VALMYND ×

Fréttir

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun fór fram skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar, þar sem valdir voru fulltrúar skólans til að taka þátt í lokahátíðinni sem fram fer miðvikudaginn 4.mars n.k. í Hömrum.

Fimmtán nemendur sem valdir höfðu verið úr 7. bekk lásu sögubrot og ljóð og farið var yfir Reykjaferðina s.l. haust í máli og myndum á meðan dómarar réðu ráðum sínum.

Dómarar voru þau Edda Kristmundsdóttir, Herdís Hübner og Jón Heimir Hreinsson. Niðurstöður þeirra voru þær að þau Anna María Ragnarsdóttir, Dagný Rut Davíðsdóttir, Guðríður Vala Atladóttir, Hjálmar Helgi Jakobsson, Kolbrún María Ármannsdóttir, Patrekur Bjarni Snorrason og Sigurður Oddur Steinþórsson munu keppa fyrir hönd skólans á lokahátíðinni og til vara verða þær Anna Salína Hilmarsdóttir og Svala Katrín Birkisdóttir.

Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin leggur áherslu á markvissa rækt við móðurmálið og fá alla nemendur til að þjálfa upplestur, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Þessi þjálfun hefur farið fram í bekknum allt frá því í nóvember s.l. þar sem allir nemendur tóku þátt, auk þess sem nemendur hafa æft sig heima.

Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góða frammistöðu og hlökkum til lokahátíðarinnar.

Maskadagur

Mánudaginn 24. febrúar n.k. er maskadagur/bolludagur. Þá er hefð fyrir því að nemendur og starfsfólk mæti í búningum og er alltaf gaman að hitta hinar ýmsu persónur og fyrirbæri hér á göngunum.

Grímuballið verður á sínum stað og er skipulagið eftirfarandi:

1. - 3. bekkur kl. 8:20 - 9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:00 - 10:40

6. - 7. bekkur kl. 13:10 - 13:40.

 

Þeir unglingar sem mæta í búningum eru velkomnir á grímuböll hjá vinabekkjum sínum og að sjálfsögðu er heimilt að koma með bollur af ýmsu tagi í nesti. 

Á þriðjudaginn/sprengidag er svo starfsdagur og engin kennsla.

Rúta frá Torfnesi í dag

Þar sem heldur virðist vera að bæta í vind, þá mun rúta sækja nemendur 5.bekkjar á Torfnes núna kl. 9:20. Í framhaldi af því munum við halda 6.bekk hér í skólanum, þ.e. að við sendum þau ekki á Torfnes kl. 9:40.

Kómedíuleikhúsið í heimsókn

1 af 2

Í gær og dag var Kómedíuleikhúsið á ferðinni hjá okkur og bauð 7 árgöngum upp á leiksýningar. 1. - 4. bekkur fékk að sjá brúðu- og grímusýninguna um Iðunni og eplin, þar sem varðmaður goðanna, Heimdallur, er mættur til jarðar til að segja frá hinum norrænu goðum og lífi þeirra í Valhöll.

Í morgun bauð leikhúsið svo 8. - 10. bekk upp á söguna um Gísla Súrsson og fjölskyldu hans sem tók landi í Haukadal í Dýrafirði, en sagan er einmitt lesin í 10. bekk í vetur. Þess má geta að leikritið hefur verið sýnt rúmlega 300 sinnum, bæði hér heima og erlendis. 

Rósaball

Fimmtudaginn 20. febrúar heldur 10. bekkur GÍ svokallað Rósaball í sal skólans klukkan 20:00-23:00. Miðaverð er 1000 kr. fyrir einn en 1500 kr. ef tvö/tvær/tveir kaupa miða saman. Rúta fer í Hnífsdal og strætóleiðina inn í Holtahverfi að loknu balli. Nemendur fá frjálsa mætingu í fyrsta tíma á föstudeginum, þ.e. þeir sem ekki mæta fá ekki fjarvist en allir kennarar verða á sínum stað.

Nýr læsisvefur Menntamálastofnunar

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra opnaði nýjan Læsisvef Menntamálastofnunar í Krikaskóla í Mosfellsbæ í morgun. Á vefnum má finna fjölbreytt efni til eflingar lestrarkennslu og læsis, bæði fyrir heimili og skóla, á íslensku, ensku og pólsku. Við hvetjum alla til að skoða og nýta sér þennan nýja vef.

Rithöfundur í heimsókn

Í morgun kom rithöfundurinn og myndskreytirinn Bergrún Íris Sævarsdóttir í heimsókn í 6. og 7. bekk og ræddi um skapandi skrif við nemendur. Bergrún Íris hefur skrifað 9 barnabækur og hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin nú á dögunum fyrir bók sína Langelstur að eilífu.

Nemendur kunnu vel að meta heimsóknina og var sérstaklega áhugavert að hlýða á upplestur hennar úr nýjustu bók hennar sem er í smíðum, en það er framhald sögunnar um Kennarann sem hvarf.

Bergrún Íris mun heimsækja Bókasafnið á Ísafirði kl. 17:00 í dag og ræða við börn og foreldra.

Ný umferðarlög

Þann 1. janúar tóku ný umferðarlög gildi. Í þeim er m.a. annars kveðið á um að ökumaður skuli sjá til þess að farþegi yngri en 15 ára noti öryggis- og verndarbúnað (77. gr).  Það þýðir t.d. að noti farþegar (yngri en 15 ára) ekki öryggisbelti í strætó er hægt að sekta ökumanninn um 30.000 krónur fyrir hvern þann farþega (yngri en 15 ára) sem ekki notar öryggisbeltin.  Ef farþeginn er orðinn 15 ára greiðir hann sjálfur sektina. Við hvetjum alla til að spenna öryggisbeltin nú sem endranær og biðjum foreldra um að ræða það við sín börn.

Verðlaun á 112-deginum

Sigurður A. Jónsson, slökkviliðsstjóri og Garðar Logi Guðmundsson
Sigurður A. Jónsson, slökkviliðsstjóri og Garðar Logi Guðmundsson

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) fór fram fyrir jólin, en þá heimsóttu slökkviliðsmenn nemendur í 3. bekk í öllum grunnskólum landsins og fræddu þá um eldvarnir. Nemendur fengu eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og söguna af Brennu-Vargi og Loga og Glóð. Nemendum bauðst svo að taka þátt í Eldvarnagetraun.

Í morgun, á 112-deginum,  komu svo slökkviliðsmenn Ísafjarðar í heimsókn í 3.bekk, þar sem dregið hafði verið út úr réttum lausnum í getrauninni. Garðar Logi Guðmundsson var sá heppni og fékk hann vegleg verðlaun sem Sigurður A. Jónsson, nýráðinn slökkviliðsstjóri afhenti honum. 

Kökuskreytingameistarar framtíðarinnar

Krakkarnir í heimilisfræðihóp 8. bekkjar hafa verið að læra svolítið um kökuskreytingar undanfarið, hjá Guðlaugu Jónsdóttur, heimilisfræðikennara. Í síðustu viku fóru þeir heim með þessar glæsilegu kökur, stoltir og ánægðir með afraksturinn. Til hamingju krakkar, vel að verki staðið!