VALMYND ×

Slæm veðurspá

Veðurspáin fyrir morgundaginn er lítið spennandi, þar sem gert er ráð fyrir snjókomu og suðvestan 18-25 m/s í fyrramálið, en 13-20 eftir hádegi. Gefin hefur verið út appelsínugul viðvörun sem er í gildi til kl. 18:00 á morgun.

Við minnum því á að Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

  • Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
  • Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
  • Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu. 

 

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun talhólfsnúmer, 878-1012,  þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður. 

Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast vel með  á heimasíðu almannavarna.

Deila