Í morgun var haldið nemendaþing hér í skólanum eftir þjóðfundar sniði, þar sem allir nemendur sveitarfélagsins í 7. - 10. bekk voru þingfulltrúar og fjölluðu um samfélagsmiðla, kosti þeirra og galla. Hópstjórar úr 9. og 10. bekk hlutu sérstaka þjálfun fyrir þingið og stýrðu þeir umræðum og samantekt í lok þingsins.
Þingið hófst á því að allir hóparnir, 20 talsins, horfðu saman á nokkur stutt kveikjumyndbönd varðandi samfélagsmiðla. Að því loknu hófust nemendur handa við að skrá niður alla þá samfélagsmiðla sem þeir þekkja. Því næst völdu hóparnir 3 - 4 miðla til frekari úrvinnslu varðandi kosti þeirra og hvað ber að varast. Í lokin gerðu allir hópar samantekt á sinni vinnu og kynntu fyrir öðrum.
Vinnan sem fram fór í hópunum gekk mjög vel og voru allir áhugasamir og virkir og greinilegt að krakkarnir þekkja tækifærin sem samfélagsmiðlarnir gefa, en einnig hætturnar sem ber að varast. Við munum svo taka saman heildar niðurstöður og gefa út okkar leiðarvísi um notkun samfélagsmiðla.
Við erum mjög stolt af krökkunum okkar og þeirri vinnu sem fram fór í dag og þökkum öllum fyrir þeirra framlag. Við erum viss um að vinnan á nemendaþingi sem þessu efli vitund nemenda um eigin ábyrgð á samfélagsmiðlum og verði öðrum til eftirbreytni.
Þess má að lokum geta að þetta er þriðja nemendaþingið sem haldið er hér í skólanum, en áður hafa verið haldin skólaþing og jafnréttisþing. Þessi þing okkar hafa vakið verðskuldaða athygli og verið kynnt víða, t.d. í Danmörku og hafa aðrir skólar spurst fyrir um framkvæmdina. Í dag voru fulltrúar Vogaskóla í Reykjavík í heimsókn hjá okkur og fylgdust með og þá hefur Austurbæjarskóli einnig fengið okkar uppskrift.
Frétt um þingið í dag kom svo í kvöldfréttum RÚV og er hægt að sjá það hér og fleiri myndir eru komnar inn á myndasafn skólans hér á síðunni.