VALMYND ×

Fréttir

Skólasetning

Skólasetning G.Í. verður mánudaginn 21. ágúst 2023 í sal skólans og mæta nemendur sem hér segir:

Kl. 9:00      8., 9. og 10. bekkur

Kl. 9:30     5., 6. og 7.bekkur

Kl. 10:00     2., 3. og 4. bekkur

Nemendur í 1. bekk verða boðaðir sérstaklega ásamt foreldrum í viðtöl til umsjónarkennara. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. ágúst hjá öllum nemendum.

Við vekjum athygli á því fyrir nýja bæjarbúa og þá sem eru að skrá börn sín í fyrsta skipti í grunnskóla, að Ísafjarðarbær útvegar grunnskólanemendum sínum ritföng og námsgögn endurgjaldslaust.

Við hlökkum til komandi skólaárs, samstarfsins við nemendur, foreldra og aðra í skólasamfélaginu.

Grænmetisræktun

Í haust var hleypt af stokkunum nýju heimilisfræðitengdu vali á miðstigi sem kallast Ræktun, íslenskur matur og menning. Í þessum tímum fást nemendur við hin ýmsu verkefni sem tengjast ræktun, uppskeru og meðhöndlun hráefnis undir stjórn Guðlaugar Jónsdóttur heimilisfræðikennara. Fjórir hópar skiptu með sér skólaárinu og voru verkefni þeirra breytileg eftir árstíma. Hausthópurinn kom eðlilega mest að uppskerunni, þar sem nemendur útbjuggu til dæmis rétti úr grænkáli, sveppum, rabarbara og aðalbláberjum. Strax eftir áramót voru fyrstu fræin sett í mold og fram á vorið voru nemendur reglulega að sá fyrir hinum ýmsu plöntum á milli þess sem þeir bökuðu eða útbjuggu eitthvað í eldhúsinu.

Komið var upp plöntuljósum í heimilisfræðistofunni, sem eru afar gagnleg við plöntuuppeldi. Þegar plönturnar höfðu komist þokkalega á legg fóru nemendur með flestar heim, en hluti þeirra var ætlaður fimmta bekk til að gróðursetja við skólann í vor. Gróðursetningin gekk vel. Nemendur stungu upp moldina í gróðurkerjunum og settu niður allskonar salat, kryddjurtir og sumarblóm. Yfir kerin voru settir plastbogar með gróðurdúk yfir og nú er búið að setja á þau skilti, unnin af nemendum, þar sem sjá má heiti plantnanna á íslensku og latínu.

Að sögn Guðlaugar hafa þessir tímar verið afskaplega gefandi og skemmtilegir. Flestir eða hreinlega allir krakkar hafa gaman að því að rækta plöntur, það er eitthvað mannbætandi við að sjá þær vaxa og dafna - líkt og nemendurna sjálfa! Svo er ómetanlegt fyrir kennara að fá frelsi til að vinna við áhugamál sín, bætir hún við.

Skólanum slitið í 149. skiptið

Í gærkvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 149. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Guðbjörg Halla Magnadóttir, deildarstjóri unglingastigs setti athöfnina, en að því loknu tóku kynnar við, þau Helena Stefánsdóttir og Páll Helgi Ingvarsson, nemendur í 9.bekk.

Kristján Arnar Ingason, skólastjóri, flutti sitt fyrsta ávarp sem skólastjóri og að því loknu fluttu Hjálmar Helgi Jakobsson og Saga Eyþórsdóttir ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Útskriftarnemendurnir Guðríður Vala Atladóttir og Unnur Hafdís Arnþórsdóttir, léku saman fjórhent á píanó lagið Slipping through my fingers eftir þá félaga Björn Ulvaeus og Benny Anderson, í útsetningu Vilbergs Viggóssonar.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Einar Orri Einarsson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Natalia Maria Nieduzak hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt og  framúrskarandi árangur í heimilisfræði hlaut Rósa María Magnúsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Emma Katrín Tumadóttir.

Stöðin Heilsurækt gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Guðjón Ólafur Stefánsson og Svala Katrín Birkisdóttir.

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir og hlaut Unnur Hafdís Arnþórsdóttir hana.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf tvær viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku. Þau verðlaun hlutu þær Anna María Ragnarsdóttir og María Sigurðardóttir.

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir frumkvæði, ábyrgð og áreiðanleika í tækniráð hlutu Bóas Emil Þórðarson og Hjálmar Helgi Jakobsson.

Viðurkenningar fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði og náttúrufræði hlaut Rósa María Magnúsdóttir.

Viðurkenningur fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Agla Vigdís Atladóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Unnur Hafdís Arnþórsdóttir .

Viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlutu Anna María Ragnarsdóttir og Brynhildur Laila Súnadóttir.

Auk framangreindra viðurkenninga gaf skólinn öllum nemendum smá glaðning í formi gjafabréfs fyrir félagsstörf í vetur.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2007 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Skólaslit

Í dag er síðasti kennsludagur þessa skólaárs og alltaf jafn ótrúlegt hvað tíminn æðir áfram.

Á morgun, miðvikudag, er starfsdagur án nemenda.

Á fimmtudaginn, skólaslitadag, er dagskráin eftirfarandi:

kl. 10:00 skólaslit hjá 2. -7. bekk í sínum bekkjarstofum

kl. 20:00 skólaslit hjá 8. - 10. bekk í Ísafjarðarkirkju

Nemendur 1.bekkjar eru boðaðir í viðtöl ásamt forráðamönnum umsjónarkennara.

