VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn frá Kaufering

Hópurinn ásamt nokkrum nemendum G.Í. og starfsmanni sjóminjasafnsins Ósvarar
Hópurinn ásamt nokkrum nemendum G.Í. og starfsmanni sjóminjasafnsins Ósvarar

Í síðustu viku komu átta nemendur (allt stelpur) frá Kaufering, vinabæ Ísafjarðarbæjar í heimsókn til okkar ásamt tveimur kennurum. Þau komu akandi frá Reykjavík og voru himinsæl með ferðina þar sem þau sáu bæði hvali og seli á leiðinni.

Auk heimsóknar í G.Í. fóru þau til Bolungarvíkur og í skólaheimsókn til Suðureyrar og Þingeyrar. Einnig heimsóttu þau sveitabæ, skoðuðu hesta, fóru í siglingu, skoðuðu söfn og fóru í víkingaskálann á Þingeyri þar sem allir sem vildu gátu klætt sig upp í víkingaklæði. Hópurinn bakaði brauð við opinn eld að víkingasið og var það mikil upplifun.

Tíminn var fljótur að líða við leik og störf og það var ánægður hópur sem við kvöddum á föstudagsmorgun og voru allir sammála um að þessi ferð myndi seint líða þeim úr minni.

Hlutverk foreldra í forvörnum

Náum áttum - Samstarfshópur um fræðslu- og forvarnarmál, býður til fundar miðvikudaginn 15. maí n.k. kl. 8:15-10:00 á Grand hóteli í Reykjavík. Fundurinn fjallar um hlutverk foreldra í forvörnum og er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Allar frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu hópsins; www.naumattum.is og einnig verða upptökur frá fundinum aðgengilegar þar að honum loknum.

Úrslitakeppni í Skólahreysti

Lið G.Í. - Á myndina vantar Stefán Frey Jónsson, sem keppir í forföllum Magnúsar Arnar Guðnasonar.
Lið G.Í. - Á myndina vantar Stefán Frey Jónsson, sem keppir í forföllum Magnúsar Arnar Guðnasonar.

Í kvöld keppir G.Í. í úrslitum í Skólahreysti í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Húsið opnar kl. 19:00 og hefst keppnin sjálf kl. 20:00. Við skorum á áhugasama að mæta og hvetja okkar fólk, en einnig verður keppnin sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Fyrir hönd G.Í. keppa þau Stefán Freyr Jónsson, Kári Eydal, Bríet Sigurðardóttir, Hrefna Dís Pálsdóttir, Solveig Amalía Atladóttir og Helgi Ingimar Þórðarson. Þjálfari og fararstjóri er Atli Freyr Rúnarsson. Við óskum krökkunum góðs gengis og fylgjumst spennt með.

Þjóðleikur

1 af 2

Lokahátíðin Þjóðleikur NorðVestur var haldin hátíðleg í Félagsheimilinu á Hólmavík 30. apríl og 1.maí  að frumkvæði Leikfélags Hólmavíkur. Þar komu saman leikhópar frá Strandabyggð, Kaldrananeshreppi, Borgarnesi, Ísafirði, Snæfellsbæ og raunar Snæfellsnesi öllu. Sett voru upp leikverkin Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman, Eftir lífið eftir Sigtrygg Magnason og Tjaldið eftir Hallgrím Helgason.

Leiklistarval G.Í. tók þátt í verkefninu og sýndi verkið Tjaldið eftir Hallgrím Helgason, í leikstjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur og Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur og stóð hópurinn sig mjög vel innan sviðs sem utan.

Margt var til skemmtunar fyrir utan leiksýningar, svo sem skrúðganga leidd af nýjum slökkviliðsbíl
bæjarins, kvöldvaka, sundlaugarpartý og móttaka á vegum Þjóðleikhússins svo fátt eitt sé nefnt.
Verkefnisstjóri Þjóðleiks af hálfu Þjóðleikhússins er Björn Ingi Hilmarsson og verkefnastýra Þjóðleiks
NorðVestur Esther Ösp Valdimarsdóttir.

