VALMYND ×

Upplýsingar varðandi kórónaveiruna

Vegna óvissustigs varðandi COVID-19 kórónaveiruna vill skólahjúkrunarfræðingur vekja athygli á viðbrögðum heilsugæslunnar varðandi veiruna:

Ekki koma beint á heilsugæslustöð, hringdu fyrst

Til að draga úr smithættu er fólki sem hefur ástæðu til að ætla að það hafi sýkst af kórónaveirunni, bent á að hringja á heilsugæsluna á opnunartíma eða í vaktsímann 1700 sem er opinn allan sólarhringinn og fá leiðbeiningar. 

Fólk sem hefur einkenni sjúkdómsins á ekki að koma á heilsugæsluna eða bráðamóttöku beint heldur hringja og fá ráðleggingar. Helstu einkenni eru hiti, hósti, beinverkir og öndunarerfiðleikar.

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit.

Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti. Hér í skólanum er handsápa og handspritt á öllum salernum og í matsal og hvetjum við alla til að nýta það.

Einnig er bent á vef Embættis landlæknis þar sem hægt er að nálgast nýjustu upplýsingarnar um veiruna hverju sinni.

Höfum svo í huga að fréttir varðandi þennan faraldur geta komið illa við börn og jafnvel valdið kvíða. Við vitum að þó veiran breiðist hratt út að þá er líklegt að fólk sem er hraust fyrir nái sér af veikinni en dauðsföll hafa aðallega orðið hjá þeim sem eru veikari fyrir eða hafa haft undirliggjandi sjúkdóma.

 

Deila