VALMYND ×

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun fór skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fram í sal skólans. Þar lásu 10 af 12 nemendum sem valdir höfðu verið úr árgangnum í fyrri undankeppni, sögubrot og ljóð að eigin vali, en því miður forfölluðust tveir. Sveinfríður Olga skólastjóri stýrði keppninni og voru dómarar þær Auður Yngvadóttir, Elín Sveinsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir. Þeirra hlutverk var ekki auðvelt, en þær þurftu að velja 6 nemendur sem keppa munu fyrir hönd skólans á lokahátíð keppninnar, sem haldin verður í Hömrum þann 5.apríl n.k.

Úrslitin urðu þau að Aram Nói Norðdahl Widell, Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, Helga Sigríður Jónsdóttir, Sigurbjörg Danía Árnadóttir, Sylvía Rán Magnúsdóttir og Vésteinn Guðjónsson munu keppa fyrir hönd skólans á lokahátíðinni. Til vara verður Gunnar Geir Gunnarsson.

Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Upplestrarkeppnin er ekki keppni í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.

Allt frá upphafi hefur keppnin verið haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Nú er því lokið og keppnin því undir skólunum sjálfum komin. Grunnskólarnir á norðanverðum Vestfjörðum ákváðu í haust að taka höndum saman og skiptast á skipulagningu. Þetta árið verður lokahátíðin í höndum okkar Ísfirðinga, á næsta ári taka Bolvíkingar við keflinu og árið 2024 verður röðin komin að Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Súðavík.

Hafa ber í huga að „keppnin" er í raun aðeins formsatriði, nokkurs konar staðfesting á þeim árangri sem náðst hefur í skólastarfinu, og því miklu meira í ætt við uppskeruhátíð. Ekki skiptir máli hver sigrar, heldur það að tekist hafi að virkja nemendur til að vanda upplestur sinn um veturinn. Keppnin er sett formlega á degi íslenskrar tungu þann 16.nóvember ár hvert og lýkur í mars/apríl með lokahátíð.

Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góðan árangur og hlökkum til að fylgjast með lokahátíðinni í Hömrum þann 5.apríl kl.17:00. Ennfremur viljum við þakka þeim Guðnýju S. Stefánsdóttur og Jóni Ólafi Eiríkssyni, umsjónarkennurum í 7.bekk og foreldrum allra nemenda kærlega fyrir þeirra framlag, en þjálfun nemenda hefur alfarið verið í þeirra höndum.

Deila