VALMYND ×

Nemendaþing um einelti

Í dag er baráttudagur gegn einelti, en verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins ákvað að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti, allt frá árinu 2011.

Það er mjög mikilvægt að allir taki höndum saman um að koma í veg fyrir einelti og andfélagslega hegðun. Það er ekki síst gert með fræðslu og umræðum, sem hafa verið markvissar núna síðustu daga hjá okkur.

Í framhaldi af þeirri fræðslu héldum við nemendaþing um einelti í morgun hjá 6. - 10. bekk. Nemendum var skipt í 19 hópa sem stýrt var af hópstjórum úr 10.bekk. Fjórar spurningar voru lagðar fyrir nemendur:

1. Hvernig birtist einelti okkur?

2. Hvaða áhrif hefur einelti á okkur (þolendur/gerendur/aðra)?

3. Hvað getum við gert til að stöðva einelti?

4. Hvað getum við sjálf gert til að vinna gegn eða koma í veg fyrir einelti?

Hópstjórar stýrðu umræðum, þar sem allir fengu tækifæri á að tjá sig og leggja sitt af mörkum. Í lokin var svo samantekt á þeim atriðum sem hverjum hóp fannst mikilvægust. Skólastjórnendur munu svo taka niðurstöðurnar saman og koma þeim á framfæri, á meðal nemenda, starfsmanna og foreldra.

Ástæðan fyrir nemendaþingi sem þessu er að við viljum að nemendur séu virkir í skólastarfinu, að sjónarmið þeirra skipti máli og þeir sjái að þeir geti haft raunveruleg áhrif á mótun skólabragsins. Til að vinna að því markmiði höfum við reglulega sett upp nemendaþing þar sem nemendur ræða saman um áhrifaþætti í skólastarfinu og samfélaginu. Vinna sem þessi rímar vel við grunnþætti menntunar í Aðalnámskrá grunnskóla, þar sem lýðræði og jafnrétti er haft að leiðarljósi ásamt virkri þátttöku, gagnrýnni hugsun og samvinnu svo fátt eitt sé nefnt.

Síðastliðinn vetur var viðbragðsáætlun skólans gegn einelti endurunnin og tók hún gildi 1.mars s.l. Hægt er að nálgast hana hér

 

 

Deila