VALMYND ×

Fréttir

Frú Eliza Reid í heimsókn

Á vorverkadaginn í fyrradag fengum við góða heimsókn, þegar Eliza Reid forsetafrú heiðraði okkur með nærveru sinni. Hún ræddi við nemendur í 8. bekk um tvítyngi og mikilvægi þess að hlúa að móðurmáli sínu, en um þriðjungur nemenda í 8. bekk er af erlendum uppruna. Nokkrir nemendur lásu ljóð á spænsku, pólsku, bisaya og íslensku og voru krakkarnir duglegir að spyrja, einlægir og kurteisir.

Ævintýraferð til Suðureyrar

1 af 4

Fyrstu tvær vikurnar í maí  var  1. bekkur í þemavinnu um fiska.  Fyrst var unnið út frá bókinni Regnbogafiskurinn í Byrjendalæsi og síðan var tekinn fyrir fræðitexti um fiska og unnið á ýmsan hátt með hann. Krakkarnir lærðu að þekkja og nota ýmis orð sem tengjast fiskum t.d. tálkn, roð, hreistur, sundmagi, hrogn, hrygna, hængur og sporður.  Einnig lærðu þeir að þekkja nokkra algenga fiska t.d. ýsu, þorsk, rauðmaga, steinbít og lax.  Lokahnykkurinn á þessari þemavinnu var síðan heimsókn í Íslandssögu og Klofning á Suðureyri. Þar fékk árgangurinn frábærar móttökur. Fiskvinnslan var skoðuð og nemendur fengu að sjá hvernig fisknum er breytt í verðmæta útflutningsvöru. Allt er nýtt eins vel og hægt er, meira að segja fiskhausarnir og beinin. Krakkarnir sáu margt spennandi, allskonar vélar, tæki og tól. Hápunktur ferðarinnar hjá flestum var að prófa að setjast í  lyftarann og láta gaffalinn á honum fara upp og niður.   Nemendur fengu líka að sjá hvenig fiskur er þurrkaður í fyrirtækinu Klofningi. Mörgum fannst nú lyktin þar ekki góð en létu það ekki á sig fá. Að skoðunarferðinni lokinni var hópurinn síðan leystur út með gjöfum og fengu allir fisk með sér heim í soðið. Það fréttist að „besti“ fiskur í heimi hefði verið eldaður  þann 16. maí á heimilum 1. bekkinga.  Kæru vinir á Suðureyri takk fyrir okkur. /HA

Vorverkadagur

Nemendur gæddu sér á grilluðum pylsum að góðu dagsverki loknu
Nemendur gæddu sér á grilluðum pylsum að góðu dagsverki loknu
1 af 3

Í dag var vorverkadagur hér í skólanum, þar sem hverjum árgangi var úthlutað ákveðið verkefni í samstarfi við Ísafjarðarbæ, en þessa vikuna er einmitt græn vika. Sjá mátti nemendur víða um bæinn við að gróðursetja, hreinsa beð og stíga, raka og setja niður kartöflur svo fátt eitt sé nefnt. Veðrið lék við okkur og í lokin bauð mötuneytið öllum upp á grillaðar pylsur.

Stelpur og tækni

1 af 4

Háskólinn í Reykjavík hefur undanfarin ár staðið fyrir deginum Stelpur og tækni (Girls in ICT day). Þá býður skólinn öllum stúlkum úr 9. bekk á höfuðborgarsvæðinu til sín til þess að kynnast tækninámi og þeim starfsmöguleikum sem býðst í tæknigeiranum. Tekið er á móti stelpunum í HR þar sem þær fara í eina vinnustofu og fá að prufa spreyta sig á ýmsum tæknilegum úrlausnum. Að  því loknu fara þær í heimsókn í fyrirtæki þar sem þær hitta konur í tæknistörfum og eru þá fyrirtækin og tækifærin í þeim geira kynnt fyrir hópnum.

Í morgun bauð svo HR í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, stúlkum hér á svæðinu upp á vinnustofu fyrir hópinn og að því loknu var farið í heimsókn í 3X Skagann til að kynna sér starfsmöguleika í tæknigeiranum. Tuttugu stúlkur úr 9. bekk G.Í. nýttu sér tækifærið og hafa vonandi bæði haft gagn og gaman af.

Litla upplestrarkeppnin

Í gær fór Litla upplestrarkeppnin fram hér í skólanum. Nemendur 4. bekkjar taka þátt í keppninni en hún er undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem haldin er reglulega í 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur flytji íslenskt mál sjálfum sér og öðrum til ánægju og að þeir hafi vandvirkni og virðingu að leiðarljósi við flutninginn. Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa við sjálfan sig, að verða betri í dag enn í gær. Keppnin er í raun uppskeruhátíð eftir lestrarþjálfun vetrarins og var nemendum 3. bekkjar boðið á hátíðina ásamt foreldrum og öðrum velunnurum.

