VALMYND ×

Nýir nemendur frá Sýrlandi og Írak

Fljótlega munu nemendur og starfsfólk G.Í. taka á móti nýjum nemendum frá Sýrlandi og Írak sem komu til Ísafjarðar og Flateyrar í byrjun mars mánaðar. Þess vegna viljum við koma til ykkar örstuttum upplýsingum og hvetja til jákvæðrar umræðu heima um nauðsyn þess að hjálpa hvert öðru á þessum sameiginlega hnetti okkar.

Heimahagar

Fjölskyldurnar komu upprunalega frá Daraa í Sýrlandi, frá þeim stað sem stríðið þar í landi hófst og Basra í Suður Írak. Báðar fjölskyldur neyddust til að flýja heimkynni sín til Amman í Jórdaníu þar sem þær dvöldu í nokkur ár. Eins og flestir vita hefur styrjöld geysað í Sýrlandi í sjö ár og í Írak í 15 ár eða allt frá innrás Bandaríkjanna árið 2003. Milljónir manna hafa verið í þessum sömu sporum og fjölskyldurnar okkar, og fjölmargir eru það enn.

Fyrstu vikurnar á Ísafirði/Flateyri

Fyrstu vikurnar var í mörg horn að líta. Það þurfti að sækja um dvalarleyfi og hver einstaklingur þurfti að fara í læknisskoðun. Nú hefur íslenskukennsla hafist og samfélagsfræðsla fyrir allan hópinn.

Nemendahópurinn

Í hópnum eru fjórir nemendur á grunnskólaaldri sem hefja nám hér í skólanum fljótlega. Þrjú eru systkini frá Sýrlandi, tvö þeirra fara í 10. bekk og litli bróðir í 6. bekk. Stelpan heitir Ayaa og bræður hennar Abdulla og Abdulrahman. Ein stelpa sem heitir Qamar kemur frá Írak og fer í 10. bekk. Börnin eru spennt að byrja í skólanum og afar jákvæð og áhugasöm. Nú leggja þau sig fram við að læra íslensku áður en þau hefja hefðbundna skólagöngu og munu fá sérstaka aðstoð við það áfram í skólunum sínum.

Kjarni okkar allra er sá sami, þó ólíkt umhverfi, menning og saga móti okkur með ólíku móti.

Við bjóðum nýja nemendur velkomna í skólann og mætum þeim jákvæð og glöð.

 

Deila