VALMYND ×

Fréttir

Krakkar út kátir hoppa..

1 af 4

Náttúru- og umhverfisvitundin er í hámarki þessa dagana og má sjá nemendur skólans út um víðan völl. Verkefnin er fjölbreytt og skemmtileg og ekki skemmir veðrið fyrir.

Í dag voru vinabekkirnir í 1. og 8. bekk saman úti að leika sér, 2. bekkur fór í fjöruferð, 3. bekkur í gönguferð, 4. bekkur las í skóginn í útinámi og 9. bekkur fór í hjólaferð út í Hnífsdal. 

Á morgun er svo síðasti formlegi skóladagur skólaársins, starfsdagur á miðvikudaginn og skólaslit á fimmtudag.

Seinni leikjadagur

1 af 4

Í dag var komið að mið- og unglingastigi að njóta lífsins á leikjadegi á Torfnesi. Nemendur fóru á fjölbreyttar stöðvar með alls kyns hreyfingu og létu rigningarsudda ekkert á sig fá.

 

Leikjadagur, líf og kæti

1 af 3

Í dag var leikjadagur á yngsta stigi þar sem nemendur 1. - 4. bekkjar skunduðu á Torfnes og brugðu á leik. Farið var á fjórar stöðvar, þ.e. bandý, boltafjör, hlaupaleiki og hringleiki og aðstoðaði 10.bekkur við skipulagið. Veðrið var milt og gott og hitastigið jafnvel hærra en útlánsvextir - það er varla hægt að biðja um meira!

7.bekkur brá sér í Tungudal og gróðursetti birkiplöntur í samstarfi við Yrkjusjóð og Skógræktarfélag Ísafjarðar. Að því loknu bauð Golfklúbbur Ísafjarðar nemendum upp á pylsur og safa að eftir skemmtilegan tíma á æfingasvæðinu og púttsvæðinu og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

8.bekkur naut einnig blíðviðrisins í dag. Hópurinn hjólaði út í Seljadal á Óshlíð, gekk upp dalinn og hjólaði svo til baka með bros á vör. Samtals var hjólað 15 km og fjallgangan tók 1,5 klst. Vel gert!

Á morgun er svo leikjadagur hjá 5. - 10. bekk á Torfnesi.

Heimsókn í Arnarfjörð

8. bekkur er búinn að vera að læra um 19. öldina og sjálfstæði Íslendinga núna á vordögum og lauk þeirri yfirferð með heimsókn á Hrafnseyri þar sem Ingi Björn Guðnason tók vel á móti hópnum og fræddi nemendur frekar um Jón Sigurðsson. Þegar í Arnarfjörðinn var komið var ekki hægt að láta Dynjanda framhjá sér fara og skokkuðu nemendur léttfættir upp að þessum fagra fossi og stolti Vestfjarða.

Í morgun tók svo 7.bekkur á móti verðandi vinabekk sínum á Tanga, þ.e. verðandi 1.bekk, en þessir tveir árgangar verða vinabekkir næstu þrjú árin. Nemendur kynntust í gegnum leik á skólalóðinni og nutu samverunnar.

Náttúran í aðalhlutverki

4.bekkur fór í hjólaferð í Hnífsdal
4.bekkur fór í hjólaferð í Hnífsdal
1 af 6

Þessa dagana er náttúran í aðalhlutverki í skólastarfinu, þar sem nemendur og starfsfólk hafa notið útiveru eins og kostur er. Tækifærin eru víða í nærumhverfinu til að beina sjónum nemenda að samspili manns og náttúru og kenna þeim að umgangast hana af mikilli gát og virðingu.

