VALMYND ×

Fréttir

Nemendaþing um einelti

Í dag er baráttudagur gegn einelti, en verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins ákvað að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti, allt frá árinu 2011.

Það er mjög mikilvægt að allir taki höndum saman um að koma í veg fyrir einelti og andfélagslega hegðun. Það er ekki síst gert með fræðslu og umræðum, sem hafa verið markvissar núna síðustu daga hjá okkur.

Í framhaldi af þeirri fræðslu héldum við nemendaþing um einelti í morgun hjá 6. - 10. bekk. Nemendum var skipt í 19 hópa sem stýrt var af hópstjórum úr 10.bekk. Fjórar spurningar voru lagðar fyrir nemendur:

1. Hvernig birtist einelti okkur?

2. Hvaða áhrif hefur einelti á okkur (þolendur/gerendur/aðra)?

3. Hvað getum við gert til að stöðva einelti?

4. Hvað getum við sjálf gert til að vinna gegn eða koma í veg fyrir einelti?

Hópstjórar stýrðu umræðum, þar sem allir fengu tækifæri á að tjá sig og leggja sitt af mörkum. Í lokin var svo samantekt á þeim atriðum sem hverjum hóp fannst mikilvægust. Skólastjórnendur munu svo taka niðurstöðurnar saman og koma þeim á framfæri, á meðal nemenda, starfsmanna og foreldra.

Ástæðan fyrir nemendaþingi sem þessu er að við viljum að nemendur séu virkir í skólastarfinu, að sjónarmið þeirra skipti máli og þeir sjái að þeir geti haft raunveruleg áhrif á mótun skólabragsins. Til að vinna að því markmiði höfum við reglulega sett upp nemendaþing þar sem nemendur ræða saman um áhrifaþætti í skólastarfinu og samfélaginu. Vinna sem þessi rímar vel við grunnþætti menntunar í Aðalnámskrá grunnskóla, þar sem lýðræði og jafnrétti er haft að leiðarljósi ásamt virkri þátttöku, gagnrýnni hugsun og samvinnu svo fátt eitt sé nefnt.

Síðastliðinn vetur var viðbragðsáætlun skólans gegn einelti endurunnin og tók hún gildi 1.mars s.l. Hægt er að nálgast hana hér

 

 

Jól í skókassa

1 af 3

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. 7. bekkur G.Í. hefur undanfarnar vikur safnað ritföngum, leikföngum, sælgæti, fötum og hreinlætisvörum og náðu krakkarnir að fylla 21 kassa, sem þeir skiluðu til sr. Grétars Halldórs Gunnarssonar, prests í Ísafjarðarkirkju, sem er móttökuaðili verkefnisins.

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu en þar búa um 46 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

 

Húsbyggingar mældar

1 af 4

10. bekkur er að læra um einslaga þríhyrninga og prófa að nota eiginleika þeirra á hagnýtan hátt. Í dag fór nemendahópurinn út með spegla og málbönd til að mæla hæð bygginga í nágrenni skólans. Spegillinn er settur á jörðina og svo stillir einn sér upp þannig að hann sjái þakbrúnina á húsinu. Þá þarf að mæla þrjár lengdir, fjarlægðina frá húsi að spegli, fjarlægðina frá spegli að manneskju og hæð manneskjunnar upp að augum. Hlutföll milli hliða í einslaga þríhyrningum eru jöfn svo hæð hússins deilt með fjarlægðinni að speglinum er jöfn hæð manneskjunnar upp að augum deilt með fjarlægðinni að speglinum. Svona er búið að áætla hæð allra helstu bygginga i kringum skólann í morgun!

List fyrir alla

1 af 4

Í dag og í gær hafa nemendur í 8. og 9. bekk tekið þátt í listasmiðjum á vegum verkefnisins List fyrir alla. Í smiðjunum unnu nemendur með líffjölbreytileikann á norðurslóðum og veðrið og veðurkerfi, undir leiðsögn Öldu Cartwright og Kristínar Bogadóttur.

Afrakstur smiðjanna verður sýndur í Edinborgarhúsinu í dag á milli kl. 15:00 og 18:00.

Listaverk hjá 1.bekk

Í dag var spaðahópurinn í 1. bekk í myndmennt. Verkefni dagsins var að vinna með heita og kalda liti auk þess sem nemendur fengu að horfa á myndband með verkum Wassily Kandinsky. Nemendur fengu svo að spreyta sig á myndverkagerð í hans anda. Kandinsky var rússneskur listmálari og er talinn vera einn af merkustu listamönnum 20. aldarinnar. Hann er m.a. þekktur fyrir að vera frumkvöðull í abstraktlist.

Eitt af markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla í sjónlistum er einmitt að kynna verk listamanna og leyfa nemendum að skapa sín eigin verk út frá kveikju.

