VALMYND ×

G.Í. hlýtur Íslensku lýðheilsuverðlaunin 2024

Mynd: www.forseti.is
Mynd: www.forseti.is

Í kvöld afhenti forseti Íslands Íslensku lýðheilsuverðlaunin í annað sinn við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum fyrir mikilsvert framlag til eflingar lýðheilsu á Íslandi. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki og afhenti forseti þau. Í flokki starfsheilda varð Grunnskólinn á Ísafirði fyrir valinu fyrir fjallgönguverkefni sitt, sem okkur telst til að hafi verið allt frá árinu 1996 eða 28 ár. Kristján Arnar Ingason tók við verðlaununum, sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra afhenti. Við erum afar stolt af þessum verðlaunum fyrir hönd starfsmanna, nemenda og foreldra, sem margir hverjir hafa verið duglegir að slást í för með okkur í fjallgöngurnar og skipulagt með okkur ferðir 10.bekkjar. 

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst helstu fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur 10.bekkjar hafa siglt yfir í Jökulfirði og gengið þar, gist í tjöldum yfir nótt og komið til baka daginn eftir.

Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla hreyfifærni, samstöðu og félagsþroska nemenda, seiglu og virðingu fyrir umhverfinu.

Til hamingju við öll!

 

 

Deila