VALMYND ×

Fréttir

Jólaleyfi

Grunnskólinn á Ísafirði óskar nemendum, foreldrum, starfsmönnum og velunnurum öllum gleðilegrar jólahátíðar. Kennsla hefst aftur að jólaleyfi loknu, þriðjudaginn 4.janúar samkvæmt stundaskrá.

Piparkökuhúsagerð

Undanfarið hafa nemendur í heimilisfræðivali unnið að hinum árlegu piparkökuhúsum. Húsin urðu samtals 28 í þetta skiptið. Þótt öll húsin séu í grunninn eins að gerð, með sama sniði, varð útkoman afar fjölbreytt og skemmtileg að vanda. Það er alltaf jafn gefandi að sjá gleðina og stoltið í andlitum krakkanna að verki loknu og verða vitni að tilhlökkun þeirra yfir því að fara heim með handverkið og sýna fjölskyldunni. Guðlaug Jónsdóttir heimilisfræðikennari stýrði verkefninu, en henni telst til að þetta sé þrettánda ,,piparkökuhúsaárið" í G.Í. Í fyrra féll verkefnið því miður niður vegna Covid 19.

Jólaball á unglingastigi

Fimmtudaginn 16.desember býður 10.bekkur unglingastigi skólans á jólaball, sem haldið verður í salnum kl.19:30-22:30. Aðgangseyrir er kr. 1.500 og verður boðið upp á rútu heim að balli loknu.

Skilyrði fyrir aðgangi að ballinu er neikvætt hraðpróf, sem verður í boði á Heilsugæslunni á miðvikudag á milli kl.13:00 og 14:00. Skráning í hraðpróf fer fram í gegnum vefsíðuna heilsuvera.is og verða foreldrar að skrá símanúmer barna sinna þannig að þau geti framvísað niðurstöðum við innganginn á ballinu.

10.bekkur hvetur alla til að mæta í fínni fötunum, þar sem hér er um spariball að ræða og minnir á að það verður sjoppa á staðnum.

Breyting á litlu jólunum

Eftir umræður og ábendingar um fyrirkomulag litlu jóla þá höfum við ákveðið í samráði við sviðsstjóra Skóla- og tómstundasviðs að gera eins og mörgum skólum á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Við munum því hafa litlu jólin föstudaginn 17. desember milli 14:00 og 15:30.  Það verður því hefðbundinn skóladagur auk litlu jólanna. Með því móti tvíteljum við 17. des sem skóladag og jólafrí hefst því 20. desember í stað 21. des.  Þetta hefur ekki önnur áhrif á skóladagatalið okkar þar sem dagafjöldinn breytist ekki. Með þessu höfum við tryggt að komi upp covid smit þessa síðustu daga lendir enginn í sóttkví á jólunum.

Nemendum, sem eru skráðir í Dægradvöl, verður boðið uppá að klára daginn í Dægradvölinni.

Nánari upplýsingar koma svo strax eftir helgi.

Úrslit í friðarveggspjaldakeppni Lions

Verðlaunamynd Hálfdáns Ingólfs
Verðlaunamynd Hálfdáns Ingólfs
1 af 14

Nemendur í 6., 7. og 8. bekk tóku í haust þátt í alþjóðlegri friðarveggspjaldakeppni Lions, undir leiðsögn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Keppnin var fyrst haldin árið 1988 og markmiðið með henni er að gefa grunnskólanemendum tækifæri til að koma á framfæri á skapandi hátt hugmyndum sínum varðandi heimsfrið og miðla framtíðarsýn sinni til umheimsins. 

Á hverju ári er valið þema til að vekja ímyndunarafl nemendanna. Tjáning, listrænt gildi og frumleiki eru þau þrjú viðmið sem notuð voru til að meta veggspjöldin. Þemað þetta árið er Við erum öll tengd.

Jón Reynir Sigurvinsson kom til okkar í gær, fyrir hönd Lionsklúbbs Ísafjarðar og afhenti öllum þátttakendum viðurkenningarskjal. Ennfremur veitti hann hvatningarverðlaun fyrir 1. - 3. sæti í keppninni hér á Ísafirði.

Í 3. sæti varð Soffía Rún Pálsdóttir og í 2. sæti Urður Óliversdóttir. Verk þeirra fengu umsögnina að vera yfirburðamyndir hvað varðar teiknifærni og vandvirkni.

