ÞOTA – þemanám og tilraunakennd alvara í 8. HS
Í 8. HS er verið að vinna með samþættingu námsgreina. Við erum með svokallaða þotutíma þar sem við höfum 12 kennslustundir á viku til að taka fyrir þemu úr náttúrufræði, samfélagsfræði, íslensku, lífsleikni og upplýsingatækni og sökkva sér niður í þau af miklum krafti í stuttan tíma áður en haldið er í næsta. Við höfum því 12 kennslustundir á viku í þemavinnu. Þetta fyrirkomulag gefur okkur kennurunum tækifæri til að kafa mun dýpra og á annan hátt í viðfangsefni með krökkunum en hefðbundin stundatafla býður uppá
Í síðustu viku var 70% nemenda í 8. bekk GÍ í leyfi vegna ferðar tilvonandi fermingarbarna í Ísafjarðarkirkju í Vatnaskóg. Það fylgir því augljóslega töluverð röskun fyrir skólastarfið þegar svo stór hluti nemendanna er ekki í skólanum en því geta líka fylgt ákveðin tækifæri. Það er til dæmis mun auðveldara fyrir 10 nemendur að ná samkomulagi heldur en 34.
Við hófum vikuna á mánudagsmorgni með því að setjast saman og spjalla um hvernig nemendur vildu hafa vikuna. Slíkar hópumræður með nemendum eru mikilvægur hluti af skólastarfinu, nemendur þurfa að segja sína skoðun, ræða hana við félaga sína, hlusta á tillögur annarra og jafnvel gagnrýni á sínar eigin tillögur. Við æfum okkur að tala saman af virðingu og gefa öllum tækifæri til að tjá sig. Tillögurnar sem nemendur komu með þennan mánudagsmorgunn voru eftirfarandi, og komu fram í þessari röð:
Tína ber
Sjósund
Fótbolti
Körfubolti
Stólaleikir
Spjalltímar
Eltingaleikur
Handbolti
Skotboltaleikir
I-pad
Hvíld
Veiða
Taka myndir
Kajak
Horfa á eitthvað
Veðrið lék við okkur þessa vikuna og svo heppilega vildi til að við gátum með hraði útvegað 10 veiðistangir. Við héldum því niður á bryggju í blíðunni og renndum fyrir ufsakríli. Sumir höfðu aldrei snert á veiðistöng fyrr á meðan aðrir hafa mikla reynslu. Það var gaman að sjá þá reyndari hjálpa nýliðunum og fyrr en varði voru allir komnir á fullt. Að deila reynslu sinni, hjálpa öðrum og þiggja hjálp eru einmitt eiginleikar sem við viljum að krakkarnir tileinki sér. Það komu margir fiskar á land og bryggjukötturinn naut góðs af!
Á þriðjudeginum byrjuðu krakkarnir í íþróttum og svo hittumst við úti til að kryfja fisk, krakkarnir voru með teikningu af innyflum fiska og báru saman við það sem þeir sáu og fundu í raunverulegum fiski, lyktin var vond (enda ufsi) en áhugavert að sjá að jafnvel í svona litlum fiski var allt að finna sem þar átti að vera. Við lok grunnskóla eiga nemendur að geta gert grein fyrir eigin athugunum á lífverum, hegðun þeirra og búsvæðum og var þessi litla skoðun liður í að öðlast þá hæfni.
Rétt fyrir hádegið fórum við og heimsóttum Kára í fiskbúðinni og hann sýndi okkur ýmsar fiskitegundir og svaraði ótal spurningum nemenda. Í náttúrufræðihluta Aðalnámskrár grunnskóla segir einmitt að nám í náttúrugreinum eigi að snúast um að viðhalda og efla forvitni og áhuga nemenda á sjálfum sér, umhverfi sínu og fyrirbærum náttúrunnar.
Á miðvikudagsmorgni hittumst við í fjörunni fyrir neðan Fjarðarstrætið og skelltum okkur í sjósund. Samfélagsgreinar eiga að efla hæfni nemenda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra, þær eiga að hjálpa nemendum að átta sig á sjálfum sér og dýpka og víkka út reynsluheim nemenda. Í þessari stuttu sundferð stigu margir langt út fyrir sinn þægindaramma og litlir sigrar unnust við mikla gleði. Krakkarnir hvöttu hvern annan og studdu og aðstoðuðu þegar á þurfti að halda.
Fimmtudagurinn var öllu rólegri en dagarnir á undan, við nutum þess að horfa á náttúrulífsþátt með David Attenborough en það er einmitt líka í námskránni að nemendur öðlist færni í að meðtaka upplýsingar úr töluðu máli á erlendum tungumálum.
Það má svo ekki gleyma því að til þess að svona sprell nýtist nemendum sem best til náms þarf að ræða saman, hvað lærðu nemendur í vikunni? Hvernig gekk? Hvað fannst þér skemmtilegast? Erfiðast? Hvað myndir þú vilja gera aftur? Hvað myndir þú vilja gera öðruvísi? Hvað finnst þér þú hafa lært um sjálfan þig? Hvað finnst þér þú hafa lært um samskipti? Og svo framvegis.
Greining hópsins var að þau kynntust betur, þeim fannst gaman, þau þorðu að taka áhættu, þau þurftu að hjálpast að og biðja aðra um hjálp og það var ekkert erfitt því allir vildu að öllum hinum liði líka vel. Síðast en ekki síst langar þau að fara oftar að veiða og í sjósund! - Harpa & Salome, umsjónarkennarar.
Deila