Hrekkjavökuböll

Í kvöld heldur 10.bekkur Halloween ball og býður 8. og 9. bekk til gleðinnar. Ballið er í sal skólans og stendur frá k. 20:00-23:00. Aðangseyrir er kr. 1.500 fyrir þá sem ekki mæta í búningi, en kr. 1.000 fyrir aðra.

Á morgun heldur Foreldrafélag G.Í. svo tvö hrekkjavökuböll fyrir yngri nemendur, einnig í sal skólans. Fyrra ballið er fyrir 1. - 4. bekk og stendur frá kl.17:00 - 18:30. Seinna ballið er fyrir 5. - 7. bekk og stendur frá kl. 18:30 - 20.00.

Við vitum að það er mikið í lagt með skreytingum frá Foreldrafélaginu og hafa nemendur 10.bekkjar lagt mikinn metnað í skreytingarnar, þannig að skemmtunin verði sem mest.

3.bekkur fær bókagjöf

Í dag fékk árgangur 2013 veglega bókagjöf frá foreldrum árgangsins. Foreldri í hópnum rakst á þessar skemmtilegu og fróðlegu bækur sem nefnast Hugarperlur og kom með þá hugmynd að gefa árganginum þær. Bækurnar eru hugsaðar til að efla sjálfstraust barna og seiglu og taka á algengum aðstæðum sem allir foreldrar þekkja; til dæmis þegar börnin taka fýlukast eða gera eitthvað af sér og vita ekki hvernig þau eiga að bregðast við. 

Fulltrúi foreldra kom með bækurnar til okkar í morgun og erum við einstaklega þakklát með gjöfina og stuðninginn frá foreldrum við að efla bekkinn. 

7.bekkur heimsækir OV

1 af 4

Í morgun heimsóttu nemendur 7.bekkjar Orkubú Vestfjarða, þar sem nemendur eru að læra um orku, virkjanir og fleira. Birgir Örn Birgisson, svæðisstjóri og Árni Sverrir Sigurðsson, vélfræðingur tóku á móti hópnum og fræddu nemendur um ýmsa þætti starfseminnar. Krakkarnir voru áhugasamir og spurðu margra spurninga og eru eflaust margs vísari eftir heimsóknina. Hópurinn vill þakka OV kærlega fyrir góðar móttökur.

Íþróttahátíð í Bolungarvík á morgun

Hin árlega íþróttahátíð í Bolungarvík verður haldin fyrir unglingastigið, fimmtudaginn 21. október frá kl. 10:00 - 22:00. Nemendur mæta því ekkert í hús hjá okkur.

Keppnisgreinar eru fjölbreyttar s.s. fótbolti, körfubolti, bandý, dodgeball, skák, sund og borðtennis. Öllum nemendum skólanna er skipt í fjögur lið og þeir sem ekki skráðu sig til keppni velja sér lið til að styðja.

Ef allt gengur að óskum verður keppni lokið um kl.18:45 og hefst ball í skólanum kl.20:00 sem stendur til kl. 22:00 og er miðaverð kr. 1.200. Tímann á milli er hægt að nota til að borða og græja sig fyrir ball.

Allir skólar fá afnot af kennslustofu sem verður læst þar sem hægt er að geyma dót og verðmæti. Þeir nemendur sem eru í mataráskrift fá samlokur í nesti, en einnig verður sjoppa á staðnum þar sem hægt verður að kaupa samlokur, drykki og annað. Miðar á ballið verðar einnig seldir í sjoppunni.

- Rúta fer frá Holtahverfi kl. 9:30 og fer strætóleið út í bæ og tekur upp nemendur á sínum biðstöðvum.

- Önnur rúta fer frá skólanum kl. 9:30, tekur upp nemendur í króknum og á biðstöð í Hnífsdal.

- Rúta fer frá Bolungarvík kl. 19:00 og að loknu balli.

- Kennarar/starfsmenn frá skólanum verða á svæðinu allan tímann.

Við treystum því að allir mæti með bæði góða skapið og keppnisskapið, njóti dagsins og verði sjálfum sér til sóma.

Framtíðar kokkar í 3.bekk

Nemendur í 3.bekk í heimilisfræði komu færandi hendi í mötuneytið í morgun. Krakkarnir komu með 4 föt af grænmeti sem þeir höfðu skorið sjálfir niður, með aðstoð Guðlaugar Jónsdóttur heimilisfræðikennara. Eiríkur Johansson, matráður skólans tók alsæll við grænmetinu og var það boðið sem meðlæti með steikta fiskinum sem var á borðum í dag.

Krakkarnir báru sig fagmannlega að við framreiðsluna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og eru örugglega einhverjir þeirra framtíðar kokkar.