VALMYND ×

Fréttir

Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíðin Púkinn stendur nú sem hæst, en hún er ætluð öllum grunnskólabörnum á Vestfjörðum og er sú fyrsta sinnar tegundar á svæðinu. Á hátíðinni er boðið upp á ýmsa viðburði inni í skólum og er þema hátíðarinnar sögur og munu öll börn á svæðinu skrifa sögu um eitthvað sem á daga þeirra dreif nýliðið sumar.

Misjafnt er hvað boðið verður upp á á ólíkum stöðum og á mismunandi skólastigum, en kapp lagt á að eitthvað verði í boði fyrir alla. Nefna má ritlistarsmiðjur, gervigreindar-listasmiðjur, kvikmyndagerðarnámskeið og grímugerð. Hátíðinni lýkur 22. september og verða þá lokahátíðir á Ísafirði, Patreksfirði, Ströndum og í Bolungarvík.

Dansarinn Sigríður Soffía Níelsdóttir kom í heimsókn til okkar í vikunni og kenndi nemendum miðstigs dansspor hátíðarinnar og bauð unglingunum upp á danssýninguna Eldblóm. Í dag og á morgun fá nemendur unglingastigs námskeið í gervigreind, með áherslu á gervigreindina í MidJourney þar sem þátttakendur fara í ferðalag sem eykur sköpunargáfu, ögrar ímyndunarafli og valdeflir þá til að skapa list sem er handan hins hefðbundna. 

Nánari upplýsingar um barnamenningarhátíðina má finna á heimasíðu hennar 

Göngum í skólann

Göngum í skólann 2023 verður sett hátíðlega á morgun, miðvikudaginn 6. september í Helgafellsskóla í Mosfellsbæ. Þetta er í sautjánda sinn sem verkefnið er sett hér á landi. 

Grunnskólinn á Ísafirði ásamt fjölda annarra skóla tekur þátt og hefur þátttakendum fjölgað jafnt og þétt með árunum.Fyrst þegar verkefnið fór af stað árið 2007 tóku 26 skólar þátt og í fyrra voru alls 82 skólar skráðir til þátttöku. 

Við vonum svo sannarlega að nemendur og starfsmenn taki virkan þátt í átakinu, sem stendur til 4.október n.k.

Góð stemning á Reykjum

1 af 2

Það er allt gott að frétta af 7.bekkingum í Skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði. Hópurinn er vel stemmdur og nýtur samverunnar og umhverfisins til hins ýtrasta. Brottför frá Reykjum er kl.17:00 á morgun.

Fjallgöngur að hausti

4.bekkur í Naustahvilft
4.bekkur í Naustahvilft
1 af 5

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur eða gönguferðir. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt.

Næstu daga skunda nemendur upp um fjöll og firnindi en 4. og 8. bekkur nýttu veðurblíðuna í dag til fjallaferða. 4.bekkur gekk upp í Naustahvilft, en 8. bekkur að Nónvatni. 

Nemendur 10.bekkjar sigla á fimmtudaginn í næstu viku (31.ágúst) norður á Hesteyri og ganga þaðan yfir í Aðalvík, þar sem gist verður í tjöldum. Siglt verður heim aftur á föstudeginum. Fleiri árgangar verða á faraldsfæti næstu vikurnar.

Fjallgöngurnar eru ætlaðar til að nemendur fræðist um nærumhverfi sitt og náttúruna, en einnig eru þær mikilvægar til að efla hreyfifærni, samstöðu og félagsþroska nemenda.  

Heilsueflandi samfélag

Ísafjarðarbær er heilsueflandi samfélag þar sem meginmarkmiðið er að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Börn eru þar ekki undanskilin og nauðsynlegt að hvetja þau til daglegrar hreyfingar. 

Við viljum hvetja foreldra yngstu barnanna, einkum þeirra sem eru að hefja skólagöngu í fyrsta sinn, til að ganga eða hjóla með börnum sínum í skólann fyrstu dagana. Mikilvægt er að sýna þeim heppilegustu leiðina og benda þeim á hvaða hættur ber að varast.  Þess utan er hreyfingin holl og góð fyrir alla í fjölskyldunni og stuðlar að auknu öryggi skólabarna með því að minnka umferð í kringum skólann.

Skólasetning

Skólasetning G.Í. verður mánudaginn 21. ágúst 2023 í sal skólans og mæta nemendur sem hér segir:

Kl. 9:00      8., 9. og 10. bekkur

Kl. 9:30     5., 6. og 7.bekkur

Kl. 10:00     2., 3. og 4. bekkur

Nemendur í 1. bekk verða boðaðir sérstaklega ásamt foreldrum í viðtöl til umsjónarkennara. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. ágúst hjá öllum nemendum.

Við vekjum athygli á því fyrir nýja bæjarbúa og þá sem eru að skrá börn sín í fyrsta skipti í grunnskóla, að Ísafjarðarbær útvegar grunnskólanemendum sínum ritföng og námsgögn endurgjaldslaust.

Við hlökkum til komandi skólaárs, samstarfsins við nemendur, foreldra og aðra í skólasamfélaginu.

