VALMYND ×

Fréttir

Besti vinur mannsins

Í haust var boðið upp á nýja valgrein á miðstigi, sem nefnist ,,hundar sem gæludýr". Markmið kennslunnar er að nemendur kynnist umhirðu hunda og mikilvægum þáttum í samskiptum þeirra við manninn. Auður Yngvadóttir kennir þessa valgrein, en hún hefur áralanga reynslu af hundum og hefur m.a. þjálfað björgunarhunda til starfa.

Í dag kom hún með hundinn Kára með sér í kennslustund og vakti það mikla gleði hjá nemendum. Kári kunni einnig vel að meta heimsóknina, var hinn kátasti og fór að mestu eftir skólareglum.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur um land allt. Í Hömrum var dagskrá fyrir 4. - 7. bekk þar sem Litla- og Stóra upplestrarkeppnin voru settar formlega. Einnig hefst svokölluð Snillingakeppni í dag, en Snillingarnir er heiti á bókmenntaspurningakeppni sem nú er haldin í annað sinn á miðstigi. 

Unglingastig skólans valdi fallegustu íslensku orðin og má sjá niðurstöður þeirra á meðfylgjandi mynd. Smekkur manna er æði misjafn og orðavalið eftir því, en letur orðanna stækkaði eftir því sem fleiri nefndu þau.

Bættur námsárangur

 

Til hamingju!

Í markmiðsgrein laga um grunnskóla segir eftirfarandi ,,Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.“

Þetta er sú grein grunnskólalaga sem mestrar athygli nýtur, enda tiltekur hún allt það helsta sem hafa þarf í huga þegar starfað er í þágu grunnskóla. Markmiðsgrein laga um leikskóla er samhljóma ,,Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

Haustið 2014 fór Ísafjarðarbær af stað með verkefni sem fékk nafnið Stillum saman strengi og miðar að því að bæta námsárangur barna í Ísafjarðarbæ. Menntun barna er samvinnuverkefni heimila og skóla og sýna rannsóknir að bestur árangur næst ef aðilar eru í góðri samvinnu. Ætlunin er þess vegna að bættur námsárangur gerist í samstarfi heimila og skóla.

Skólarnir hafa gert ýmsar breytingar hjá sér og leggja aukna áherslu á læsi í víðum skilningi. Börnin hafa t.d. tekið þátt í hverju lestrarátakinu á fætur öðru með aðstoð foreldra. Þó svo að lestrakennsla og einhver þjálfun fari fram í skólum bera foreldrar samt alltaf hitann og þungann af lestrarþjálfuninni.

Langflestir hafa lagt sig mjög vel fram og nú erum við farin að uppskera. Miklar framfarir hafa orðið síðustu ár hjá leikskólabörnum og aðdáunarvert að sjá það starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins. Niðurstöður Hljómprófa síðustu ára hafa verið mjög góðar, en HLJÓM-2 er greiningartæki, aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika.

Góður árangur sést einnig í grunnskólum. Nýjustu niðurstöður samræmdra prófa gefa okkur byr undir báða vængi, þar sem einkunnir nemenda í 4. bekk eru töluvert yfir landsmeðaltali, bæði í íslensku og stærðfræði. Einkunnir nemenda í öðrum árgöngum fara hækkandi og niðurstöðurnar sýna að okkar nemendur virðast vera ívið sterkari í stærðfræði en íslensku.

Þrátt fyrir að ástæða sé til að fagna góðum árangri í skólunum okkar megum við samt ekki sofna á vaktinni. Við þurfum öll að hafa samstillta strengi, fyrir börnin./MH

Dagur myndlistar

Síðastliðinn fimmtudag fengu nemendur í myndmennt heimsókn frá Höllu Birgisdóttur listamanni. Það er árlegur viðburður hjá okkur að fá heimsókn frá myndlistamanni í tilefni af Degi myndlistar en það er Samband íslenskra myndlistamanna sem býður grunnskólum landsins upp á slíkar kynningar.   

