VALMYND ×

Fréttir

Valgreinar næsta vetur

Í gær fengu nemendur 7., 8. og 9. bekkjar kynningu á valgreinum næsta vetur og eiga að skila valblöðum í síðasta lagi 16.maí. Í dag koma nemendur 4., 5. og 6. bekkjar einnig með blöð heim og biðjum við foreldra um að hjálpa þeim að velja út frá áhugasviði hvers og eins. 

Allar nánari upplýsingar varðandi valgreinar næsta vetrar má nálgast hér https://grisa.isafjordur.is/namid/valgreinar_/

Úrslit í Skólahreysti

Krakkarnir okkar stóðu sig vel í Skólahreystinni í dag og höfnuðu í 5. sæti í sínum riðli. Við erum stolt af hópnum og óskum þeim góðrar heimferðar.

Keppni í Skólahreysti í dag

Í dag keppa nemendur G.Í. í undankeppni Skólahreysti í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Í liði skólans eru þau Aníta Ólöf Smáradóttir, Dagný Emma Kristinsdóttir, Eyþór Freyr Árnason, Hugi Lúthersson, Patrik Duda og Svala Katrín Birkisdóttir. Liðsstjóri er Axel Sveinsson íþróttakennari, sem hefur ásamt Árna Heiðari Ívarssyni þjálfað nemendur í vetur. Keppnin er sýnd beint á RÚV kl. 14:00 og hvetjum við alla til að fylgjast með. Við óskum hópnum okkar góðs gengis og segjum ÁFRAM G.Í.

Litla upplestrarkeppnin

Í morgun fór Litla upplestrarkeppnin fram í 4.bekk, en undirbúningur hefur staðið yfir síðustu mánuði, þar sem lögð hefur verið rækt við vandaðan upplestur og framburð. Í raun má segja að um uppskeruhátíð sé að ræða fremur en keppni, þar sem allir nemendur árgangsins stigu á stokk og fluttu ljóð og texta fyrir foreldra og nemendur 3. bekkjar, auk þess sem þeir sungu og spiluðu á píanó. Birnir Snær Heiðarsson úr 7.bekk las einnig textabrot fyrir áheyrendur, en hann tók þátt í Stóru upplestrarkeppninni fyrr í vetur og stóð sig mjög vel og er því góð fyrirmynd fyrir yngri nemendur. 

Nemendur stóðu sig allir með mikilli prýði og að dagskrá lokinni var boðið upp á djús og kökur úti í porti og auðvitað tók sólin þátt í gleðinni og þakkaði krökkunum fyrir góða frammistöðu.

Vordagskráin

Nú er vordagskráin klár og gott að hafa hana til hliðsjónar næstu vikurnar. Umsjónarkennarar láta svo vita af nánari útfærslum.

Öryggishjálmar í 1.bekk

Í morgun kom Gunnlaugur Gunnlaugsson fyrir hönd Kiwanisklúbbsins Bása hér á Ísafirði og færði öllum 1. bekkingum, alls 40 krökkum, öryggishjálma að gjöf. Þetta hafa Kiwanismenn gert undanfarin 30 ár eða svo og þökkum við þeim kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Um leið minnum við alla á nauðsyn hjálmanotkunar, hvort heldur er á reiðhjólum, hlaupahjólum eða hvers kyns öðrum hjólum.

Íslandsmót barnaskólasveita í skák

Laugardaginn 22.apríl s.l. var Íslandsmót barnaskólasveita í skák haldið í Rimaskóla í Reykjavík. Grunnskólinn á Ísafirði sendi lið í yngri flokki þ.e. í flokki 4. - 7. bekkjar og er það í fyrsta skipti sem við tökum þátt að við best munum. Alls mætti 31 sveit til leiks og óvenju margar af landsbyggðinni.

Fyrir hönd skólans kepptu þau Karma Halldórsson, Nirvaan Halldórsson, Svaha Halldórsdóttir og Stígur Aðalsteinn Arnórsson. Þau stóðu sig öll með stakri prýði og enduðu í 19.-20. sæti og voru nærri því að tryggja sér verðlaunasæti sem eitt af þremur hæstu landsbyggðarliðunum. Við erum virkilega stolt og þakklát fyrir að hafa getað sent lið á mótið og þökkum þessum nemendum fyrir þátttökuna, svo og liðsstjóranum Halldóri Bjarkasyni fyrir utanumhaldið. 

Síðasti vetrardagur

Veturinn kveður okkur í dag með mildu vorveðri. Á morgun, sumardaginn fyrsta, er lögbundinn frídagur og margir á faraldsfæti. Í dag voru um 70 nemendur fjarverandi, sem einkennist einna helst af Andrésar andar leikunum á Akureyri. Við óskum þeim öllum góðrar ferðar og góðs gengis, svo og öðrum ferðalöngum.

Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Í gamalli vísu segir ,,Harpa vekur von og kæti, vingjarnleg og kvik á fæti". Það á svo sannarlega við þessa dagana og vonum við að svo verði áfram. Gleðilegt sumar!