Frístund óbreytt á næsta skólaári
Í haust var send út könnun til foreldra barna í 1.-4. bekk í Grunnskólanum á Ísafirði varðandi ýmislegt tengt skólaumhverfi barnanna. Þar var m.a. spurt út í afstöðu foreldra til Frístundar en í haust hefst tíundi veturinn sem hún er samþætt skólastarfi Grunnskólans á Ísafirði. Frístundin snýst um að flétta íþróttir og tómstundastarf meira inn í skóladaginn og að jafna aðgengi barna að tómstundastarfi. Frístundin hefur þróast úr því að vera starfrækt á miðjum skóladegi yfir í að hafa hana í lok skóladags, eins og fyrirkomulagið er núna. Það er öllum hollt að staldra við og athuga hvort ánægja sé með ákveðið fyrirkomulag og því var ákveðið að kanna hug foreldra gagnvart Frístundinni. Niðurstöðurnar voru frekar afgerandi. Þegar foreldrar voru spurðir hvernig þeim líkaði við Frístundina svöruðu 88%, af þeim 68 sem tóku afstöðu, að þeim líkaði mjög vel eða frekar vel við hana. Foreldrar voru einnig spurðir hvort þeir vildu halda áfram með núverandi fyrirkomulag á Frístund og svöruðu 82% af þeim játandi.
Við teljum mikilvægt að kalla eftir skoðunum foreldra þegar kemur að skóla- og frístundastarfi og virða þær. Því hefur skóla- og tómstundasvið í samvinnu við skólastjórnendur og forstöðumann Frístundar ákveðið að halda núverandi fyrirkomulagi á næsta skólaári.
Deila