VALMYND ×

Fjölgun nemenda

Það er mikið tilhlökkunarefni hjá okkur að taka á móti nemendum okkar á morgun við skólasetningu. 7.bekkur heldur snemma af stað í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði og verður þar alla vikuna, þannig að þeir verða ekki við skólasetninguna sjálfa en við óskum þeim góðrar ferðar og dvalar.

Einhverjir nemendur hafa flutt í burtu eins og gengur og gerist og óskum við þeim öllum velfarnaðar. Það er sérstakt gleðiefni við upphaf nýs skólaárs að nemendum hefur fjölgað nokkuð frá í vor, úr 359 í 379 sem skráðir eru við skólann í dag. Mestu munar um stóran árgang á okkar mælikvarða sem er að hefja nám í 1. bekk, en þeir nemendur eru 47 talsins. Við útskrifuðum 34 nemendur úr 10.bekk í vor, þannig að fjölgunin á sér skýringu þar að miklu leyti.

Við leggjum okkur fram um að taka vel á móti nýjum nemendum og bjóðum þeim öllum í sérstaka heimsókn til okkar áður en skóli hefst. 1.bekkingar komu í nokkrar heimsóknir til okkar s.l. vor og munu mæta til sinna umsjónarkennara í viðtöl á morgun ásamt foreldrum. Aðrir nýir nemendur hafa verið boðaðir sérstaklega í heimsókn til okkar síðustu daga, þar sem umsjónarkennarar og stjórnendur hafa tekið á móti þeim. 

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að skólastarfið gangi sem best þrátt fyrir takmarkanir og vonum að allir komi endurnærðir eftir gott sumarleyfi.

 

Deila