Dagur íslenskrar tungu
Í dag, 16.nóvember, er dagur íslenskrar tungu, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Af því tilefni var setning litlu og stóru upplestrarkeppnanna í 4. og 7. bekk. Eins og gefur að skilja var engin samkoma á sal líkt og undanfarin ár, heldur var brugðist við ástandinu og dagskráin send út frá skrifstofu skólatjóra og út í bekkjastofur 4. og 7. bekkjar.
Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, setti hátíðina og Kristín Oddsdóttir, kennari, kynnti dagskrána. Þær Anna María Ragnarsdóttir og Dagný Rut Davíðsdóttir nemendur í 8. bekk fluttu ljóð, en þær náðu langt í upplestrarkeppninni í fyrra. Þá var hlustað á tónlist í boði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og voru keppnirnar formlega settar að því loknu.
Markmið upplestrarkeppni í grunnskóla er að vekja athygli og áhuga á vönduðum upplestri og framburði. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.
Deila