Dómnefnd LÍ komst að þeirri niðurstöðu að 1.verðlaun hlyti Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson fyrir mynd sína og hlaut hún eftirfarandi umsögn: ,,Veggspjaldið sýnir býflugu sem ber á herðum sér heiminn allan og umvefur hann með vængjum sínum. Það er einfalt í teikningu en myndmálið er sterkt sem gerir það að verkum að allir geta dregið eitthvað af því. Býflugan virkar á dómnefnd sem sameiningartákn - án þeirra getum við ekki verið og því þurfa allir í heiminum að taka höndum saman í þeirri vinnu. Veggspjaldið ber af hvað frumleika varðar, það er listrænt og fangar viðfangsefni ársins vel, þ.e. að tengja fólk".

Verðlaunamyndin verður nú send og metin af dómnefnd sem velur eitt verk frá Íslandi til viðurkenningar hér heima og mun jafnframt verða send í alþjóða keppnina.

Við óskum verðlaunahöfum og þátttakendum öllum innilega til hamingju.

 

Smáréttaveisla í heimilisfræði

Í mörg ár hefur tíðkast hjá unglingum í heimilisfræðivali að halda veislu þar sem nemendur bjóða nokkrum starfsmönnum skólans. Í vikunni sem leið var komið að þessum viðburði hjá tveimur hópum, en nemendur útbjuggu nokkra smárétti undir stjórn Guðlaugar Jónsdóttur heimilisfræðikennara. Að sögn Guðlaugar hafa krakkarnir verið einstaklega áhugasamir og duglegir í vetur, enda leyndi sér ekki stoltið í andlitum þeirra þegar starfsmenn gengu inn í skólaeldhúsið, sem krakkarnir höfðu breytt í hinn fallegasta veislusal með girnilegum kræsingum á borðum. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá þessum kokkum framtíðarinnar.

Þess má geta að í vetur koma 12 nemendur af unglingastigi Grunnskólans á Suðureyri í valgreinar hjá okkur, tvisvar í viku og njóta sín vel í heimilisfræðivalinu sem og öðru.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag var haldið upp á dag íslenskrar tungu, með setningu litlu og stóru upplestrarkeppnanna í 4. og 7. bekk. Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, setti hátíðina og lék undir fjöldasöng þar sem nemendur sungu ljóðið ,,Á íslensku". Orri Norðfjörð, nemandi í 8. bekk, las sögubrot og Iðunn Óliversdóttir lék á píanó.

Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert.

Nýjar sóttvarnarreglur

 

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra vegna covid 19, tók gildi í gær. Það verða ekki miklar breytingar hjá okkur í skólanum en reglugerðin gerir ráð fyrir að :

1 m fjarlægðartakmörk milli starfsmanna og nemenda frá 5. bekk.

Ekki mega vera fleiri en 50 nemendur í hverju rými.

1.– 4. bekkur með engar fjarlægðartakmarkanir

5. – 10. bekkur með 1 m fjarlægðartakmarkanir

Blöndun milli hópa er heimil og foreldrar og gestir í skólastarfi verði með andlitsgrímur sem og kennarar nema þegar nemendur eru sestir í kennslustofum. Ekki er grímuskylda úti í frímínútum fyrir nemendur og góðar sótthreinsanir í skólanum nú sem áður.

Undanþága er gerð frá 50 manna hámarki í opnum rýmum, svo sem í anddyrum, göngum og mötuneyti. Hádegisverður  er því án takmarkana allavega til að byrja með. Strætó verður með óbreyttum hætti.

Netsambandslaust

Vegna bilunar á netsambandi er ekki hægt að ná sambandi við skiptiborð skólans. Ekki er fyrirséð hversu lengi það mun vara fram á morgundaginn (fimmtudag), en bendum á gsm númer skólans sem er 894-1688.

Við bendum foreldrum einnig á möguleikann að skrá veikindi barna í gegnum Mentor.

Nemendaþing

Á fimmtudag og föstudag eru þemadagar í skólanum. Skóladagurinn er með breyttu sniði á mið- og unglingastigi en nemendur vinna í hópum þvert á árganga ýmis verkefni tengd Skutulsfirði. Þessir dagar eru styttri á þessum stigum og lýkur skóladeginum kl. 12 báða dagana en þá fara nemendur í mat og geta farið heim að því loknu. Aukaferð í strætó fer frá skólanum kl. 12:30.

Á yngsta stiginu verður þemavinna til kl. 11:00 og eftir það tekur hefðbundin dagskrá við samkvæmt stundaskrá.