7.bekkur á heimleið í dag
7.bekkur hefur dvalið í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði þessa viku og eru á heimleið í dag. Starfið í skólabúðunum beinist í öllum aðalatriðum að sömu markmiðum og starfið í grunnskólum. Lögð er sérstök áhersla á aukna samstöðu og eflingu samvinnu, félagslegrar aðlögunar og þroska nemenda. Einnig snýst dvölin um að takast á við áður óþekkt verkefni, kynnast nýju umhverfi og ólíkum lífsmáta. Nemendur fá nasaþefinn af heimavistarforminu og er alltaf viss eftirvænting hjá nemendum að fá að dvelja saman nánast allan sólarhringinn. Þessa viku eru auk nemenda G.Í. nemendur frá Bíldudalsskóla, Patreksskóla, Grunnskóla Bolungarvíkur, Súðavíkurskóla og Oddeyrarskóla á Akureyri. Þannig að ljóst er að nemendur mynda ný kynni og dýrmætar minningar sem lifa eflaust lengi.
Hópurinn heldur af stað frá Reykjum um hádegisbilið og verður kominn heim til Ísafjarðar seinnipartinn. Kennarar munu setja nánari upplýsingar varðandi heimkomu inn á FB síðu árgangsins þegar nær dregur.
Deila