VALMYND ×

Fréttir

Hinsegin fræðsla

Dagana 15. og 16. febrúar síðastliðinn fengu nemendur í 7. - 10. bekk hinsegin fræðslu frá Samtökunum 78. María Rut Kristinsdóttir fræddi nemendur um hvað það er að vera hinsegin, en það hugtak er regnhlífarhugtak yfir fólk með kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og/eða kyntjáningu sem fellur ekki að ríkjandi viðmiðum samfélagsins. María Rut náði vel til krakkanna og svaraði spurningum þeirra varðandi þessi mál.

Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar en undir þá menntun fellur meðal annars nám um kyn og kynhneigð. Mikilvægt er að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hina ýmsu þætti og kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar. 

Flöskuskeyti við Noregsstrendur

1 af 2

Í apríl 2015 sendu þáverandi nemendur 5.bekkjar flöskuskeyti af stað út í óvissuna. Tilefnið var það að Ævar vísindamaður var að fylgja flöskuskeytum eftir með gps staðsetningartækjum og langaði nemendur og kennara að sjá hvort og þá hvar þeirra skeyti höfnuðu.

Nú á dögunum barst eitt þessara flöskuskeyta að strönd Smöla í Noregi. Sjálfboðaliðar á vegum ,,Plastjegerne" (Plastveiðaranna) fundu skeytið, en þeir hafa verið að hreinsa strendur undanfarið. Þeir sendu okkur svo mynd af skeytinu, sem er frá þeim Pétri Einarssyni og Herði Newman. Samkvæmt loftlínu er ferðalagið einir 1.521,82 km., en telja má víst að flaskan hafi tekið á sig allnokkrar lykkjur á leið sinni til Noregs.

Skólahald fellur niður

Mjög slæm veðurspá  er nú fyrir morgundaginn, miðvikudaginn 23. febrúar og er komin appelsínugul veðurviðvörun frá morgni til miðnættis. Það hefur því verið ákveðið, í samstarfi við sviðsstjóra, að fella niður allt skólahald á morgun og verður skólinn lokaður. Skólinn verður þó opnaður fyrir börn neyðaraðila beri nauðsyn til og foreldrar bera þá ábyrgð á því að hafa samband við skólastjórnendur og tilkynna komu þeirra í skólann.

Nýjar verklagsreglur um skólahald í Ísafjarðarbæ voru samþykktar af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þann 16. febrúar s.l. og voru þær sendar foreldrum í tölvupósti fyrr í dag.

Snjóskúlptúrar

Í útistærðfræðinni í 9. og 10. bekk í dag var lögð áhersla á rúmfræði og sköpun. Nemendur áttu að búa til snjóskúlptúr sem innihélt a.m.k. þrjú mismunandi rúmfræðileg form. Auk þess að læra um rúmfræðileg form, fékk sköpunarkraftur nemenda aldeilis að njóta sín eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Sleðaferð

1 af 3

Í fyrradag nýttu nemendur 4.bekkjar góða veðrið og hið mikla snjómagn í bænum til að fara í sleðaferð. Farið var inn á Torfnes og nutu krakkarnir þess að renna sér á sleðum, brettum, snjóþotum og þoturössum.

Hreyfing, hollusta og heilbrigðir lífshættir eru mikilvæg viðmið í skólastarfi og hafa kennarar verið duglegir í vetur að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem bjóðast hér í nærumhverfinu til að uppfylla þau viðmið Aðalnámskrár.

Hárgreiðslufólk framtíðarinnar

Föst fiskiflétta
Föst fiskiflétta
1 af 4

Í hárgreiðsluvali í vetur fá nemendur unglingastigs ýmiskonar fræðslu um umhirðu hárs og eiginleika þess, undir leiðsögn Kristínar Oddsdóttur hárgreiðslumeistara og kennara. Nemendur æfa sig á hverjum öðrum og læra ýmsar aðferðir við að flétta s.s. fasta fléttur (innstæðar og útstæðar), fossafléttur og fiskifléttur. Einnig læra þeir að slétta og krulla hár með sléttujárni, æfa sig að krulla hár með misjöfnum krullu- og bylgjujárnum og læra ýmsar uppgreiðslur, snúða o.fl. Farið er í heimsókn í hárdeild MÍ þar sem nemendur æfa sig að upprúlla hár á gínum, ásamt því að bera lit í hár, setja álstrípur og þvo hár.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum má búast við að hér séu á ferð hárgreiðslumeistarar framtíðarinnar.

Ófærð innanbæjar

Skólaakstur strætó er á bið vegna ófærðar innanbæjar. Við setjum inn frekar upplýsingar um leið og þær liggja fyrir. Sjálfvirkur símsvari strætó er 878-1012.

Engar strætóferðir

Öllum skólaakstri Strætisvagna Ísafjarðar er aflýst fram að hádegi í dag.

Lágmarksmönnun í GÍ á morgun

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við alla lögreglustjóra á landinu ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna frá miðnætti í kvöld vegna yfirvofandi óveðurs um allt land.
Samhæfingarmiðstöð almannavarna og aðgerðastjórnstöðvar um land allt verða virkjaðar um og eftir miðnætti.
Aðgerðarstjórn almannavarna á Vestfjörðum hefur verið virkjuð og beinir því til íbúa að mjög slæm veðurspá er fyrir svæðið í nótt og fram eftir degi á morgun, mánudag. Gera má ráð fyrir versta óveðrinu frá kl. 4.00 í fyrramálið og fram undir hádegi.
Ef veðurspáin gengur eftir verður ekkert ferðaveður á svæðinu, fjallvegir verða lokaðir og svo og leiðir milli byggðakjarna. Búast má við að færð innanbæjar, víðast hvar, verði jafnframt mjög þung og götur að mestu ófærar, utan stofnbrauta, sem reynt verður að halda opnum eftir megni.
Flateyrarvegi og veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur verður lokað ekki seinna en á miðnætti í kvöld, af öryggisástæðum.
Eru íbúar því hvattir til að vera sem minnst á ferðinni á meðan veðrið gengur yfir.
Hægt er að fylgjast með framvindu veðursins á vef Veðurstofu Íslands, vegum og lokunum hjá Vegagerðinni og sömuleiðis ölduhæð.
Þetta óveður gengur hratt yfir og mikilvægt er fyrir okkur öll að bíða það af okkur.
 
Við hvetjum foreldra til að halda skólabörnum heima á morgun ef það getur. Lágmarksmönnun verður hjá okkur hér í skólanum og skólastarf óhefðbundið. Við biðjum foreldra að skrá nemendur fjarverandi í Mentor svo við getum haldið betur utan um skipulagið.