Krakkarnir í 4. bekk stóðu sig eins og hetjur og spreyttu sig á ýmsum bókmenntaverkum og var virkilega gaman á að hlýða. Auk þess lásu tveir nemendur úr 7. bekk ljóð og sögubrot og nokkrir nemendur 4. bekkjar léku á trommur og gítar á milli lestraratriða. 

Þakkardagur vinaliða

Vinaliðar 4. - 6. bekkjar vorið 2017
Vinaliðar 4. - 6. bekkjar vorið 2017

Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf frá áramótum. Að því loknu fara vinaliðarnir ásamt Árna Heiðari Ívarssyni, umsjónarmanni verkefnisins í bíó. Hópurinn er svo væntanlegur aftur í skólann um hádegisbilið.

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í þrjú ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að:

  • stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum skólanna
  • leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum
  • minnka togstreitu milli nemenda og
  • hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.
Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli verkefnisins en fjölmargir grunnskólar víðs vegar um landið taka nú þátt í verkefninu. Þess má geta að Árskóli fékk á dögunum gilda tilnefningu og þar með viðurkenningu Heimilis og skóla fyrir verkefnið.

Erlendir gestir í heimsókn

Hópurinn í Ósvör í dag
Hópurinn í Ósvör í dag

Í tvö ár hafa sex skólar víðsvegar að úr Evrópu starfað saman undir merkjum Erasmus+ sem er menntaáætlun Evrópusambandsins.  Þessir skólar eru frá Íslandi, Þýskalandi, Portúgal, Kýpur, Króatíu og Lettlandi.  Verkefnið sem hópurinn vinnur að snýst um að skoða frammistöðu minnihlutahópa í sínum skóla, hvort munur sé á námsframvindu þeirra og ef svo er hvað er hægt að gera til að leiðrétta það.

Núna í maí er síðasti fundur verkefnisins haldinn hér á Ísafirði, þar sem Grunnskólinn á Ísafirði er þátttakandi í þessu verkefni. Auk 4 kennara hér við skólann taka 12 kennarar frá hinum löndunum þátt í verkefninu og eru nú komnir hingað í heimsókn. Samhliða því að setja saman lokaskýrsluna kynnum við skólann, Ísafjarðarbæ og landið fyrir hópnum. Þriðjudaginn 16. maí var heimsókn í Stjórnsýsluhúsið þar sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari og Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs tók á móti hópnum. Í dag var ferðinni heitið til Bolungarvíkur þar sem Ósvör var m.a. heimsótt og á morgun verður bæjarrölt um Ísafjörð á dagskránni undir leiðsögn. Erlendi hópurinn heldur svo heim á leið á föstudag.

Bókasöfnun

Foreldrafélag G.Í. hefur á undanförnum árum staðið fyrir bókasöfnun  í tengslum við Dag bókarinnar, 23. apríl til að styrkja bókasafn skólans​ og þeirri hefð var viðhaldið á þessu vori. Penninn/Eymundsson hefur tekið þátt í átakinu með því að veita 20% afslátt af þeim barnabókum sem keyptar hafa verið í þessum tilgangi. Gott skólabókasafn er mjög mikilvægur þáttur í því að viðhalda og efla lestraráhuga barna enda sýna kannanir að flest börn á skólaaldri fá nánast allar bækur sem þau lesa, einmitt þar. Söfnunin skilaði að þessu sinni nokkrum nýjum bókum á safnið og við þökkum kærlega fyrir þær.

Heimsókn í Skagann 3X

Fimmtudaginn 11. maí var nemendum 10. bekkjar boðið í heimsókn í fyrirtækið Skaginn 3X á Ísafirði. Karl Kristján Ásgeirsson rekstrarstjóri tók á móti hópnum og byrjaði á því að segja svolítið frá sögu fyrirtækisins og starfsemi þess.  Síðan leiddi hann hópinn um allar deildir, allt frá skrifstofunni þar sem m.a. hönnunarvinnan fer fram í tölvum og gegnum salina þar sem vélarnar eru smíðaðar, stálið skorið, sveigt og beygt skv. teikningunum og svo var endað á klefanum þar sem hinir ýmsu hlutir eru sprautaðir með glersalla til að gefa þeim rétta áferð. Krakkarnir þurftu margs að spyrja og voru mjög áhugasamir um starfsemina á þessum stóra vinnustað. Þeir voru að lokum leystir út með veitingum og gjöfum.

Það er mikilsvert fyrir ungt fólk að fá að heimsækja svo glæsilegt fyrirtæki á heimaslóðum og við þökkum kærlega fyrir okkur.​ /HMH

Vordagskráin

Nú er vordagskráin frágengin og ljóst að nóg verður um að vera það sem eftir lifir skólaársins. Ekki má vanmeta það nám sem á sér stað utan skólastofunnar, þar sem nemendur fá enn frekari þjálfun í mörgum grunnþáttum menntunar eins og t.d. læsi, sköpun, heilbrigði og velferð. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Við vonum því að nemendur njóti þess náms sem á sér stað í hinum ýmsu viðburðum sem boðið er upp á nú í mánuðinum, innan dyra sem utan.