega að standa okkur vel í þessu samstarfsverkefni!
Svo er vert að ítreka það að lesfimipróf mæla lestrarhraða og hversu rétt og vel er lesið – en að sjálfsögðu er erfitt að lesa fimlega texta sem maður skilur ekki, svo lesskilningurinn hefur áhrif á lesfimina líka. Við leggjum vitaskuld einnig mikla áherslu á aðra þætti lestrar í kennslu og námsmati, t.d. lesskilning, framsögn og lestraráhuga.
Það síðastnefnda er e.t.v. stærsta áskorunin nú orðið. Vert að hafa það í huga nú þegar jólabókaflóðið stendur sem hæst og nýjar barnabækur streyma á markaðinn.
Færni í lestri er svo mikilvæg að segja má að hún sé lykillinn að öllu námi og við ætlum að sjálfsögðu að halda okkar striki og stefnum að því að bæta okkur enn frekar. Næstu lesfimipróf MMS verða lögð fyrir í janúar./Herdís M. Hübner
Deila