VALMYND ×

Fréttir

Breyttar útivistarreglur

Við minnum á breyttar útivistarreglur frá og með 1. september. 12 ára börn og yngri mega lengst vera úti til kl. 20 nema í fylgd með fullorðnum og 13-16 ára börn mega lengst vera úti til kl. 22 með þeirri undantekningu að þau séu á heimleið frá viðurkenndri skóla-, æskulýðs- eða íþróttasamkomu. Foreldrum er heimilt að stytta þennan tíma en ekki lengja og vonum við að allir taki höndum saman um að virða þessar reglur.

7.bekkur á heimleið

Mynd frá Reykjum
Mynd frá Reykjum

Nú er 7. bekkur á heimleið frá Reykjum í Hrútafirði og er áætluð heimkoma á milli kl. 17:00 og 17:30.

Sú hefð að 7. bekkur fari í skólabúðirnar er orðin alllöng og hefur gefist afar vel. Nemendur dvelja frá mánudegi til föstudags í búðunum ásamt nokkrum af starfsmönnum skólans. Starfið beinist að sömu markmiðum og í grunnskólum og auk þess er lögð sérstök áhersla á að auka samstöðu, efla samvinnu og félagslega aðlögun og fleira. Það er þroskandi að takast á við nýjar áskoranir og margir hafa t.d. aldrei sofið annarsstaðar en heima hjá sér, svo að dæmi sé tekið.

Það er sérstaklega ánægjulegt að Ísafjarðarbær hefur boðið öllum sínum nemendum endurgjaldslaust í skólabúðirnar allt frá árinu 2014, en innkoma af árshátíð nemenda G.Í. hefur dekkað ferðakostnað, þannig að enginn kostnaður fellur á heimilin. Það er reynsla okkar að allir koma ríkari heim eftir dvöl að Reykjum og minningarnar varðveitast um ókomin ár.

 

Fjallgöngur

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur eða gönguferðir. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana skunda nemendur upp um fjöll og firnindi og fór 3. bekkur hjólandi inn í Dagverðardal í morgun og gekk þaðan á Hnífa. Hópurinn naut veðurblíðunnar og útsýnisins eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og komu margir berjabláir af fjalli eftir góðan göngutúr. Fjallgöngurnar eru einnig mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda um leið og þeir fræðast um nærumhverfi sitt og náttúruna.  

Skólabyrjun

Í morgun var skólasetning í sal skólans hjá 2. - 10. bekk, þar sem Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, tók á móti nemendum og fjölmörgum aðstandendum þeirra. Nemendur 1. bekkjar voru boðnir sérstaklega í viðtöl til sinna umsjónarkennara. Við skólasetninguna fór Olga m.a. yfir stöðu húsnæðismála, en eins og allir vita þá greindist mygla í gráa skólanum/gagnfræðaskólanum í mars síðastliðnum og hafa endurbætur staðið yfir í allt sumar. Á miðvikudaginn í næstu viku mun efri hæðin verða klár, en gert er ráð fyrir að neðri hæðin klárist um mánaðamótin september - október.

Það verður mikill munur fyrir skólastarfið að fá efri hæðina afhenta á ný, en þrengslin síðustu mánuði hafa tekið á alla, bæði starfsfólk og nemendur og alveg einstakt hvað allir hafa sýnt mikið umburðarlyndi við þessar erfiðar aðstæður. En nú horfir þetta allt til betri vegar og munu u.þ.b. 130 nemendur fá nýuppgerðar kennslustofur í næstu viku.

7. bekkur er á leið í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði á mánudagsmorgun og mun dvelja þar fram á föstudag. Mæting hjá þeim er kl. 7:45 á mánudaginn og hafa umsjónarkennarar sent allar frekari upplýsingar til foreldra.

Að öðru leyti eru fyrstu skóladagarnir hefðbundnir og hlökkum við til komandi skólaárs með nýjum áskorunum.

 

Skólasetning

Skólasetning G.Í. verður fimmtudaginn 22. ágúst 2019 í sal skólans og mæta nemendur sem hér segir:

Kl. 9:00      8., 9. og 10. bekkur

Kl. 10:00     5., 6. og 7.bekkur

Kl. 11:00     2., 3. og 4. bekkur

Nemendur í 1. bekk verða boðaðir sérstaklega í viðtöl til umsjónarkennara með foreldrum, en allir foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir á skólasetningu.

Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá föstudaginn 23. ágúst.