Sumarlestur

Sumarlestur barnanna verður haldinn líkt og síðustu ár á Bókasafninu Ísafirði og er hann hugsaður fyrir börn í 1.-6. bekk.
Sumarlesturinn 2023 verður haldinn á tímabilinu 31. maí til 19. ágúst en laugardaginn 26. ágúst verður haldin uppskeruhátíð þar sem fagnað verður þeim árangri sem náðist í lestri þetta sumarið. Geta má þess að sumarlesturinn er með breyttu sniði þetta sumarið. Barnið tekur þátt í sumarlestrinum með því að fara á bókasafnið með bókasafnsskírteinið sitt,* taka bók þar að láni og fá myndskreytt veggspjald afhent, en það er kortið Leitin að ævintýraheimum. Kortið mun leiða það um ólíka heima barnabóka þar sem spenna, grín og skemmtilegar uppgötvanir verða á lestrarvegi þess. Barnið mun vonandi upplifa eitthvað nýtt og spennandi í leiðinni.
Þegar bók er skilað fær barnið límmiða á veggspjaldið/kortið og í leiðinni bætist inn mynd á kortið. Einnig er lukkumiðahappdrætti og gildir einn miði fyrir hverja lesna bók. Yfir sumarið mun verða dregið fjórum sinnum úr lukkupottinum og á uppskeruhátíð fá öll börn sem tekið hafa þátt, glaðning og dregið verður í happdrætti.
Við hvetjum foreldra til að koma með börnunum á safnið og veita þeim stuðning ef á þarf að halda.

*Ef börn eiga ekki skírteini hjá Bókasafninu eru foreldrar beðnir um að koma með börnunum í bókasafnið til að fá skírteini. Fyrsta skírteini er ókeypis.
Sumarkveðja,
starfsfólk Bókasafnsins

Leiksýning fyrir 1. - 5. bekk

Í dag var nemendum 1. - 5. bekkjar boðið upp á leiksýningu í sal skólans. Þar var á ferðinni sjálfstæður leikhópur á aldrinum 8 - 14 ára frá Ingarö í Svíþjóð sem bauð nemendum upp í ferðalag um hinn stórkostlega sagnasjóð Astrid Lindgren, með söng dans og sýnishornum úr ýmsum verkum hennar. Meðal annarra mátti sjá Línu Langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur, Rasmus og fleiri. 

Nemendur nutu sýningarinnar og þökkum við kærlega fyrir þessa skemmtilegu heimsókn.

Háskólalestin í heimsókn

Á 100 ára afmæli Háskóla Íslands árið 2011 var tímamótunum fagnað víða um land með svokallaðri Háskólalest, til að kynna fjölþætta starfsemi skólans. Síðan þá hefur lestin ferðast um landið og er nú væntanleg á Ísafjörð á föstudag og laugardag. Föstudaginn 19.maí verður hún hér í skólanum og býður nemendum unglingastigs upp á fjölbreyttar smiðjur tækni og vísinda.
Laugardaginn 20. maí er svo opið hús hér í salnum okkar, þar sem Háskólalestin býður upp á fjör og fræði fyrir alla fjölskylduna frá kl. 10:00 - 13:30. Við hvetjum alla til að líta við og taka þátt í skemmtilegri dagskrá. 

Náttúrudagur

4.bekkur skoðaði brum og trjátegundir uppi í Stórurð
4.bekkur skoðaði brum og trjátegundir uppi í Stórurð
1 af 6

Í dag var náttúrudagur hjá 1. - 9. bekk, þar sem nemendur fóru í fjölbreytt verkefni allt frá fjöru til fjalls. Við létum ekki fáeinar hitagráður stöðva okkur, en hitamælar sýndu 3 gráður í upphafi dags, en voru orðnar 7 um hádegið og voru þær allar vel nýttar! Í hádeginu var svo öllum nemendum boðið upp á pylsur með öllu.

Skólaferðalag 10.bekkjar

Í morgun hélt 10. bekkur í skólaferðalag og er ferðinni heitið að Bakkaflöt í Skagafirði, líkt og gert hefur verið hin síðustu ár. Næstu daga mun hópurinn njóta þess sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða og fara í flúðasiglingar, loftbolta, klettaklifur, kayakferðir, sund og fleira. Heimkoma er áætluð á fimmtudag.