Halla sagði nemendum frá verkum sínum, ferlinu á bak við verkin, hvernig er að starfa sem myndlistamaður, frá veikindum sem hún glímdi við og var hluti af útskriftaverki hennar frá Listaháskóla Íslands. Halla hafði á orði hversu líflegir og áhugasamir nemendurnir væru en þeir voru óhræddir við að spyrja listmanninn spjörunum úr.  

 Við þökkum Höllu kærlega fyrir heimsóknina.

Hönnunarkeppni First Lego

Lið G.Í. talið f.v. Stefán Freyr, Sveinbjörn Orri, Gylfi, Daði Rafn og Haukur Hildimar.
Lið G.Í. talið f.v. Stefán Freyr, Sveinbjörn Orri, Gylfi, Daði Rafn og Haukur Hildimar.

Liðið Filipo Berio úr Garðaskóla sigraði í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói s.l. laugardag. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í norrænni keppni FIRST LEGO League sem fram fer í Osló í byrjun desember.

Markmiðið með keppninni er að efla færni og vekja áhuga ungs fólks á tækni og vísindum með því að leggja fyrir þau spennandi verkefni sem örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskipta- og skipulagshæfni. Háskóli Íslands hefur staðið fyrir keppninni í rúman áratug.

Að þessu sinni voru 21 lið frá 18 grunnskólum skráð til þátttöku en alls voru þátttakendur um 200 talsins. Liðin höfðu unnið ötullega að undirbúningi í allt haust og mættu þrautþjálfuð til leiks. Grunnskólinn á Ísafirði var á meðal þeirra skóla sem tóku þátt og stóð liðið sig með stakri prýði og samstaðan til fyrirmyndar, undir styrkri stjórn Jóns Hálfdáns Péturssonar, kennara og þjálfara liðsins. Þetta er í annað skiptið sem G.Í. tekur þátt í þessari keppni, en í fyrra vann liðið til verðlauna fyrir besta hönnun og forritun vélmennis.

Pappírslaus próf

Stærðfræðipróf í 10. bekk
Stærðfræðipróf í 10. bekk

Síðustu ár hefur upplýsingatækninni fleygt fram og höfum við reynt eins og við getum að nýta okkur hana sem mest og best. Möguleikarnir eru óþrjótandi og virkilega skemmtilegt og spennandi að nálgast námsefni og kennslu á nýjan hátt með tilkomu snjalltækja. Nú er búið að spjaldtölvuvæða 6. - 10. bekk og 5. bekkur mun bætast í hópinn á næstu dögum. Allir þeir nemendur hafa því spjaldtölvu fyrir sig til afnota við námið. Auk þess eru nokkrar spjaldtölvur í hverjum yngri bekkjanna.

Spjaldtölvur henta vel í skólastarfi vegna þess að þær eru einfaldar, aðgengilegar, færanlegar og bjóða upp á fjölbreytta og skapandi notkunarmöguleika. Þær eru allt í senn: hljóðver, myndbandstökuvél, myndavél, hljóðfæri, upplýsingaveita, bókasafn, samskiptatæki, lesstuðningstæki og margt fleira. Svo má ekki gleyma því hversu umhverfisvænar þær eru og spara ómældan pappír. Í 10. bekk tóku nemendur stærðfræðipróf á dögunum í spjaldtölvum og fengu niðurstöður og viðbrögð kennara einnig rafrænt, þannig að engan pappír þurfti þar, eins og sést á meðfylgjandi mynd.

 

Hrekkjavökuball

Á morgun, föstudaginn 3. nóvember, heldur 10. bekkur Halloween ball í sal skólans. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir þá sem mæta í búningi, en annars kr. 1.500. Gleðin stendur frá kl. 20:00 - 23:30 og eru allir nemendur 8. - 10. bekkjar G.Í. velkomnir, auk nemenda úr skólum hér í kring.

Slysavarnarkonur í heimsókn

Í morgun komu slysavarnarkonur í heimsókn og færðu öllum nemendum 1. - 8. bekkjar endurskinsmerki. Við þökkum þeim kærlega fyrir, enda nauðsynlegt að allir sjáist vel í skammdeginu.

