VALMYND ×

Fréttir

Norræna skólahlaupið

Frá skólahlaupinu 2015
Frá skólahlaupinu 2015

Á morgun þriðjudaginn 19. september verður hið árlega skólahlaup. Hlaupið verður frá Bæjarbrekku/Seljalandsvegi og inn Seljalandsveg, inn að Seljalandi og þaðan áfram inn í skóg hjá þeim sem lengst fara.

Kl. 10.00 1.-4. bekkur fer að Engi
Kl. 10.05 5.-7. bekkur fer að Seljalandi
Kl. 10.10 8.- 10. bekkur má ráða, Seljaland eða Tunguskógur

Við hvetjum nemendur til að koma á góðum skóm og klædda miðað við veður, en við gætum átt von á smá vætu.

Kynning fyrir foreldra

Fulltrúi frá Rannsóknum og greiningu kynnir skýrslu um hagi og líðan ungs fólks, í fyrirlestrarsal Menntaskólans á Ísafirði á morgun, þriðjudaginn 12. september kl. 17:30. Kynningin nær yfir grunn- og framhaldsskólastig og tekur á ýmsum þáttum s.s. vímuefnaneyslu, félagslegum þáttum, líðan, mataræði, svefntíma og hreyfingu.

Það eru skýr og afdráttarlaus skilaboð til foreldra í niðurstöðum þessara kannana.  Skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar hvetur því foreldra og aðra áhugasama eindregið til að sýna samstöðu og mæta, enda er um börnin okkar að ræða.

Göngum í skólann

Nú stendur yfir verkefnið Göngum í skólann og er Grunnskólinn á Ísafirði skráður til leiks. Einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu og hjólreiðar. Ávinningur er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Þeir aðilar sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Við hvetjum alla til að taka þátt í þessu verkefni sem stendur yfir til 4. október. 

Fjallgöngur

9. bekkur gekk upp á Kistufell í gær. Mynd: Árný Einarsdóttir
9. bekkur gekk upp á Kistufell í gær. Mynd: Árný Einarsdóttir

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana hafa nemendur skundað upp um fjöll og firnindi og fór 10. bekkur t.d. siglandi norður í Grunnavík í gær og gekk yfir á Flæðareyri.

Fjallgöngurnar eru mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda en í þeim fá þeir tækifæri til að aðstoða samnemendur og  eiga í fjölbreyttum samskiptum um leið og þeir fræðast um nærumhverfi sitt og náttúruna.  

Starfsdagur

Föstudaginn 8. september er starfsdagur hér í skólanum og engin kennsla. 

Við bendum á skóladagatalið sem gefið var út s.l. vor, en þar er hægt að nálgast upplýsingar varðandi skóladaga, starfsdaga, vetrarfrí og slíkt.

Fjármálafræðsla

Mynd: Hrafn Snorrason
Mynd: Hrafn Snorrason
1 af 2

Í gær heimsóttu nemendur 10. bekkjar Íslandsbanka og Landsbankann í tengslum við þá fjármálafræðslu sem fram fer í stærðfræðinni. Neytendafræðsla og fjármálalæsi eru mikilvæg forsenda þess að geta metið þarfir okkar í nútíð og framtíð og erum við svo heppin að fá bankana hér á staðnum með okkur í lið til að hjálpa við þá fræðslu sem við viljum veita unglingunum okkar. Nemendur fengu hrós fyrir góða framkomu í þessari heimsókn og er alltaf gaman að fá slíkar viðurkenningar um leið og við þökkum kærlega fyrir okkur.

7. bekkur á heimleið frá Reykjum

7. bekkur lagði af stað heim á leið frá Reykjum um kl. 11:30 og er áætluð heimkoma seinni partinn. Hópurinn er alsæll með ferðina og allt gengið eins og í sögu.

Nánari tímasetning heimkomu verður sett inn á Facebook síðu bekkjarins síðar í dag.

Mataráskrift

Nú hefur verið lokað fyrir skráningar í mat fyrir ágúst og september. Þar sem nokkrir byrjunarerfiðleikar voru í sambandi við skráningar biðjum við þá sem enn vilja bæta börnum sínum í mataráskrift í september eða í hafragraut eða ávexti að senda póst á netfangið jonab@isafjordur.is 

Aftur verður opnað fyrir skráningar þann 18.september, þá verður hægt að skrá í mat fyrir þann tíma sem eftir er af haustönninni.  Leiðbeiningar um skráningar má finna hér.

Skólabúðir

Í morgun hélt 7. bekkur ásamt kennurum norður í Hrútafjörð í skólabúðir að Reykjum og mun dvelja þar fram á föstudag. Starfið í skólabúðunum beinist að sömu markmiðum og starfið í almennum grunnskólum, en lögð er sérstök áhersla á að auka samstöðu, samvinnu, félagslega aðlögun, sjálfstæði og athyglisgáfu. Eitt af markmiðum skólabúðanna er að venja nemendur við að búa fjarri foreldrahúsum, sofa á ókunnum stað og sjá um sig. 

Dagskráin í skólabúðunum er þétt skipuð og lítil hætta á að krökkunum leiðist, enda nóg við að vera utan formlegra kennslustunda og aðstaða öll hin besta með sundlaug, íþróttahúsi og tómstundasal.

Áætluð heimkoma hópsins er seinni partinn á föstudag og munum við setja inn nánari upplýsingar þegar þar að kemur. Við óskum hópnum góðrar ferðar og vonum að allir njóti dvalarinnar sem best.

Nánari upplýsingar um skólastarfið má finna hér á heimasíðu skólabúðanna.

Umferðaröryggi

Í upphafi hvers skólaárs er nauðsynlegt að fara yfir þær umferðarreglur sem gilda fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur til að leggja grunn að auknu öryggi nemenda í umferðinni. Sérstaklega er mikilvægt að huga vel að yngstu nemendunum en við skulum ekki gleyma að fræða þau eldri líka.  

Mörg umferðarverkefni hafa verið unnin í skólanum í gegnum árin til að stuðla að bættri umferðarmenningu og auknu umferðaröryggi og ætlum við að halda því áfram.

Þáttur heimilanna er mikilvægur í umferðarfræðslu og forvörnum sem felst meðal annars í því að sýna gott fordæmi. Til að styðja heimilin í þeirri viðleitni, vill skólinn benda á nokkur atriði sem foreldrar/forráðamenn geta stuðst við þegar þeir vinna með börnum sínum að því að tryggja sem best öryggi þeirra í umferðinni.

  • Æfum leiðina í og úr skóla með barninu
  • Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki endilega þá stystu
  • Kennum barninu að fara yfir götu
  • Sýnum hvernig við hegðum okkur ef farið er um vegi án gangbrauta og gangstétta
  • Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
  • Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
  • Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir
  • Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
  • Förum yfir öryggi í kringum strætó
  • Bendum börnunum á örugg leiksvæði

Það er von okkar að þessir punktar nýtist vel og stuðli að auknu umferðaröryggi nemenda.