Þakkardagur vinaliða
Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf frá áramótum. Að því loknu fara vinaliðarnir ásamt Árna Heiðari Ívarssyni, umsjónarmanni verkefnisins í bíó. Hópurinn er svo væntanlegur aftur í skólann um hádegisbilið.
Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í fjögur ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum, leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum, minnka togstreitu milli nemenda og hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.