Tilnefning til hinna Íslensku lýðheilsuverðlauna
Sex aðilar hafa nú verið tilnefndir til hinna Íslensku lýðheilsuverðlauna, sem forseti Íslands og heilbrigðisráðherra veita nú í annað sinn, á sumardaginn fyrsta. Kallað var eftir hugmyndum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum og hefur dómnefnd tekið þær til umfjöllunar og tilnefnt Grunnskólann á Ísafirði í flokki starfsheilda fyrir fjallgönguverkefni sitt.
Í umsögn um verkefnið segir:
Skólinn hefur í (tæp) 30 ár staðið fyrir fjallgönguverkefni fyrir alla árganga. Á hverju hausti fer hver bekkur í fjallgöngu sem hæfir þeirra getu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf 10. bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu. Þannig hafa nemendur, sem ljúka grunnskóla, gengið á öll helstu fjöll í nágrenni. Ferðirnar eru hugsaðar til þess að nemendur læri frá ungum aldri að njóta þess að ganga á fjöll í góðum félagsskap og kynnist fjölbreyttum möguleikum til útivistar í nærumhverfi sínu.
Við erum afar stolf af tilnefningunni og bíðum spennt eftir úrslitum sem verða tilkynnt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á morgun, sumardaginn fyrsta. Sjónvarpað verður frá athöfninni kl. 19:40 á RÚV.
Deila