VALMYND ×

Vinabæjarheimsókn frá Kaufering

1 af 4

Undanfarna daga hafa nemendur frá Kaufering í Þýskalandi verið hér í heimsókn. Fyrsta daginn  heimsóttu þeir Suðureyri ásamt jafnöldrum sínum frá Ísafirði. Þar var farið í grunnskólann, Ísalandssögu og sund.  Síðan var farið að Bæ í Staðardal og var mikið líf og fjör í fjárhúsunum þar og höfðu margir úr hópnum aldrei komið svona nálægt kindum. Um kvöldið bauð 10.bekkur GÍ upp á menningarkvöld með skemmtiatriðum sem endaði á því að allir marseruðu saman.

Eftir heimsókn í GÍ á föstudeginum var farið í Bolungarvík og Náttúrugripasafnið og Ósvör skoðuð. Í Ósvör var boðið upp á hákarl og kom á óvart hversu margir smökkuðu og jafnvel fengu sér aftur.  Um kvöldið var svo farið í félagsmiðstöðina Djúpið.

Á laugardag var boðið upp á göngu með leiðsögn um Eyrina og skíðaferð inn í Tungudal. Það skemmtu sér allir vel á skíðum eða voru með sleða til að renna sér á.

Síðasti dagurinn var frjáls þar sem gestgjafarnir sáu um gestina og var ýmislegt í boði. Um kvöldið var síðan grillað í skíðaskálanum.

Þýsku nemendunum fannst þessir dagar vera mjög skemmtilegir og fljótir að líða. Þeir töluðu um að náttúran væri það sem stæði upp úr og það er gaman að því að Steingrímsfjarðarheiðin hefur eignast marga aðdáendur því þeim fannst hún alveg mögnuð.

Svona vinabæjarheimsóknir skilja eftir sig góðar minningar og þó tíminn hafi verið stuttur þá hafa myndast vinatengsl sem geta varað lengi.

Deila