VALMYND ×

Fréttir

Gísli Súrsson í heimsókn

Elfar Logi Hannesson leikari heimsótti 10. bekk í gær í gervi Gísla Súrssonar og sýndi leikrit sitt  og Jóns Stefáns Kristjánssonar um útlagann mikla en nemendur hafa einmitt verið að lesa sögu hans síðustu vikurnar. Elfar Logi bregður sér raunar í allra kvikinda líki og nýtir alls konar leikhústöfra til að galdra fram ótal persónur og ólíka staði og koma þessari miklu sögu sem er bæði löng og flókin, til skila á einfaldan og skýran hátt á 50 mínútum.  Krakkarnir gerðu góðan róm að sýningunni og höfðu sum þeirra á orði að nú loksins skildu þau þessa sögu almennilega! 

Svo er ætlunin að fylgja Gísla eftir í vor og heimsækja heimaslóðir hans í Haukadal í Dýrafirði þegar snjóa leysir. /HMH


Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Ólöf, Sigurjón og Ástmar  kynna NKG fyrir nemendum 5. bekkjar.
Ólöf, Sigurjón og Ástmar kynna NKG fyrir nemendum 5. bekkjar.

Nú er Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) að hefjast, en hún er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika.

NKG hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem  forseti Íslands afhendir stórglæsileg verðlaun og viðurkenningarskjöl.

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, kennari hér við skólann, kynnti keppnina nú á dögunum fyrir nemendum, ásamt þeim Ástmar Helga Kristinssyni og Sigurjóni Degi Júlíussyni. Þeir félagar komust einmitt í úrslit fyrir tveimur árum með hugmynd sína að smáforritinu ,,Út að leika". Við vonum að sem flestir taki þátt í keppninni þetta árið og láti hugmyndir sínar verða að veruleika. Allar nánari upplýsingar um keppnina má nálgast hér.

Jákvæð samskipti

Pálmar Ragnarsson ásamt nemendum 5. - 7. bekkjar
Pálmar Ragnarsson ásamt nemendum 5. - 7. bekkjar

Í gær fengum við Pálmar Ragnarsson í heimsókn í 5. - 7. bekk. Pálmar er körfuboltaþjálfari sem hefur staðið sig einstaklega vel við að breiða út jákvæðni í íþróttum og samskiptum og byggja upp liðsheild. Hann höfðaði vel til nemenda og lagði mikla áherslu á að hver og einn skiptir máli í hópnum, ekki bara í íþróttum, heldur einnig í skólanum og hvar sem er.

Pálmar hélt einnig fyrirlestur fyrir starfsmenn skólans á sömu nótum. Jákvæð samskipti geta gert gæfumuninn hvað varðar vellíðan á vinnustöðum og alveg nauðsynlegt að fríska aðeins upp á það annað slagið.

 

Eldvarnargetraun

Dagný Emma Kristinsdóttir datt í lukkupottinn þegar dregið var í eldvarnargetraun Landsambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna. Getraunin var lögð var fyrir alla þriðju bekki í landinu í framhaldi af heimsókn slökkviliðsmanna í skólana í lok nóvember og byrjun desember s.l. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, bakpoki, reykskynjari og bolur, sem Hermann Hermannsson afhenti Dagnýju í morgun eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Sprengidagur - starfsdagur

Á morgun, sprengidag, er starfsdagur hér í skólanum og engin kennsla.

Ævintýratónleikar

Í morgun bauð Sinfóníuhljómsveit Íslands nemendum 4. - 7. bekkjar á öllu landinu, upp á skólatónleika undir yfirskriftinni Ævintýratónleikar Ævars. Þar lék Sinfóníuhljómsveitin undir stjórn Bernhards Wilkinson nokkur vel valin tónverk úr frægum verkum eins og Harry Potter, Hringadróttinssögu, Sjóræningjum Karíabahafsins o.fl. Tónleikunum var streymt um Netið í beinni útsendingu frá Hörpu og varpað á tjald í samkomusal skólans.

Kynnir á tónleikunum var Ævar Þór Benediktsson og náði hann vel til nemenda með sinni kímni og léttleika. Nemendur G.Í. fjölmenntu á tónleikana sem tókust mjög vel og var virkilega gaman að fá að taka þátt í þeim á þennan hátt.

Bókagjöf

Þórunn Hafdís Stefánsdóttir kom færandi hendi í morgun, þegar hún færði skólanum bók að gjöf. Bókin heitir Kort og inniheldur myndskreytt ferðalag um náttúru og menningu jarðar og er góð viðbót við bókakost skólans. Við þökkum Þórunni Hafdísi kærlega fyrir.

Maskadagur - grímuball

Mánudaginn 12. febrúar n.k. er maskadagur/bolludagur. Þá er hefð fyrir því að nemendur og starfsfólk mæti í búningum og er alltaf gaman að sjá hinar ýmsu persónur birtast.

Grímuballið verður á sínum stað og er skipulagið eftirfarandi:

1. - 3. bekkur kl. 8:20 - 9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:20 - 11:00

6. - 7. bekkur kl. 13:10 - 13:40.

 

Þeir unglingar sem mæta í búningum eru velkomnir á grímuböll hjá vinabekkjum sínum og að sjálfsögðu er heimilt að koma með bollur af ýmsu tagi í nesti.

Á þriðjudaginn/sprengidag er svo starfsdagur og engin kennsla.

 

Fjölgun nemenda

Í vetur hefur verið nokkuð um nýskráningar nemenda í skólann og eru nemendur nú orðnir 360 talsins, 180 stúlkur og 180 drengir, skemmtileg tilviljun það. Stærsti árgangurinn er í 1. bekk, alls 50 nemendur og fæstir í 8. bekk, 25 nemendur. 

Nemendum í skólanum hefur nú fjölgað um 19 frá síðasta vetri og samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, virðist botninum hafa verið náð árin 2014-2016 þegar nemendafjöldi fór niður í 327. En nú liggur leiðin upp á við eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og vonumst við til að sú þróun haldi áfram.

Þakkardagur vinaliða

Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf sem þeir hafa sinnt frá upphafi skólaárs. Umsjónarmenn verkefnisins, þeir Árni Heiðar Ívarsson og Atli Freyr Rúnarsson, buðu svo hópnum í bíó. 

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í 4 ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að:

  • stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum skólanna
  • leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum
  • minnka togstreitu milli nemenda og
  • hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.

Í næstu viku tekur svo nýr nemendahópur við keflinu, en kosið er um vinaliða tvisvar á ári.