VALMYND ×

Fréttir

Skipulag 3.-17. nóvember

 

 

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi gildir 3.-17. nóvember. Breytingarnar hjá okkur eru þær helstar að við skiptum skólanum í sóttvarnarhólf, og mega nemendur ekki fara á milli hólfa.  Það þýðir að í langflestum tilvikum færast verkgreinar inn í bekkjarstofur.  Íþróttir og sund falla niður og munu íþróttakennarar leitast við að vera með nemendum úti, eins og veður leyfir. Við höfum góða reynslu frá því í vor af því að hafa upphaf skólatíma sveigjanlegan og því gerum við það aftur núna. Nemendur geta því mætt til 8:15 án þess að fá seinkomu.

 

 Í 5.-10. bekk er grímuskylda þar sem við getum ekki tryggt tveggja metra fjarlægðarmörk og á það við um öll rými skólans, þannig að nemendur verða að vera með grímur allsstaðar, á leið inn og út úr skóla og einnig í kennslustundum og hvetjum við alla sem geta að nota eigin grímur í skólanum. Að öðrum kosti mun skólinn útvega þær. Nemendur eiga einnig að vera með grímur í strætó. Þar sem hópablöndun er ekki leyfð munu nemendur fá frímínútur inni í kennslustofum en kennarar munu fara út á hverjum degi með nemendur sína.  Þar sem við getum ekki komið hádegismat fyrir vegna fjöldatakmarkana og létta á álagi vegna grímunotkunarinnar mun verða kennsla til 12:15 en þá verður strætó.

Hámarksfjöldi er 25 í hverju rými fyrir sig. Hverjum árgangi á unglingastigi verður því skipt í tvo fasta hópa, og hver hópur í sér stofu. Nemendur sem eiga að mæta í fyrstu kennslustundum í íþróttir á Torfnes eiga að mæta í skólann. Matartíminn fellur niður og verður mataráskrift endurgreidd.

Í 1.-4. bekk gilda aðrar reglur, þar er 50 barna hámark í hverju rými og grímuskyldan á ekki við. Það verður óskertur skóladagur hjá þessum árgöngum. Frístund, dægradvöl og  mötuneyti verða á sínum stað með breytingum þó og til að koma öllum nemendum á yngsta stiginu fyrir í mötuneytinu borðar 2. og 4. bekkur fyrir framan matsal.

Við vonum svo sannarlega að þetta skipulag gangi upp hjá okkur og að við þurfum ekki að fara í meiri takmarkanir.
Í fyrstu covid bylgjunni í vor fundum við mikinn og góðan stuðning og skilning frá ykkur kæru foreldrar og með því að gera þetta saman þá náum við að gera okkar besta til að börnunum okkar líði sem best

Hertar sóttvarnarreglur

Ágætu foreldrar!
Nú er búið að boða hertar sóttvarnarreglur. Mesta breytingin sem snýr að okkur er sú að börn á grunnskólaaldri eru ekki lengur undanþegin almennum takmörkunum. Við bíðum eftir nýrri reglugerð fyrir skólana frá menntamálaráðherra og það er gert ráð fyrir að hún liggi fyrir um helgina. Í ljósi þessa gefum við okkur tíma á mánudaginn til að útfæra skólastarfið og færum starfsdaginn sem vera átti 11. nóvember fram til mánudagsins 2. nóv. þannig að það er ekki skóli hjá nemendum á mánudaginn. Það er alveg ljóst að töluverðar breytingar verða hjá okkur en nánari upplýsingar koma frá skólanum á mánudaginn. Við höfum sýnt það og sannað að þegar við stöndum saman eins og við gerðum í vor þá getum við tekist á við margskonar áskoranir.
Ég óska ykkur góðrar helgar og vona að við öll njótum hennar þrátt fyrir ástandið.

Matseðill nóvember

Nú er matseðill fyrir nóvember kominn inn á síðuna og hvetjum við þá sem ætla að nýta sér áskrift að gera það  sem fyrst.

