VALMYND ×

Skólinn opnaður að nýju

Nú er loksins eitthvað jákvætt að gerast og mun skólinn opna aftur mánudaginn 4. maí. Það verður hins vegar með þeim sömu takmörkunum og voru fyrir páska, að því undanskyldu að við höfum fengið samþykki sóttvarnarlæknis að skipta ekki 3. 4. og 6. bekk í þrjá hópa, heldur verða allir í umsjónarbekkjunum sínum. Mötuneytið verður ekki opið, nemendur fara ekki í list-og verkgreinar og ekki í íþróttir og sund. Frímínútur verða á mismunandi tímum og skólatíminn er skertur og verður eins og síðustu vikuna fyrir páska;

1.-4. bekkur   kl. 8:00-12:00
5.-7. bekkur   kl. 8:00-11:30
8. bekkur       kl. 8:30-10:30
9. bekkur       kl. 9:00-11:00
10. bekkur     kl. 9:15-11:15.

Það verður strætó kl 8:00 í skólann en við biðjum foreldra sem mögulega geta keyrt börnin sín að gera það, til þess að geta haldið lágsmarksfjölda nemenda í vagninum. Það er áfram sveigjanleg skólabyrjun milli 7:45-8:15 svo að það séu ekki allir að mæta á sama tíma, en við munum skrá seinkomur eftir 8:15. Við minnum líka á það að nemendur sem búa fyrir innan Seljalandsveg 44 og í Hnífsdal eiga rétt á skólaakstri. Ekki verða sérstakar ferðir fyrir unglingana heldur hvetjum við þá að koma á hjólum, eða gangandi í skólann og nýta þennan ferðamáta í stað íþróttanna sem falla niður. Strætó verður svo heim kl. 11:35 og 12:05, fyrir yngsta- og miðstig.

Vonandi verður þetta skipulag aðeins 4.-8. maí og skólahald með eðlilegum hætti eftir það. Það fer þó eftir því hvernig Covid -19 þróast hjá okkur. Nú sem áður verðum við að vanda okkur og sofna ekki á verðinum, það er enn samkomubann fyrir 20 eða fleiri og nemendur eiga enn ekki að umgangast aðra en þá sem eru í þeirra hóp. Við erum full bjartsýni og vonum svo innilega að við séum farin að sjá fyrir endann á samkomubanninu og að við getum fljótlega farið að fylgja tilmælum á landsvísu.

Deila