Minningarorð

Í dag kveðjum við Monicu Mackintosh sem kenndi við Grunnskólann á Ísafirði í rúm 30 ár allt þar til hún lét af störfum vegna veikinda sinna fyrir rúmu ári.  Monica var einstakur samstarfsmaður, traust og heil í öllum samskiptum. Henni var umhugað um samstarfsfólkið sitt og margir sem leituðu til hennar.  Hún náði öllum með sér og var hrókur alls fagnaðar í félagsstarfi starfsmanna.  Monica var líka einstakur kennari. Hún  bar hag nemenda sinna fyrir brjósti, var metnaðarfull fyrir þeirra hönd og vildi þeim allt hið besta.  Það var mjög gott að koma inn í kennslustundir hjá henni því þar var alltaf notalegt andrúmsloft og auðséð að gagnkvæm virðing, traust og gleði ríkti. Hún var fljót að tileinka sér allar nýjungar í skólastarfinu, hvort sem um var að ræða kennsluaðferðir eða tæknimál. Monica var mjög skipulögð og fátt virtist koma henni úr jafnvægi og tók hún á erfiðum  málum með yfirvegun og jafnaðargeði. Monica skilur eftir sig stórt skarð í starfsmannahópi skólans sem og hjá  nemendum og foreldrum því í svona litlu samfélagi er nálægðin mikil og margir sem notið hafa leiðsagnar hennar í gegnum árin.

Það er með virðingu og þökk sem við kveðjum Monicu í dag og flytjum við fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúðarkveðjur.

F.h. Grunnskólans á Ísafirði

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri

Helga S. Snorradóttir, aðstoðarskólastjóri

Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn

1 af 2

Ísafjarðarbær hefur sett fram sameiginleg viðbrögð fyrir alla skóla sveitarfélagsins, varðandi ófullnægjandi skólasókn nemenda (sbr. meðfylgjandi myndir).  Í þessum sameiginlegu viðbrögðum eru engar breytingar í GÍ varðandi fjarvistir nemenda en það sem er nýtt er að nú eru komin viðbrögð við leyfum og veikindum.  Betur verður farið yfir þetta á haustfundum í skólabyrjun og er birt hér til kynningar.

Óskilamunir

1 af 2

Safnast hefur upp mikið magn af óskilamunum hér í skólanum. Við hvetjum nemendur og forráðamenn til að kíkja við hjá okkur í anddyrið Sundhallarmegin, á milli kl. 8:00 og 16:00 fyrir lok næstu viku.

Skólaslit

Í kvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 144. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þau Jóhanna Barðadóttir og Stefán Freyr Jónsson.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti ávarp og þau Júlíana Lind Jóhannsdóttir og Sveinbjörn Orri Heimisson fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Anna Marý Jónasdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Halla María Ólafsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Í vetur luku 4 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar. Þetta er sjötta árið sem skólinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein, undir stjórn Guðbjörns Páls Sölvasonar, en margra ára hefð er fyrir henni við Grunnskólann á Ísafirði.  Nemendur sem luku prófi eru þeir Daði Rafn Ómarsson, Gylfi Hallvarðsson, Hilmar Tryggvi Kristjánsson og Sveinbjörn Orri Heimisson.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Guðlaug Rós Jóhannsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Jelena Rós Valsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í heimilisfræði hlaut Sædís Mjöll Steinþórsdóttir.

 

Crossfit Ísafjörður gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Sigurður Bjarni Kristinsson og Sædís Mjöll Steinþórsdóttir.

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir og hlaut Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir hana.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Jelena Rós Valsdóttir þau verðlaun.

Tungumálaver Reykjavíkurborgar veitti viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í pólsku. Þá viðurkenningu hlaut Robert Michal Palkowski.

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði hlaut Jelena Rós Valsdóttir.

Viðurkenningu fyrir leiðtogahæfni og góða færni í leiklist bæði á æfingum og sýningum hlaut Signý Stefánsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlaut Helena Haraldsdóttir.

Sérstaka viðurkenningu fyrir störf í þágu skólans hlutu þeir Daði Rafn Ómarsson og Sveinbjörn Orri Heimisson. Þeir félagar hafa verið framúrskarandi í störfum sínum í tækniráði skólans auk þess sem þeir hafa aðstoðað við íþróttahátíðir og sundkennslu í 1. bekk.

Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gaf gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk  fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi.  Þá viðurkenningu hlutu þær Guðlaug Rós Jóhannsdóttir og Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2003 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Verðlaun í Hreyfiviku UMFÍ

6.bekkur ásamt Sigríði Láru Gunnlaugsdóttur, Ríkharði B. Snorrasyni og Guðnýju S. Stefánsdóttur
6.bekkur ásamt Sigríði Láru Gunnlaugsdóttur, Ríkharði B. Snorrasyni og Guðnýju S. Stefánsdóttur

Í morgun kom Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri HSV, færandi hendi í 6. bekk. Þar afhenti hún bekknum verðlaun fyrir þátttöku í Hreyfiviku UMFÍ, en skólinn fékk flesta með sér til virkni í því verkefni. Verðlaunin voru kr. 100.000 og tók 6. bekkur við þeim, þar sem sá árgangur var í fararbroddi í verkefninu undir styrkri stjórn Guðnýjar S. Stefánsdóttur og Ríkharðs B. Snorrasonar, umsjónarkennara árgangsins.

Krakkarnir hafa nokkrar hugmyndir að nýtingu þessara peninga, en að sjálfsögðu verður þeim varið til kaupa á einhverju sem hvetur til hreyfingar og heilbrigðis.