Samræmdu prófi í ensku frestað
Í morgun gat enginn nemandi í 9. bekk hér við skólann skráð sig inn á samræmt könnunarpróf í ensku, þar sem einhver bilun kom upp í prófakerfi Menntamálastofnunar. Þetta vandamál var víða um land, en svo virðist sem einhverjum hafi þó tekist að klára próf.
Í gær gekk stærðfræðiprófið eins og í sögu, en fresta þurfti íslenskuprófinu sem leggja átti fyrir í fyrradag, vegna sömu tæknilegu vandamála og voru í morgun.
Á fundi forstjóra Menntamálastofnunar með mennta- og menningarmálaráðherra í fyrradag var ákveðið að ráðuneytið myndi boða fulltrúa skólastjóra, kennara, nemenda, foreldra og sveitarfélaga til fundar þar sem farið verður yfir stöðuna. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort íslensku- og enskupróf verða lögð fyrir að nýju fyrir þá nemendur sem ekki náðu að ljúka þeim eða prófin felld niður.
Við þökkum nemendum 9. bekkjar einstaka biðlund og þolinmæði. Þeim verður nú boðið upp á notalega samverustund með léttum veitingum.
Deila