Grænmetisræktun

Í haust var hleypt af stokkunum nýju heimilisfræðitengdu vali á miðstigi sem kallast Ræktun, íslenskur matur og menning. Í þessum tímum fást nemendur við hin ýmsu verkefni sem tengjast ræktun, uppskeru og meðhöndlun hráefnis undir stjórn Guðlaugar Jónsdóttur heimilisfræðikennara. Fjórir hópar skiptu með sér skólaárinu og voru verkefni þeirra breytileg eftir árstíma. Hausthópurinn kom eðlilega mest að uppskerunni, þar sem nemendur útbjuggu til dæmis rétti úr grænkáli, sveppum, rabarbara og aðalbláberjum. Strax eftir áramót voru fyrstu fræin sett í mold og fram á vorið voru nemendur reglulega að sá fyrir hinum ýmsu plöntum á milli þess sem þeir bökuðu eða útbjuggu eitthvað í eldhúsinu.

Komið var upp plöntuljósum í heimilisfræðistofunni, sem eru afar gagnleg við plöntuuppeldi. Þegar plönturnar höfðu komist þokkalega á legg fóru nemendur með flestar heim, en hluti þeirra var ætlaður fimmta bekk til að gróðursetja við skólann í vor. Gróðursetningin gekk vel. Nemendur stungu upp moldina í gróðurkerjunum og settu niður allskonar salat, kryddjurtir og sumarblóm. Yfir kerin voru settir plastbogar með gróðurdúk yfir og nú er búið að setja á þau skilti, unnin af nemendum, þar sem sjá má heiti plantnanna á íslensku og latínu.

Að sögn Guðlaugar hafa þessir tímar verið afskaplega gefandi og skemmtilegir. Flestir eða hreinlega allir krakkar hafa gaman að því að rækta plöntur, það er eitthvað mannbætandi við að sjá þær vaxa og dafna - líkt og nemendurna sjálfa! Svo er ómetanlegt fyrir kennara að fá frelsi til að vinna við áhugamál sín, bætir hún við.

Skólanum slitið í 149. skiptið

Í gærkvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 149. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Guðbjörg Halla Magnadóttir, deildarstjóri unglingastigs setti athöfnina, en að því loknu tóku kynnar við, þau Helena Stefánsdóttir og Páll Helgi Ingvarsson, nemendur í 9.bekk.

Kristján Arnar Ingason, skólastjóri, flutti sitt fyrsta ávarp sem skólastjóri og að því loknu fluttu Hjálmar Helgi Jakobsson og Saga Eyþórsdóttir ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Útskriftarnemendurnir Guðríður Vala Atladóttir og Unnur Hafdís Arnþórsdóttir, léku saman fjórhent á píanó lagið Slipping through my fingers eftir þá félaga Björn Ulvaeus og Benny Anderson, í útsetningu Vilbergs Viggóssonar.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Einar Orri Einarsson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Natalia Maria Nieduzak hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt og  framúrskarandi árangur í heimilisfræði hlaut Rósa María Magnúsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Emma Katrín Tumadóttir.

Stöðin Heilsurækt gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Guðjón Ólafur Stefánsson og Svala Katrín Birkisdóttir.

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir og hlaut Unnur Hafdís Arnþórsdóttir hana.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf tvær viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku. Þau verðlaun hlutu þær Anna María Ragnarsdóttir og María Sigurðardóttir.

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir frumkvæði, ábyrgð og áreiðanleika í tækniráð hlutu Bóas Emil Þórðarson og Hjálmar Helgi Jakobsson.

Viðurkenningar fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði og náttúrufræði hlaut Rósa María Magnúsdóttir.

Viðurkenningur fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Agla Vigdís Atladóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Unnur Hafdís Arnþórsdóttir .

Viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlutu Anna María Ragnarsdóttir og Brynhildur Laila Súnadóttir.

Auk framangreindra viðurkenninga gaf skólinn öllum nemendum smá glaðning í formi gjafabréfs fyrir félagsstörf í vetur.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2007 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Skólaslit

Í dag er síðasti kennsludagur þessa skólaárs og alltaf jafn ótrúlegt hvað tíminn æðir áfram.

Á morgun, miðvikudag, er starfsdagur án nemenda.

Á fimmtudaginn, skólaslitadag, er dagskráin eftirfarandi:

kl. 10:00 skólaslit hjá 2. -7. bekk í sínum bekkjarstofum

kl. 20:00 skólaslit hjá 8. - 10. bekk í Ísafjarðarkirkju

Nemendur 1.bekkjar eru boðaðir í viðtöl ásamt forráðamönnum umsjónarkennara.

Vorskóli verðandi 1. bekkjar er þennan sama dag, 8.júní kl. 13:00. Þá mæta börn sem fædd eru árið 2017, ásamt forráðamönnum, í aðalanddyrið hjá ritara. Þar verða þau kynnt fyrir kennurum og skólastjórnendum og sitja svo eina kennslustund í nýja skólanum sínum. Á meðan fá forráðamenn stutta kynningu á skólanum, frístund, dægradvöl og HSV.  

Krakkar út kátir hoppa..

1 af 4

Náttúru- og umhverfisvitundin er í hámarki þessa dagana og má sjá nemendur skólans út um víðan völl. Verkefnin er fjölbreytt og skemmtileg og ekki skemmir veðrið fyrir.

Í dag voru vinabekkirnir í 1. og 8. bekk saman úti að leika sér, 2. bekkur fór í fjöruferð, 3. bekkur í gönguferð, 4. bekkur las í skóginn í útinámi og 9. bekkur fór í hjólaferð út í Hnífsdal. 

Á morgun er svo síðasti formlegi skóladagur skólaársins, starfsdagur á miðvikudaginn og skólaslit á fimmtudag.