Í kvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 144. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þau Jóhanna Barðadóttir og Stefán Freyr Jónsson.
Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti ávarp og þau Júlíana Lind Jóhannsdóttir og Sveinbjörn Orri Heimisson fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarnema.
Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk:
8. bekkur - Anna Marý Jónasdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.
9. bekkur - Halla María Ólafsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.
Í vetur luku 4 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar. Þetta er sjötta árið sem skólinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein, undir stjórn Guðbjörns Páls Sölvasonar, en margra ára hefð er fyrir henni við Grunnskólann á Ísafirði. Nemendur sem luku prófi eru þeir Daði Rafn Ómarsson, Gylfi Hallvarðsson, Hilmar Tryggvi Kristjánsson og Sveinbjörn Orri Heimisson.
Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:
Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:
Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Guðlaug Rós Jóhannsdóttir.
Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Jelena Rós Valsdóttir.
Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í heimilisfræði hlaut Sædís Mjöll Steinþórsdóttir.
Crossfit Ísafjörður gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Sigurður Bjarni Kristinsson og Sædís Mjöll Steinþórsdóttir.
Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir og hlaut Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir hana.
Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Jelena Rós Valsdóttir þau verðlaun.
Tungumálaver Reykjavíkurborgar veitti viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í pólsku. Þá viðurkenningu hlaut Robert Michal Palkowski.
Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:
Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði hlaut Jelena Rós Valsdóttir.
Viðurkenningu fyrir leiðtogahæfni og góða færni í leiklist bæði á æfingum og sýningum hlaut Signý Stefánsdóttir.
Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlaut Helena Haraldsdóttir.
Sérstaka viðurkenningu fyrir störf í þágu skólans hlutu þeir Daði Rafn Ómarsson og Sveinbjörn Orri Heimisson. Þeir félagar hafa verið framúrskarandi í störfum sínum í tækniráði skólans auk þess sem þeir hafa aðstoðað við íþróttahátíðir og sundkennslu í 1. bekk.
Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gaf gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi. Þá viðurkenningu hlutu þær Guðlaug Rós Jóhannsdóttir og Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir.
Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2003 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.