 

Ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ

Ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ ásamt ráðherrum. Ísfirðingurinn Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir fimmta frá vinstri.
Ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ ásamt ráðherrum. Ísfirðingurinn Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir fimmta frá vinstri.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á vef Stjórnarráðsins, stjornarradid.is/umsokn. Óskað er eftir umsóknum frá ungmennum á aldrinum 13 til 18 ára frá öllum landshlutum. Valdir verða tólf fulltrúar í ráðið sem munu fræðast og fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna ásamt því að funda árlega með ríkisstjórn. Umsóknarfrestur er til og með 13. maí næstkomandi.

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna tók til starfa í apríl 2018. Ráðið fundar sex sinnum á ári en þar að auki hefur starfandi ungmennaráð tekið þátt í fjölmörgum viðburðum á síðastliðnu ári. Má þar meðal annars nefna þátttöku í Hringborði Norðurslóða í Hörpu, heimsþingi kvenleiðtoga, friðarráðstefnu Höfða friðarseturs og hátíðarhöldum í tengslum við fullveldisafmæli Íslands þann 1. desember síðastliðinn.

Stofnun ungmennaráðsins er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, meðal annars um aukin áhrif barna í samfélaginu. Eitt af meginstefum heimsmarkmiðanna er jafnframt samvinna hagsmunaaðila. Með stofnun ungmennaráðs um heimsmarkmiðin er leitast við að gefa ungmennum vettvang til að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.

Umsóknarform fyrir ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Nánari upplýsingar um heimsmarkmiðin má finna á heimsmarkmidin.is

Valið til úrslita í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna stendur nú yfir í 5. - 7. bekk og hefur dómnefnd valið 25 hugmyndir af öllu landinu í úrslit. Við erum mjög stolt af því að eitt verkefni frá G.Í. komst áfram, en það er hugmynd þeirra Birtu Kristínar Ingadóttur og Tönju Kristínar Ragnarsdóttur að upphárri ristavél. ,,Ristavélin er með langa og háa fætur sem hægt er að setja disk undir. Það er lúga undir ristavélinni svo brauðið detti niður á diskinn" eins og segir í lýsingu.

Næsta skref er að vinna nánar að útfærslu þessara 25 hugmynda og verður það gert dagana 21. og 22. maí n.k. í Háskólanum í Reykjavík. Þar fá nemendur aðstoð fagmanna við þróunina og verður virkilega gaman að fylgjast með framvindunni. Við óskum þeim Birtu Kristínu og Tönju Kristínu innilega til hamingju, ásamt Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur, sem hefur kennt nýsköpunina sem valgrein á miðstigi. Allar nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu keppninnar, www.nkg.is 

Kynningarglærur vegna myglu

Þann 25. mars s.l. var haldinn kynningarfundur fyrir starfsfólk og foreldra um niðurstöður úr sýnatöku úr stofum í austurálmu Grunnskólans á Ísafirði. Eins og kynnt hefur verið þá innihéldu sýni af báðum hæðum álmunnar myglu og ljóst að fara þarf í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæðinu. Á fundinum fór Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í þessum málefnum hjá verkfræðistofunni Eflu, yfir málið með starfsfólki og foreldrum.

Glærur frá kynningunni er hægt að nálgast hér.

 

 

Páskaleyfi

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páskaleyfi og hefst kennsla aftur þriðjudaginn 23. apríl. Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar páskahátíðar.

Lesið til að njóta

Nemendur í 5. - 7. bekk eru nú í lestrarátaki þar sem þeir ætla að fylla heila hillu af lesnum bókum. Útbúin hefur verið ,,hilla" á einn vegg skólans, þar sem nemendur setja miða með nafni sínu, bókarheiti og gefa bókinni einkunn. Nú verður spennandi að sjá hversu langan tíma tekur að fylla bókahilluna.

Vel heppnaður skíða- og útivistardagur

Göngutúr í Tungudal
Göngutúr í Tungudal
1 af 5

Veðrið lék aldeilis við okkur í gær þegar haldinn var skíða- og útivistardagur í Tungudal hjá 5. - 10. bekk. Nemendur brunuðu niður brekkurnar á skíðum, brettum, þotum, sleðum eða þoturössum. Einnig fóru nemendur í góða göngutúra, enda umhverfið einstaklega fallegt á svona góðviðrisdegi. 

Við erum svo sannarlega heppin að búa hér í þessari náttúruparadís þar sem útivistarsvæðið er nánast í bakgarðinum og hægt að stökkva til með skömmum fyrirvara.