Vorskóli verðandi 1. bekkjar er þennan sama dag, 8.júní kl. 13:00. Þá mæta börn sem fædd eru árið 2017, ásamt forráðamönnum, í aðalanddyrið hjá ritara. Þar verða þau kynnt fyrir kennurum og skólastjórnendum og sitja svo eina kennslustund í nýja skólanum sínum. Á meðan fá forráðamenn stutta kynningu á skólanum, frístund, dægradvöl og HSV.  

Krakkar út kátir hoppa..

1 af 4

Náttúru- og umhverfisvitundin er í hámarki þessa dagana og má sjá nemendur skólans út um víðan völl. Verkefnin er fjölbreytt og skemmtileg og ekki skemmir veðrið fyrir.

Í dag voru vinabekkirnir í 1. og 8. bekk saman úti að leika sér, 2. bekkur fór í fjöruferð, 3. bekkur í gönguferð, 4. bekkur las í skóginn í útinámi og 9. bekkur fór í hjólaferð út í Hnífsdal. 

Á morgun er svo síðasti formlegi skóladagur skólaársins, starfsdagur á miðvikudaginn og skólaslit á fimmtudag.

Seinni leikjadagur

1 af 4

Í dag var komið að mið- og unglingastigi að njóta lífsins á leikjadegi á Torfnesi. Nemendur fóru á fjölbreyttar stöðvar með alls kyns hreyfingu og létu rigningarsudda ekkert á sig fá.

 

Leikjadagur, líf og kæti

1 af 3

Í dag var leikjadagur á yngsta stigi þar sem nemendur 1. - 4. bekkjar skunduðu á Torfnes og brugðu á leik. Farið var á fjórar stöðvar, þ.e. bandý, boltafjör, hlaupaleiki og hringleiki og aðstoðaði 10.bekkur við skipulagið. Veðrið var milt og gott og hitastigið jafnvel hærra en útlánsvextir - það er varla hægt að biðja um meira!

7.bekkur brá sér í Tungudal og gróðursetti birkiplöntur í samstarfi við Yrkjusjóð og Skógræktarfélag Ísafjarðar. Að því loknu bauð Golfklúbbur Ísafjarðar nemendum upp á pylsur og safa að eftir skemmtilegan tíma á æfingasvæðinu og púttsvæðinu og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

8.bekkur naut einnig blíðviðrisins í dag. Hópurinn hjólaði út í Seljadal á Óshlíð, gekk upp dalinn og hjólaði svo til baka með bros á vör. Samtals var hjólað 15 km og fjallgangan tók 1,5 klst. Vel gert!

Á morgun er svo leikjadagur hjá 5. - 10. bekk á Torfnesi.

Heimsókn í Arnarfjörð

8. bekkur er búinn að vera að læra um 19. öldina og sjálfstæði Íslendinga núna á vordögum og lauk þeirri yfirferð með heimsókn á Hrafnseyri þar sem Ingi Björn Guðnason tók vel á móti hópnum og fræddi nemendur frekar um Jón Sigurðsson. Þegar í Arnarfjörðinn var komið var ekki hægt að láta Dynjanda framhjá sér fara og skokkuðu nemendur léttfættir upp að þessum fagra fossi og stolti Vestfjarða.

Í morgun tók svo 7.bekkur á móti verðandi vinabekk sínum á Tanga, þ.e. verðandi 1.bekk, en þessir tveir árgangar verða vinabekkir næstu þrjú árin. Nemendur kynntust í gegnum leik á skólalóðinni og nutu samverunnar.

Náttúran í aðalhlutverki

4.bekkur fór í hjólaferð í Hnífsdal
4.bekkur fór í hjólaferð í Hnífsdal
1 af 6

Þessa dagana er náttúran í aðalhlutverki í skólastarfinu, þar sem nemendur og starfsfólk hafa notið útiveru eins og kostur er. Tækifærin eru víða í nærumhverfinu til að beina sjónum nemenda að samspili manns og náttúru og kenna þeim að umgangast hana af mikilli gát og virðingu.

Sumarlestur

Sumarlestur barnanna verður haldinn líkt og síðustu ár á Bókasafninu Ísafirði og er hann hugsaður fyrir börn í 1.-6. bekk.
Sumarlesturinn 2023 verður haldinn á tímabilinu 31. maí til 19. ágúst en laugardaginn 26. ágúst verður haldin uppskeruhátíð þar sem fagnað verður þeim árangri sem náðist í lestri þetta sumarið. Geta má þess að sumarlesturinn er með breyttu sniði þetta sumarið. Barnið tekur þátt í sumarlestrinum með því að fara á bókasafnið með bókasafnsskírteinið sitt,* taka bók þar að láni og fá myndskreytt veggspjald afhent, en það er kortið Leitin að ævintýraheimum. Kortið mun leiða það um ólíka heima barnabóka þar sem spenna, grín og skemmtilegar uppgötvanir verða á lestrarvegi þess. Barnið mun vonandi upplifa eitthvað nýtt og spennandi í leiðinni.
Þegar bók er skilað fær barnið límmiða á veggspjaldið/kortið og í leiðinni bætist inn mynd á kortið. Einnig er lukkumiðahappdrætti og gildir einn miði fyrir hverja lesna bók. Yfir sumarið mun verða dregið fjórum sinnum úr lukkupottinum og á uppskeruhátíð fá öll börn sem tekið hafa þátt, glaðning og dregið verður í happdrætti.
Við hvetjum foreldra til að koma með börnunum á safnið og veita þeim stuðning ef á þarf að halda.

*Ef börn eiga ekki skírteini hjá Bókasafninu eru foreldrar beðnir um að koma með börnunum í bókasafnið til að fá skírteini. Fyrsta skírteini er ókeypis.
Sumarkveðja,
starfsfólk Bókasafnsins