Haustfrí
Framundan er haustfrí á n.k. föstudag og mánudag. Við vonum að allir njóti vel og komi endurnærðir til baka á þriðjudaginn.
Framundan er haustfrí á n.k. föstudag og mánudag. Við vonum að allir njóti vel og komi endurnærðir til baka á þriðjudaginn.
Bleiki dagurinn hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár í bleikum október. Þennan dag eru landsmenn hvattir til að bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu.
Við hvetjum því alla starfsmenn og nemendur til að mæta í einhverju bleiku föstudaginn 11. október.
Hin árlega íþróttahátíð í Bolungarvík verður haldin fimmtudaginn 10. október. Hátíðin verður sett kl. 10:00 og lýkur svo með balli frá kl. 20:00 - 22:30. Ef allt gengur að óskum verður keppni lokið um kl.18:45 og hægt að nota tímann fram að balli til að borða.
Allir skólar fá afnot af kennslustofu sem verður læst þar sem hægt er að geyma dót og verðmæti. Þeir nemendur sem eru í mataráskrift fá afhentar samlokur við litla anddyri skólans (nær íþróttahúsinu) milli 12:00 og 13.00. Sjoppa verður á staðnum þar sem hægt verður að kaupa samlokur, drykki og annað ásamt aðgöngumiðum á ballið, en miðaverð er kr. 1.000.
Rúta fer frá Holtahverfi kl. 9:30 og fer strætóleið út í bæ og tekur upp nemendur á sínum stoppistöðvum. Önnur rúta fer frá skólanum kl. 9:30, tekur upp nemendur í króknum og á strætóstoppistöð í Hnífsdal. Rúta fer frá Bolungarvík kl. 19:00 og að loknu balli kl. 22:40. Kennarar/starfsmenn frá skólanum verða á svæðinu allan tímann.
Föstudaginn 11. október fá nemendur á unglingastigi frjálsa mætingu í fyrstu kennslustund.
Við treystum því að allir mæti með bæði góða skapið og njóti dagsins.
Nemendur 10. bekkjar í Grunnskólanum á Ísafirði og Grunnskólanum á Suðureyri taka þátt í verkefni á vegum Evrópusambandsins, Erasmus+. Verkefnið tekur tvö skólaár og er tengt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Nemendur frá Búlgaríu, Grikklandi, Hollandi og Svíþjóð taka einnig þátt í verkefninu. Hluti hópsins er nú staddur í Delft í Hollandi, þar sem nemendur koma saman við leik og störf og ráða ráðum sínum þessa vikuna.
Síðastliðinn föstudag kynntu nemendur í 10. bekk þann hluta verkefnisins sem þeir unnu fyrir Hollandsferðina, fyrir nemendum í 8. og 9. bekk.
5 nemendur úr G.Í. fóru til Delft í Hollandi s.l. laugardag, en það eru þau Arnar Rafnsson, Halla María Ólafsdóttir, Kári Eydal, Oliwia Godlewska og Stefán Freyr Jónsson. Fararstjóri er Guðbjörg Halla Magnadóttir deildarstjóri og umsjónarkennari í 10.bekk. Í gær flutti hópurinn kynningu á sjálfum sér, skólanum og bænum. Í morgun sögðu þeir svo frá vinnu árgangsins með greinar 6-16 í mannréttindasáttmálanum, þannig að það er nóg að gera hjá hópnum og gengur allt að óskum.
Ívar íþróttafélag fatlaðra, hélt Íslandsmótið í Boccia um síðustu helgi hér á Ísafirði. Nemendur í 8. og 9. bekk G.Í. tóku að sér dómgæslu og aðstoðuðu við mótið, en Boccia hefur verið valgrein hjá þeim í vetur og var mótið hluti af því námi.
Mótsstjórn sendi nemendum þakklætiskveðjur og sögðu þá hafa sýnt framúrskarandi viðmót og staðið sig frábærlega.
Nemendaráð er kosið árlega af nemendum í 8.-10. bekk, en það vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Í síðustu viku fór fram kosning og voru þessir nemendir valdir:
8.bekkur
Berglind Sara Friðbjörnsdóttir
Kristján Eðvald Ragnarsson
Sveinfríður Sigrún Stefánsdóttir
Tómas Elí Vilhelmsson
9.bekkur
Agnes Þóra Snorradóttir
Brynja Dís Höskuldsdóttir
Hörður Christian Newman
Jón Haukur Vignisson
10.bekkur
Halla María Ólafsdóttir
Lilja Borg Jóhannsdóttir
Stefán Freyr Jónsson
Við óskum þessum nemendum til hamingju og hlökkum til að starfa með þeim í vetur.
Í morgun lauk samræmdu könnunarprófi í stærðfræði hjá 4. bekk, en íslenskuprófið var í gær. Fyrirlögnin gekk eins og best verður á kosið og er sömu sögu að segja af 7. bekk, sem þreytti prófin í síðustu viku.
Nemendur stóðu sig vel í þessum prófum og erum við viss um að allir hafi gert sitt besta. Við munum svo eiga von á niðurstöðum í lok október.
Á miðvikudaginn í næstu viku verða foreldraviðtöl hjá okkur, þar sem foreldrar mæta í viðtöl til umsjónarkennara ásamt börnum sínum. Foreldrar velja sér tíma í gegnum Mentor og verður opnað fyrir skráningar kl. 8:00 í fyrramálið.
Í kvöld mun Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Rannsóknum og greiningu koma til okkar og kynna fyrir foreldrum niðurstöður á rannsóknum á högum ungmenna hér fyrir vestan. Ungt fólk rannsóknarröðin nær yfir öll börn og ungmenni á Íslandi í 5.-10. bekkjum grunnskóla og eru um 4000 þátttakendur á ári hverju. Í könnuninni eru lagðar fyrir spurningar um fjölskylduaðstæður, stuðning foreldra og jafningja, skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, neyslu vímuefna, árangur í námi, félagslegar aðstæður og fleira.Það er mjög áhugavert fyrir alla foreldra að mæta á kynninguna, því oft skapast mjög góðar umræður meðal foreldra um þessi mál. Það eru t.d. blikur á lofti varðandi aukna vímuefnaneyslu unglinga og þurfum við að taka höndum saman áður en hún verður meiri. Kynningin verður í sal GÍ í kvöld kl. 20:00.
Í vetur ætlum við að fara af stað með svokallaðan gangapassa til að vekja nemendur til umhugsunar um umgengni. Handhafi passans fer með umsjónarbekkinn sinn a.m.k. tvisvar í þeirri viku um skólann að raða skóm í hillur, tína upp rusl af gólfi, hengja upp úlpur og slíkt.
6.AY hóf yfirferð sína um skólann í dag og var virkilega gaman að sjá ganga skólans eftir þeirra góðu störf, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.