Nýtt fréttabréf

Nú er nýtt fréttabréf komið út, þar sem farið er yfir það helsta í skólastarfinu. Áætluð útgáfa er einu sinni í mánuði.

Ísfirðinga getið í þýsku blaði

Dagana 30.september til 6.október síðastliðinn dvöldu 8 nemendur úr Ísafjarðarbæ ásamt fararstjórum, í Kaufering í Þýskalandi, eins og fram hefur komið hér í fréttum. Þessari heimsókn var gerð góð skil í bæjarblaði í Kaufering eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og snaraði Herdís Hübner textanum fyrir okkur yfir á íslensku.

Frá Íslandi til Kaufering

Skiptinemar frá Ísafirði heimsækja vinabæinn

Þau heita Dagbjört, Marta Sóley, Einar Geir, Egill, Natalía, Davíð, Rán og Svava. Átta skiptinemar frá íslenska smábænum Ísafirði þar sem íbúar eru 2600, komu nýlega ásamt tveimur kennurum sínum til Kaufering og dvöldu þar í eina viku. Þau gistu heima hjá fjölskyldum nemenda í Montessori-skólanum og sóttu kennslustundir þar með félögum sínum. Íslensku nemendurnir búa á mjög afskekktum stað í sterkum tengslum við náttúruna og þeirra beið mjög fjölbreytt og áhugaverð dagskrá. Strax eftir komuna lá leiðin til Neuschwanstein og ekki mátti heldur missa af þessu tækifæri til að kynna sér Oktoberfest. Mannfjöldinn og hinar margvíslegu skemmtanir voru nýnæmi fyrir Íslendingana – allt var svo gerólíkt því sem þau þekkja frá Íslandi. Til að kynnast sögu Þýskalands var haldið í fangabúðirnar í Dachau og fangelsið í Landsberg. Aðallega var ferðast með lestum en engar lestir eru á Íslandi. Svo skemmtilega vildi til að blásarasveit var samferða hópnum í lestinni og lék hún bæversk lög á leiðinni en Íslendingarnir dönsuðu með.

Íslensku krakkarnir höfðu sérstaklega gaman af að fara saman í verslunarleiðangra í Landsberg og Augsburg. Í litla bænum þeirra eru engar stórverslanir, þau þurfa að panta allt á netinu. En þeim fannst líka mjög áhugavert að skoða Fuggerei fátækraheimilin og gullna salinn í ráðhúsinu og gaman að fá sér pizzu á göngugötunni.

Antje Bommel sem er tengiliður vinabæjarsamstarfsins milli Kaufering og Ísafjarðar var helsta hvatamanneskja að þessum samskiptum og var hún reiðubúin að aðstoða og gefa góð ráð eftir þörfum. Hún er mikill Íslandsvinur, talar sjálf íslensku og hún reyndi að sinna kennurunum sérstaklega. Þeir höfðu einkum áhuga á Montessori-skólanum: Hvað er líkt og hvað er ólíkt?

Enda þótt enginn Montessori-skóli sé á Íslandi varð fljótlega ljóst að kennsluhættir eru býsna svipaðir. Heimsóknin var skemmtileg upplifun fyrir báða aðila, því lífshættir eru svo ólíkir og það var svo margt nýtt að sjá. Núna vita t.d. nemendurnir í Kaufering að mikið af íslensku sælgæti inniheldur lakkrís, á Íslandi eru næstum engir glæpir framdir og þar eru 13 jólasveinar sem heita mismunandi nöfnum.

Allan tímann spreyttu þýsku nemendurnir sig á að bera fram íslensk orð – sem er næstum ómögulegt - og var mikið hlegið. Auk þess eru þau líka orðin talsvert betri í ensku eftir þessa þjálfun!

Það var mikið stuð í kveðju-grillveislunni á skólalóðinni, spilað á píanó skólans og dansað á íslenska vísu en á föstudag var komið að heimferð. Nú hlakka allir til þegar þýsku krakkarnir endurgjalda heimsóknina en þau ætla til Ísafjarðar um páskana 2018.

„They are friends now!“ sagði íslenski kennarinn, Bryndís, svo fallega að lokum.