VALMYND ×

Erasmus+ verkefni lokið

Tekið fyrir framan friðarhöllina í Den Haag
Tekið fyrir framan friðarhöllina í Den Haag
1 af 2

Grunnskólinn á Ísafirði og  Grunnskólinn á Suðureyri tóku nýverið þátt í verkefni styrktu af Ersamus+ sem er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta- íþrótta- og æskulýðsmál.

Verkefnið sem skólarnir unnu að nefndist  Living in a Challenging World og fjallaði um Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Samstarfsskólar okkar voru frá Aþenu í Grikklandi, Uddevalla í Svíþjóð, Delft í Hollandi og Pleven í Búlgaríu. 

Verkefnið hófst á því að kennarar frá samstarfsskólum okkar komu í heimsókn til Ísafjarðar í október 2018, og var þar unnið að skipulagningu verkefnisins og áætlun um heimsóknir til skólanna. Áætlað var að kennarar sem tóku þátt í verkefninu og fulltrúar nemenda færu í heimsóknir til þátttökulandanna og kynntu afrakstur verkefna hvers hóps. Gert var ráð fyrir að allir þeir nemendur sem vildu gætu fengið að fara í heimsókn í einn skóla, fimm nemendur í hvert skipti. Tilhögun verkefnavinnunnar var þannig að greinum Mannréttindayfirlýsingarinnar var skipt niður í hluta og nemendur unnu verkefni tengdum greinunum. Nemendur í árgangi 2004 tóku þátt í verkefninu.

Fyrsta heimsókn nemenda með 2 kennurum var til Grikklands, í mars 2019 og næsta til Svíþjóðar í maí 2019. Þriðja heimsóknin var svo til Hollands í október sama ár. Allar þessar ferðir  tókust vel og verkefnunum skilað með sóma, en svo kom babb í bátinn. Fyrirhuguð var ferð til Búlgaríu 15. mars 2020, en eins og allir vita var öllu skellt í lás á þeim dögum svo ekkert varð af þeirri ferð né heimsókn þátttökuskólanna hingað til Ísafjarðar sem átti að vera í maí. Ekki tókst því að ljúka heimsóknunum og það var leitt að hópurinn sem átti að fara til Búlgaríu skyldi ekki geta fengið að fara sína ferð og að hinir skólarnir gátu ekki heimsótt okkur.

Til að ljúka verkefninu voru haldnir tveir Zoom fundir núna í haust. Fyrst undir stjórn Búlgara og seinni fundurinn undir okkar stjórn rétt fyrir jól og þurftu núverandi nemendur 10. bekkjar að taka við keflinu og gerðu þeir það með sóma.

Að taka þátt í svona fjölþjóðlegu verkefni krefst mikillar vinnu og er aukið álag á nemendur og kennara, en mín skoðun er sú að þetta sé gefandi starf sem auki víðsýni og skilning á aðstæðum annarra. Nemendur kynnast nýjum viðhorfum og hafa tækifæri til að sjá hvernig skólahaldi er háttað í öðrum löndum. Verkefni á vegum Erasmus+ áætlunarinnar eru margs konar og hægt er að sækja um styrki  fyrir ýmis viðfangsefni en ég held að verkefni okkar varðandi Mannréttindayfirlýsingu sé mjög þarft, ekki síst núna á okkar tímum. Þetta verkefni jók skilning okkar kennaranna sem unnum við það og við vonum svo sannarlega að eins hafi verið með nemendur okkar. /Bergljót Halldórsdóttir

Deila