Pastagerð

1 af 2

Í síðustu viku gerðu nemendur í heimilisfræði á unglingastigi ítalskt pasta frá grunni. Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari sagði að krakkarnir hefðu verið sérlega áhugasamir og duglegir og þótti þeim pastagerðin skemmtileg tilbreyting. Fleiri myndir má sjá á myndasíðu skólans.

Vinaliðanámskeið

1 af 2

Í morgun hélt Atli Freyr Rúnarsson, íþróttakennari, vinaliðanámskeið fyrir verðandi vinaliða í 4. - 6. bekk. Aðalmarkmið vinaliðaverkefnisins er að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum. Hreyfing nemenda eykst ef fjölbreytt úrval leikja er á skólalóðinni og færri nemendur eru stakir eða óvirkir. Við viljum að öllum nemendum líði vel í skólanum og á skólalóðinni og taki þátt í að gera skólann enn betri en hann er. Nemendur sem takast á við hlutverk vinaliða fá frábæra leiðtogaþjálfun í gegnum hlutverkið um leið og þeir styrkjast sem einstaklingar.

Covid fréttir

Heilbrigðisráðherra setti nýja reglugerð í síðustu viku vegna kórónuveirunnar sem gildir til 2. nóvember. Það breytist lítið hjá okkur annað en það að grímuskylda er sett þar sem ekki er hægt að koma við tveggja metra fjarlægðarmörkum. Nemendur þurfa ekki að vera með grímur frekar en þeir vilja en við biðjum ykkur  kæru foreldrar að nota grímur ef þið eigið erindi inn í skólann, í viðbót við handsprittunina. Einnig minnum við ykkur á að byrja á því að hafa samband við ritarann og gefa upp erindi ykkar við hann

Val á unglingastigi

1 af 3

Valgreinar eru hluti af skyldunámi. Í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla skal nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið sem svarar allt að fimmtungi námstímans en skólar geta skipulagt mismunandi hlutfall valgreina eftir árgöngum og skal slíkt koma fram í árlegri starfsáætlun. Tilgangurinn með valfrelsi nemenda á unglingastigi er að hægt sé að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.

Í vetur sem og undanfarin ár er nemendum boðið upp á fjölbreytt námsval á unglingastigi. Þetta árið er það hárgreiðsla, dans, FabLab, boltaval, aðstoð í Dægradvöl, Drekar og dýflissur, fatasaumur, fornám ökunáms, heimilisfræði, ítalska, líkamsrækt og þjálfun, leiklist, ljósmyndun, Makey makey, málm og silfursmíði, myndmennt, smíði og hönnun, prjón og hönnun, námsaðstoð, skapandi stærðfræði, skák, skólahreysti, slökun og hugleiðsla, sund, tæknilegó, tækniráð, menningarlæsi og sköpun, næringarfræði og þýska. Auk þess býðst nemendum að stunda tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Ísafirði og Listaskóla Rögnvaldar og stunda íþróttir hjá HSV og telst það til valgreina.

Nemendur unglingastigs eru 103, en auk þeirra koma 17 nemendur frá Grunnskóla Önundarfjarðar og Grunnskólanum á Suðreyri í valgreinarnar hjá okkur á mánudögum og fimmtudögum.

 

Ný samþykkt heilbrigðisráðherra vegna fjölgunar covid smita

Samkvæmt minnisblaði sóttvarnarlæknis og samþykkt heilbrigðisráðherra frá því í gær þá eru ekki miklar breytingar hvað varðar skólana. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að geta haldið skólahaldi óskertu og verðum við öll að vera vakandi yfir því sem við getum gert.  Við biðjum þá foreldra sem eiga erindi í skólann að spritta hendur um leið og þeir koma inn og beina erindum sínum til ritara þar sem því verður við komið. Þar sem ekki er hægt að koma við eins metra fjarlægðarmörkum er grímuskylda. Við mælumst til þess að foreldrar fylgi ekki börnum sínum að skólastofum þeirra heldur aðeins inn í anddyri og ef þeir þurfa að koma t.d. nesti eða íþróttafötum sem gleymdust heima, að fara ekki með að stofum barna sinna heldur koma því til ritara sem kemur því áleiðis. Eins og fram kom fyrir helgi þá eru foreldraviðtölin í þetta skipti með rafrænum hætti, það er annaðhvort í síma eða fjarfundi og mjög mikilvægt er að foreldrar skrái sig á viðtalið í mentor.

