VALMYND ×

Fréttir

Bókakaup

Það er mikilvægt að börn og unglingar hafi aðgang að lesefni sem höfðar til þeirra. Nú í desember prófuðum við að leyfa nemendum sjálfum að velja bækur inn á skólabókasafnið. Nemendur 4. og 7. bekkjar fóru með kennurum sínum og bókaverðinum okkar út í bókabúð og hver nemandi valdi eina bók sem hann fær svo að lesa fyrstur. 

Foreldradagur

Miðvikudaginn 10. janúar n.k. eru foreldraviðtöl hér í skólanum. Líkt og undanfarin ár, bóka foreldar viðtalstíma í gegnum Mentor.

Hér má nálgast kynningarmyndband varðandi skráningu.

Skráning í mötuneyti

Nú hefur verið tekið í notkun nýtt skráningarkerfi í mötuneyti skólans og þurfa því allir sem vilja að börn sín borði í mötuneytinu á vorönninni að skrá þau hér. Við vonum að allir geti gengið frá áskrift sem allra fyrst. Nánari leiðbeiningar hafa verið sendar í tölvupósti á aðstandendur, en meðfylgjandi er tafla/mynd af verðskránni.

 

Gleðileg jól

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og öðrum gleðilegrar jólahátíðar, árs og friðar. Skólastarf hefst á nýju ári samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 4. janúar 2018.

Síðustu dagarnir fyrir jól

Nú fer að líða að jólaleyfi og í mörgu að snúast síðustu dagana fyrir jól. Við reynum þó að halda ró okkar og hafa aðventuna sem notalegasta.

Í dag er skólastarf með hefðbundnum hætti, en þó ætlar barnakór T.Í. að koma og syngja fyrir okkur kl. 11:00.

Á morgun er svokallaður skreytingadagur þar sem allir leggja lokahönd á skreytingar í skólastofum og einnig hefur verið mikill metnaður í hurðaskreytingum. Það verður virkilega gaman að sjá þegar allt er orðið full frágengið í þeim efnum. 

Á miðvikudaginn eru svo litlu jólin. Þá mæta allir prúðbúnir kl. 9:00 með hátíðarnesti, þar sem smákökur skipa stóran sess. Nemendur mæta í sínar umsjónarstofur og eiga notalega stund þar, fara svo og ganga í kringum jólatréð í nýja anddyri skólans og verða eflaust einhverjir jólasveinar á ferðinni. Skóla lýkur svo um kl. 12:00 og þar með hefst jólaleyfið.

Strætó fer úr firðinum og Hnífsdal kl. 8:40 og til baka kl. 12:10. Dægradvöl verður opin frá kl. 12:00.

Danssýningar

Í haust hafa margir nemendur 1. - 4. bekkjar valið danssmiðju í frístund, sem Henna-Riikka Nurmi hefur séð um. Nú er komið að því að bjóða foreldrum að horfa á hvað krakkarnir hafa lært í þessum tímum.
Þriðjudaginn 12. desember -    foreldrar barna í 3.- 4. bekk kl. 11:30
Miðvikudaginn 13. desember -  foreldrar barna í 1. bekk kl. 11:00
Miðvikudaginn 13. desember -  foreldrar barna í 2. bekk kl. 11:30 

Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta í dansstofu skólans og sjá þessa dansfimu krakka.

Niðurstöður nemendaþings

Þann 13.október héldum við nemendaþing í skólanum þar sem umræðuefnið var gagnsemi og hvað ber að varast við notkun samfélagsmiðla.  Við höfðum ákveðið að niðurstöður þessa þings yrðu sendar heim í formi ísskápsseguls svo þær gætu verið til umræðu inni á heimilum. En þegar nemendaþing eru haldin veit maður aldrei fyrirfram hvernig niðurstöður verða.  Þegar svo niðurstöður voru tilbúnar að þessu sinni og búið að draga þær saman varð okkur ljóst að ekki væri hægt að setja þær upp þannig að hægt væri að hafa þær fyrir augum nemenda og foreldra í erli hversdagsins, þar sem þær voru það yfirgripsmiklar.  Við brugðum því á það ráð að fá grafískan hönnuð til setja fyrir okkur upp segul sem innihéldi þá meginhugsun sem kom fram í niðurstöðum nemenda eftir umræðurnar á þinginu.  Segullinn var svo sendur inn á öll heimili nemenda, ásamt ítarlegri niðurstöðu og vonum við að segullinn verði hvatning til umræðu um skynsamlega notkun samfélagsmiðla.

Tangi heimsóttur

1 af 4

Nemendur 9. bekkjar hafa alla vikuna verið niðursokknir  í að semja jólasögur handa börnunum á leikskólanum Tanga. Þau gengu fallega frá sögunum, myndskreyttu þær og bundu inn með ýmsu móti og fóru svo í heimsókn á leikskólann í morgun. Þar tóku stillt og prúð leikskólabörnin á móti unglingunum og hlustuðu með athygli á þau lesa upp sögurnar sínar. Bækurnar voru svo skildar eftir á Tanga svo fleiri geti notið þess að hlusta á þessar fínu sögur og skoða myndirnar.

Heimsóknin fór fram í tveimur áföngum, fyrst fóru stelpurnar á meðan strákarnir þreyttu sundpróf í næsta húsi og svo var skipt um hlutverk; strákarnir lásu og stelpurnar syntu.

Við kennararnir erum stoltir af unglingunum okkar, hvað þau lögðu sig fram við þetta verkefni, skiluðu vandaðri vinnu og lásu sögurnar fallega fyrir litlu börnin á Tanga.

Lesið upp úr verðlaunabók

Elísa Jóhannsdóttir, rithöfundur
Elísa Jóhannsdóttir, rithöfundur
1 af 2

Í síðustu viku kom rithöfundurinn Elísa Jóhannsdóttir í heimsókn í 8. og 9. bekk, en hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2017  fyrir bókina Er ekki allt í lagi með þig? Í umsögn dómnefndar segir að bókin sé skemmtileg og spennandi unglingasaga í hæsta gæðaflokki, sem fjalli á nýstárlegan hátt um einelti frá sjónarhóli bæði gerenda og þolenda.

Elísa ræddi við nemendurna um gerð bókarinnar og las brot úr henni fyrir nemendur, sem kunnu vel að meta þessa heimsókn.

Rauður dagur

Föstudaginn 8. desember ætlum við að hafa rauðan dag hér í skólanum, til að lífga upp á aðventuna. Starfsmenn jafnt sem nemendur eru því hvattir til að klæðast einhverju rauðu þann dag.