VALMYND ×

Unnið eftir uppskriftum

Í heimilisfræðinni hafa nemendur í gegnum tíðina unnið eftir nokkuð nákvæmum uppskriftum, enda kveður eitt hæfniviðmið greinarinnar á um það að nemendur geti unnið eftir uppskrift. En námskráin býður upp á ýmislegt annað eins og til dæmis að virkja frumkvæði nemenda, að nemendur þjálfist í góðri samvinnu og síðan er áherslan á sköpun alltaf að verða fyrirferðarmeiri.

Í vetur höfum við verið með verkefni í heimilisfræðinni í 7. bekk og allt upp í 10. bekk þar sem nemendur geta svo sannarlega látið reyna á þessa þætti. Í gær var til dæmis tími hjá 7. bekk þar sem nemendur áttu að búa til pastarétt. Þeim var skipt upp í tveggja og þriggja manna hópa og þurftu að koma sér saman um hvaða hráefni þeir vildu nota, en kennarinn hafði tekið það fram. Eftir að nemendur höfðu fengið stutta kynningu og leiðbeiningar um gerð pastarétta afgreiddi Guðlaug Jónsdóttir, kennari,  þau með hráefnið og síðan var bara byrjað að elda. Árangurinn var frábær! Vinnugleðin var allsráðandi, frumkvæðið ótrúlega mikið og pastaréttirnir smökkuðust afar vel.

Kennarar og nemendur eru sammála um að svona tímar séu afar gagnlegir, ekki síst við að kveikja áhuga og metnað nemenda.

Deila