VALMYND ×

Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíðin Púkinn stendur nú sem hæst, en hún er ætluð öllum grunnskólabörnum á Vestfjörðum og er sú fyrsta sinnar tegundar á svæðinu. Á hátíðinni er boðið upp á ýmsa viðburði inni í skólum og er þema hátíðarinnar sögur og munu öll börn á svæðinu skrifa sögu um eitthvað sem á daga þeirra dreif nýliðið sumar.

Misjafnt er hvað boðið verður upp á á ólíkum stöðum og á mismunandi skólastigum, en kapp lagt á að eitthvað verði í boði fyrir alla. Nefna má ritlistarsmiðjur, gervigreindar-listasmiðjur, kvikmyndagerðarnámskeið og grímugerð. Hátíðinni lýkur 22. september og verða þá lokahátíðir á Ísafirði, Patreksfirði, Ströndum og í Bolungarvík.

Dansarinn Sigríður Soffía Níelsdóttir kom í heimsókn til okkar í vikunni og kenndi nemendum miðstigs dansspor hátíðarinnar og bauð unglingunum upp á danssýninguna Eldblóm. Í dag og á morgun fá nemendur unglingastigs námskeið í gervigreind, með áherslu á gervigreindina í MidJourney þar sem þátttakendur fara í ferðalag sem eykur sköpunargáfu, ögrar ímyndunarafli og valdeflir þá til að skapa list sem er handan hins hefðbundna. 

Nánari upplýsingar um barnamenningarhátíðina má finna á heimasíðu hennar 

Deila