VALMYND ×

Opinn fullveldisdagur og Íslandsmet í samsöng

Á morgun þann 1.desember fagna Íslendingar fullveldi sínu sem þeir hlutu árið 1918. Af því tilefni hefur skapast sú hefð hér í skólanum að  mæta í betri fötunum og hvetjum við alla sem vilja til að taka þátt í því.

Einnig er svokallaður opinn dagur hjá okkur, en þá bjóðum við foreldrum og öðrum velunnurum sérstaklega í heimsókn til að kíkja á nemendur í leik og starfi. Boðið verður upp á kaffi og piparkökur á kaffistofu starfsmanna og hlökkum við mikið til heimsóknanna. 

Þennan dag er einnig Dagur íslenskrar tónlistar með hátíðardagskrá í Hörpu í Reykjavík. Gerð verður atlaga að Íslandsmeti í samsöng, þar sem nemendur leik- og grunnskóla um allt land ætla að syngja saman eitt lag á sama tíma. Allir nemendur og starfsmenn G.Í. ætla að taka þátt í þeim viðburði og mæta út á Silfurtorg og taka lagið kl. 10:05. Gestir eru að sjálfsögðu velkomnir með okkur. Lagið sem sungið verður er ,,Það vantar spýtur" eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem Olga Guðrún Árnadóttir flutti á sínum tíma, en hún fagnaði 70 ára afmæli sínu í ár. Undirleikur verður í gegnum netið, en systkinin í hljómsveitinni Celebs frá Suðureyri sjá um hann af sinni alkunnu snilld.

Deila