VALMYND ×

Fréttir

Haustball 10.bekkjar

Það er komið að langþráðu haustballi unglinganna okkar. 10.bekkur skólans býður 8., 9. og 10. bekk á haustball í sal Grunnskólans á Ísafirði fimmtudaginn 9.september kl 20:00-23:00. Það kostar 1.000 kr. inn á ballið og er einungis tekið við peningum. Sjoppa verður á staðnum og góð tónlist. Árgangurinn hvetur alla til að koma með góða skapið og hlakkar til að sjá sem flesta.

 

Sýnatökur á morgun

Nú fer að sjá fyrir endann á sóttkvínni og vonum við svo sannarlega að enginn sé smitaður. Heilbrigðisstofnunin hafði samband og bað okkur að skipta hópnum sem á að mæta í sýnatökuna á morgun í þrennt, til að dreifa álaginu. Ef einhver tími hentar betur en annar, þá er það í lagi, það er einungis verið að reyna að dreifa hópnum þannig að það komi ekki allir á sama tíma
Kl. 13:30 1. HA
Kl. 13:50 1. HF og 1. MG
Kl. 14:10 2. AS og 2. ÁH
Nú krossum við fingur og vonum það besta. Við hlökkum til að sjá sem flesta á mánudaginn.

Upplýsingar varðandi sóttkví og einangrun

Að gefnu tilefni þá eru hér reglur varðandi einangrun og sóttkví samkvæmt tilmælum frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum.

- Ef barn eða foreldri fer í sýnatöku vegna einkenna þá er viðkomandi í einangrun og aðrir fjölskyldumeðlimir í sóttkví og mæta ekki í skóla eða vinnu.

- Börn í smitgát mega mæta í skólann, t.d. ef foreldri eða systkini eru í sóttkví og einkennalaus.

 

10.bekkur í haustferð

1 af 2

Það er margt um að vera í skólanum hjá okkur þrátt fyrir að kórónuveirusmit og sóttkví setji mark sitt á skólastarfið. Nemendur í 10.bekk héldu af stað siglandi í sína árlegu haustferð í morgun, en ferðinni var heitið norður á Hesteyri. Þaðan gengur svo hópurinn yfir í Aðalvík, þar sem gist verður í tjöldum í nótt og komið heim aftur á morgun.

Það er vaskur hópur foreldra sem gengur með krökkunum og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir. Veðrið leikur við hópinn í dag eins og sjá má á meðfylgjandi myndum frá Hólmfríði Völu Svavarsdóttur.

Átta smit greind í 1.bekk

Við höfum nú fengið þær upplýsingar frá heilsugæslunni að fjórir nemendur til viðbótar greindust jákvæðir í sýnatökum gærdagsins. Smitin eru því orðin samtals 8, öll í 1. bekk. Það eru há gildi í sýnunum og því má búast við að þetta sé bara upphafið.

Það er mjög mikilvægt að fara strax aftur í sýnatöku ef einkenna verður vart, ekki bíða neitt með það því 10 daga einangrunin hefst við greiningu.

Tvö smit í viðbót

Við vorum að fá upplýsingar um það frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða að smitin eru nú orðin fjögur, öll í 1. bekk. Enn er beðið eftir niðurstöðum úr fjölmörgum prófum og fáum við þær á morgun.
 
Það er alveg ljóst að þetta afbrigði sem er hér á ferðinni er bráðsmitandi og ítrekum við að aldrei er nógu varlega farið. Ef börnin, eða aðrir í fjölskyldunni sýna minnstu einkenni, verður að panta sýnatöku strax. Ef barn er með einkenni þá er það í einangrun þar til niðurstöður úr prófunum koma og einnig allir aðrir úr fjölskyldunni.

Smit í nemendahópnum

Upp eru komin 2 kórónuveirusmit í 1.bekk. Það hefur þau áhrif hjá okkur að allur 1. bekkur og stór hluti 2. bekkjar eru komnir í sóttkví út næstu viku, þar sem þeir hópar eru saman í frístund og dægradvöl. Auk þeirra eru 5 starfsmenn skólans einnig komnir í sóttkví, eða alls um 80 manns. Nokkrir nemendur í 2.bekk sem ekki voru með þeim smituðu í hópum sleppa við sóttkví. 

Sóttkvíin nær aðeins til nemendanna sjálfra en ekki fjölskyldna þeirra. Foreldrar og systkini þurfa samt sem áður að viðhafa svokallaða smitgát, sem felst í því að sýna sérstaka gát, gæta vel að smitvörnum og takmarka samneyti við viðkvæma einstaklinga og aðra eins og hægt er. Ef minnstu einkenna verður vart, á að fara í sýnatöku.

Smitið er væntanlega útbreiddara en haldið var í fyrstu og því fara allir þeir nemendur sem komnir eru í sóttkví, í hraðpróf á morgun, sunnudag. Nánara skipulag hefur verið sent í tölvupósti til viðkomandi foreldra og inn á síðu Foreldrafélags GÍ.

Vonandi næst utan um þetta fljótt og vel með sameinuðu átaki okkar allra.

 

 

Fjallgöngur að hausti

1 af 3

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur eða gönguferðir. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Næstu daga skunda nemendur upp um fjöll og firnindi en 8.bekkur lauk sinni göngu í gær. Leið þeirra lá um Dagverðardal, Fellsháls, Nónvatn, Stein og niður í Engidal. Vegalengdin var tæpir 13 km. í heildina og stóðu allir sig vel!

Nemendur 10.bekkjar sigla á mánudaginn norður á Hesteyri og ganga yfir í Aðalvík, þar sem gist verður í tjöldum. 

Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda.  

Óhefðbundinn vefnaður

Kennarar hafa verið duglegir að nýta sér veðurblíðuna undanfarna daga til útikennslu. Það finnst varla sú námsgrein sem ekki er hægt að kenna utan dyra og möguleikarnir óþrjótandi. Nemendur í textílmennt í 8.bekk fengu að kynnast óhefðbundnum vefnaði í gær, þegar farið var út í náttúruna og ofið utan um stórgrýtið við Fjarðarstræti, undir leiðsögn Jóhönnu Evu Gunnarsdóttur.

Góð stemning í skólabúðum

Nemendur 7.bekkjar dvelja nú í skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði og er mikil stemning í hópnum og margt skemmtilegt sem drifið hefur á daga þeirra. Krakkarnir hafa farið í íþróttir, sund og náttúrufræði, heimsótt byggðasafnið, smakkað hákarl og farið í sjósund með kennurum. Svo er boðið upp á kvöldvökur öll kvöld, þar sem er alltaf líf og fjör.

Auk okkar nemenda eru hópar frá Flateyri, Suðureyri, Þingeyri, Bolungarvík, Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Áætluð heimkoma er seinni partinn á föstudaginn.