Grænmetisræktun
Í haust var hleypt af stokkunum nýju heimilisfræðitengdu vali á miðstigi sem kallast Ræktun, íslenskur matur og menning. Í þessum tímum fást nemendur við hin ýmsu verkefni sem tengjast ræktun, uppskeru og meðhöndlun hráefnis undir stjórn Guðlaugar Jónsdóttur heimilisfræðikennara. Fjórir hópar skiptu með sér skólaárinu og voru verkefni þeirra breytileg eftir árstíma. Hausthópurinn kom eðlilega mest að uppskerunni, þar sem nemendur útbjuggu til dæmis rétti úr grænkáli, sveppum, rabarbara og aðalbláberjum. Strax eftir áramót voru fyrstu fræin sett í mold og fram á vorið voru nemendur reglulega að sá fyrir hinum ýmsu plöntum á milli þess sem þeir bökuðu eða útbjuggu eitthvað í eldhúsinu.
Komið var upp plöntuljósum í heimilisfræðistofunni, sem eru afar gagnleg við plöntuuppeldi. Þegar plönturnar höfðu komist þokkalega á legg fóru nemendur með flestar heim, en hluti þeirra var ætlaður fimmta bekk til að gróðursetja við skólann í vor. Gróðursetningin gekk vel. Nemendur stungu upp moldina í gróðurkerjunum og settu niður allskonar salat, kryddjurtir og sumarblóm. Yfir kerin voru settir plastbogar með gróðurdúk yfir og nú er búið að setja á þau skilti, unnin af nemendum, þar sem sjá má heiti plantnanna á íslensku og latínu.
Að sögn Guðlaugar hafa þessir tímar verið afskaplega gefandi og skemmtilegir. Flestir eða hreinlega allir krakkar hafa gaman að því að rækta plöntur, það er eitthvað mannbætandi við að sjá þær vaxa og dafna - líkt og nemendurna sjálfa! Svo er ómetanlegt fyrir kennara að fá frelsi til að vinna við áhugamál sín, bætir hún við.
Deila