Vonandi skila hertar reglur á landsvísu sér fljótlega og smitum fari að fækka. Með samstöðu og ábyrgð getum við kveðið veiruna niður.

Sóttkví nemenda

Á hverjum degi skólastarfsins það sem af er skólaári, eru nokkrir nemendur og starfsmenn skólans í sóttkví. Það eru ýmsar ástæður fyrir sóttkvínni:

-Úrvinnslusóttkví þegar einstaklingur er með einkenni fer í sýnatöku og bíður eftir niðurstöðum eða fjölskyldumeðlimur með einkenni fer í sýnatöku þá eru allir á heimilinu í úrvinnslusóttkví.

-Sóttkví er þegar einstaklingar hafa umgengist smitaðan einstakling eða verið í sama rými og smitaður einstaklingur. Þá fara viðkomandi í sóttkví í viku og svo sýnatöku. Reynist sýnið neikvætt þá eiga viðkomandi að fara varlega í eina viku í viðbót og eru þá í smitgát.

Skólinn hefur fengið þær upplýsingar að nemendur sem eru í slíkum aðstæðum þurfi að gæta þess að viðhalda tveggja metra nándarreglunni, hafa sér salerni og vera með grímur. Það er erfitt að verða við þessu í skólanum þar sem gangar og skólastofur eru þröngar. Þessa dagana erum við með sérúrræði fyrir nemendur í þessum sporum,  þeir ganga inn um sérinngang og eru í kennslustofu sem þeir hafa einir fyrir sig og það er einn og sami kennarinn sem kennir þeim.

Skólinn fær ekki upplýsingar frá heilbrigðisstofnun hvaða einstaklingar eru í sóttkví eða eru smitaðir þannig að það er mjög mikilvægt að foreldrar láti skólann vita og hvaða upplýsingar og leiðbeiningar þeir hafa fengið varðandi sóttkví barna sinna því ástæður og aðstæður eru svo einstaklingsbundnar. Skólinn reynir að verða við öllum aðstæðum en það geta komið upp þær aðstæður í skólanum að við getum ekki sinnt öllum tilvikum t.d. ef það er bara einn nemandi sem á að vera í smitgát eftir sóttkví þá gæti staðan verið sú að við höfum ekki kennara til að kenna einu barni í sérúrræði. Þá þyrfti að finna til önnur úrræði eins og fjarkennslu.

Rafræn foreldraviðtöl

Í ljósi covid aðstæðna verður foreldraviðtalsdagurinn 7. október með öðru sniði en vanalega. Fundirnir verða með rafrænum hætti og/eða með símtölum. Við gerum ráð fyrir að í 1.-5. bekk verði símafundir, þannig að umsjónarkennarar hringi á fyrirfram ákveðnum tímum í foreldra. Í 6.-10. bekk verða fundirnir í gegnum Google Meet og munu nemendur fara heim með iPadana sína á mánudaginn. Flestir nemendur þekkja vel þetta forrit frá því í vor og einnig munu kennarar rifja upp með þeim hvernig forritið virkar. Eftir sem áður verða foreldrar að skrá sig á viðtalstíma í mentor eins og áður og það verður opnað fyrir skráningarnar kl. 14 á morgun, föstudag. Foreldrar nemenda í 1.-5. bekk verða að láta fylgja í athugasemd símanúmer sem á að hringja í. Ef eitthvað er óljóst þá vinsamlegast hafið samband við umsjónarkennara.