VALMYND ×

Fréttir

Íþróttahátíðin í Bolungarvík

Hin árlega íþróttahátíð í Bolungarvík verður haldin á morgun, föstudaginn 27. október og er 8. - 10. bekk boðið til keppni. Hátíðin verður sett kl.10 og ef allt gengur að óskum verður keppni lokið um kl. 18:40. Hátíðinni lýkur svo með balli kl.22:00 og er miðaverð þar kr. 1.500.
Rúta fer frá Holtahverfi kl. 9:30, eftir Seljalandsvegi og út í bæ og tekur upp nemendur á sínum stoppistöðvum. Önnur rúta fer frá skólanum kl. 9:30, tekur upp nemendur í króknum og í Hnífsdal.
Rúta fer frá Bolungarvík heim aftur kl. 19:00 og önnur að loknu balli kl. 22:15. Starfsmenn frá skólanum verða á svæðinu allan tímann og treystum við því að allir mæti með góða skapið og eigi góðan dag.

Löng helgi framundan

Nú er löng helgi framundan, þar sem sameiginlegur starfsdagur Ísafjarðarbæjar er á fimmtudag og vetrarfrí á föstudag og mánudag. Við vonum að allir mæti endurnærðir þriðjudaginn 24. október.

Dægradvöl

Dægradvöl hefur fengið sérstakan hnapp hér inni á síðunni undir flipanum Stoðþjónusta. Esther Ósk Arnórsdóttir, tómstundafulltrúi Ísafjarðarbæjar, hefur tekið saman pistil um þjónustu Dægradvalar og má nálgast hann hér.

Vel heppnað nemendaþing

Í morgun var haldið nemendaþing hér í skólanum eftir þjóðfundar sniði, þar sem allir nemendur sveitarfélagsins í 7. - 10. bekk voru þingfulltrúar og fjölluðu um samfélagsmiðla, kosti þeirra og galla.  Hópstjórar úr 9. og 10. bekk hlutu sérstaka þjálfun fyrir þingið og stýrðu þeir umræðum og samantekt í lok þingsins.

Þingið hófst á því að allir hóparnir, 20 talsins,  horfðu saman á nokkur stutt kveikjumyndbönd varðandi samfélagsmiðla. Að því loknu hófust nemendur handa við að skrá niður alla þá samfélagsmiðla sem þeir þekkja. Því næst völdu hóparnir 3 - 4 miðla til frekari úrvinnslu varðandi kosti þeirra og hvað ber að varast. Í lokin gerðu allir hópar samantekt á sinni vinnu og kynntu fyrir öðrum.

Vinnan sem fram fór í hópunum gekk mjög vel og voru allir áhugasamir og virkir og greinilegt að krakkarnir þekkja tækifærin sem samfélagsmiðlarnir gefa, en einnig hætturnar sem ber að varast. Við munum svo taka saman heildar niðurstöður og gefa út okkar leiðarvísi um notkun samfélagsmiðla.

Við erum mjög stolt af krökkunum okkar og þeirri vinnu sem fram fór í dag og þökkum öllum fyrir þeirra framlag. Við erum viss um að vinnan á nemendaþingi sem þessu efli vitund nemenda um eigin ábyrgð á samfélagsmiðlum og verði öðrum til eftirbreytni.

Þess má að lokum geta að þetta er þriðja nemendaþingið sem haldið er hér í skólanum, en áður hafa verið haldin skólaþing og jafnréttisþing. Þessi þing okkar hafa vakið verðskuldaða athygli og verið kynnt víða, t.d. í Danmörku og hafa aðrir skólar spurst fyrir um framkvæmdina. Í dag voru fulltrúar Vogaskóla í Reykjavík í heimsókn hjá okkur og fylgdust með og þá hefur Austurbæjarskóli einnig fengið okkar uppskrift.

Frétt um þingið í dag kom svo í kvöldfréttum RÚV og er hægt að sjá það hér og fleiri myndir eru komnar inn á myndasafn skólans hér á síðunni.

Nemendaþing

Frá þjálfun hópstjóra
Frá þjálfun hópstjóra

Á morgun fer fram þriðja nemendaþingið sem skólinn heldur. Haustið 2013 fór fram skólaþing, þar sem nemendur voru þátttakendur annars vegar og foreldrar hins vegar. Niðurstöður þinganna voru svo nýttar við skólanámskrárvinnu. Í febrúar 2016 var svo haldið jafnréttisþing sem fjallaði um það hvað nemendur, starfsfólk og foreldrar gætu gert til að auka jafnrétti í skólanum, heima og jafnvel víðar.

Á morgun verða samfélagsmiðlarnir teknir fyrir og verða þátttakendur úr 7. - 10. bekk G.Í. og einnig koma nemendur frá Grunnskólanum á Þingeyri, Suðureyri og Flateyri. Valdir hafa verið hópstjórar sem hafa hlotið kennslu í þeim efnum og munu þeir stýra umræðum um samfélagsmiðla almennt, kosti þeirra og ókosti.

Rýmingaræfing

Í morgun fór fram rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og tók rúmar tvær mínútur að rýma húsið. 

Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun. Taka þarf manntal á söfnunarsvæðinu, bæði hjá nemendum og starfsmönnum, þannig að engin hætta sé á að einhver hafi orðið innlyksa í skólanum.

Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni, hvort að einhver svæði teppist o.s.frv. og gerðar úrbætur í framhaldinu ef þurfa þykir.

Litla kaffihúsið

Hér í skólanum fer fram margvíslegt nám sem er aldeilis ekki alltaf hefðbundið.  Í síðustu viku var sagt frá opnun kaffihúss nokkurra nemenda í 10.bekk. Í morgun endurtóku nokkrir krakkar í 8. og 9. bekk leikinn og hlaut kaffihúsið þeirra nafnið „Litla kaffihúsið". Nemendur skiptu með sér verkum því á alvöru kaffíhúsum falla að sjálfsögðu til hin ýmsu verk. Sumir tóku að sér að sjá um eldhúsið eða reiða fram kökur og brauðmeti, aðrir voru gjaldkerar og tóku við greiðslu frá gestunum, en notaðir voru sérstakir kennslupeningar. Svo þurfti að sjálfsögðu að taka á móti gestunum og þjóna þeim á allan þann hátt sem ber að gera á góðum kaffihúsum. Það var einróma álit gesta að krakkarnir hefðu staðið sig frábærlega – allt hefði smakkast vel og þjónustan hefði verið eins og best var á kosið.

Krakkarnir voru mjög áhugasamir við þetta verkefni og þess má geta að þau sáu ekki eingöngu um það að baka fyrir kaffihúsið heldur tíndu þau berin í sulturnar á skólalóðinni, ræktuðu basilikuna sem fór í pítsusnúðana og forræktuðu blómin sem þau skreyttu með borðin. Hugmyndasmiður verkefnisins er Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari, sem stýrt hefur hópnum af röggsemi og einstakri natni, sem endurspeglast í áhuga og gleði nemenda.

Ferð til Kaufering

1 af 4

Dagana 30.september til 6.október dvöldust 8 nemendur úr Ísafjarðarbæ ásamt fararstjórum, í Kaufering í Þýskalandi, sem er vinabær Ísafjarðar. Nemendur dvöldu á einkaheimilum og tóku þátt í daglegu lífi heimilisfólksins.  Farið var í Montessori-skóla þar sem skólastarfið er nokkuð frábrugðið því sem við eigum að venjast. Til að mynda er enginn nemandi með síma á meðan skóli stendur yfir frá 8 – 15.

Það var farið í margar skoðunarferðir t.d í Neuschwanstein sem er ævintýrakastali frá 19. öld, Oktoberfest í München og Dachau sem voru fangabúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni. Það var mikill munur á þessum ferðum. Gleðin og munaðurinn annars vegar og svo hörmungar stríðsins hins vegar þar sem mannvonskan kom fram í sinni verstu mynd.

Tíminn var fljótur að líða við leik og lærdóm og það voru ánægðir og þreyttir nemendur og kennarar  sem lentu á Keflavíkurflugvelli 6.október.

Opnun kaffihúss

Í morgun opnaði kaffihúsið ,,Kaffihús skrítnu strumpanna" hér í skólanum og var það opið í eina klukkustund. Starfsmönnum skólans var boðið og fengu þeir kennslupeninga við innganginn og gátu keypt sér veitingar. Boðið var upp á skonsur með rifsberjahlaupi og sólberjasultu með döðlum og eplum, en sólberin voru ræktuð hér á skólalóðinni. Einnig var á boðstólnum volg hjónabandssæla og pizzusnúðar með basil sem ræktað var hér í skólanum. Auk þess gátu gestir fengið sér melónu, djús og kakó.

Starfsmenn kaffihússins sem eru nokkrir nemendur í 9. og 10. bekk sáu um alla framreiðslu; þjónuðu til borðs, bökuðu skonsurnar jafnóðum og stóðu sig eins og þaulreyndir í veitingabransanum, enda fengu þeir ríflegt af þjórfé og allir kennslupeningarnir vel nýttir. Nafnið á kaffihúsið völdu þeir í sameiningu.

Kaffihúsið er hluti af heimilisfræðikennslu Guðlaugar Jónsdóttur kennara sem stýrt hefur þessu skemmtilega verkefni ásamt Árnýju Einarsdóttur stuðningsfulltrúa og eiga þær hrós skilið fyrir framtakið.

Í næstu viku er svo von á öðru kaffihúsi og hlökkum við til að fylgjast með opnun þess.

Frumsýning Þjóðleikhússins

Í morgun bauð Þjóðleikhúsið nemendum 5. - 7. bekkjar upp á frumsýningu leikritsins Oddur og Siggi eftir Björn Inga Hilmarsson og leikhópinn. Leikritið segir frá þeim Oddi og Sigga sem hafa verið bestu vinir í 10 ár og bjóða til veislu þar sem þeir fagna vinskap sínum.  En það getur orðið flókið að eiga vini og gott að búa sér til sinn eigin draumaheim, til að komast burt úr veruleikanum. Í leikritinu er fjallað af einlægni og húmor um flókin samskipti í heimi skólabarna.

Leikarar í sýningunni eru þeir Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson, sem einnig sömdu tónlistina og náðu þeir vel til áhorfenda. Við þökkum Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir þessa skemmtilegu heimsókn.