VALMYND ×

Fréttir

Gulur dagur

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Það er von undirbúningshópsins að gulur september, auki meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna, sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju. 

10. september er gulur dagur og ætlum við hérna í skólanum að klæðast gulu á morgun og hvetjum alla til að gera slíkt hið sama.

#gulurseptember

Bókasafnsdagurinn er í dag 6. september

Í dag er bókasafnsdagurinn og að því tilefni verður getraun í gangi á bókasafninu okkar út alla næstu viku. Yfirskriftin í ár er ,,Lestur er glæpsamlega góður" og er þemað glæpasögur. 

Veðrið ekki að vinna með 10. bekkingum

Á hverju hausti eru fjallgöngur hjá öllum árgöngum skólans, erfiðari fjallgöngur eftir því sem líður á skólagönguna. Í dag ætluðu fjórir árgangar að fara en vegna rigningar þá var ákveðið að fresta, 1. bekkur skellti sér samt upp í Stórurð.

10. bekkingar koma inn að hausti og geta vart beðið eftir að fara í 10. bekkjar ferðina sína yfir á Hornstrandir. Það hefur aldeilis ekki gengið eftir að þau komist í sína ferð. Ferðinni hefur verið frestað tvivar sinnum og núna er verið að vinna að enn einu skipulaginu til þess að þau fái sína ferð. Foreldrar og umsjónakennarar í 10. bekk ætla að gera flest til að þess að þessi ferð verði farin, með einhverju breytti sniði þó. 

Bakpokar frá Snerpu

Á föstudaginn fengu nemendur glaðning frá Snerpu. Allir fengu bakpoka með endurskini. Þar sem nemendur 5. bekkjar eru að byrja í íþróttum á Torfnesi í vetur þá fannst okkur tilvalið að kalla þessa poka Torfnespokana og allir nemendur verða vel sýnilegir þegar þau ganga í skólann eftir íþróttatímann á fimmtudögum. 

7. bekkur á Reyki

Í morgun fóru nemendur 7. bekkjar ásamt kennurum og stuðningsfulltrúm á Reyki í Hrútafirði. Ungmennafélag Íslands sér um rekstur búðanna og hefur gert undanfarin 3 ár. Í skólabúðum UMFÍ kynnast ungmenni styrkleikum sínum og veikleikum og læra að vinna með þá til að bæta félagsfærni sína. Lífið í búðunum snýst að miklu leyti um samskipti og samveru. Krakkarnir dvelja á Reykjum fram á fimmtudag. 

Skólasetning

Skólasetning G.Í. verður fimmtudaginn 22. ágúst á sal skólans og mæta nemendur sem hér segir:

 Kl. 09:00    2. - 4. bekkur

Kl. 9.30      5. -  7. bekkur 

Kl. 10.00    8. - 10. bekkur

 Nemendur í 1. bekk verða boðaðir sérstaklega ásamt foreldrum í viðtöl til umsjónarkennara. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 23. ágúst hjá öllum nemendum. 

Við vekjum athygli á því fyrir nýja bæjarbúa og þá sem eru að skrá börn sín í fyrsta skipti í grunnskóla, að Ísafjarðarbær útvegar grunnskólanemendum sínum ritföng og námsgögn endurgjaldslaust. 

Við hlökkum til komandi skólaárs, samstarfsins við nemendur, foreldra og aðra í skólasamfélaginu. 

Sumarleikur í lestri

Við setjum okkur það markmið í G.Í. að vera á landsmeðaltali í lestri. Því miður hefur það ekki náðst í vetur, en með góðu átaki í sumar og haust ætti árangur að nást.
Við ætlum því að blása til sumarleiks, þar sem allir bæjarbúar eru hvattir til að njóta lestrar vítt og breitt um landið og heiminn í sumar. Takið endilega myndir af lestrinum og segið hvar þið eruð/voruð stödd og merkið myndina með #sumarlesturgrisa. Hægt er að setja myndirnar beint inn á þráðinn hér fyrir neðan, eða á eigin síður með ofangreindu myllumerki.
Það verður gaman að safna saman myndum eftir sumarið og sjá lesturinn sem víðast; úti í garði, uppi í Naustahvilft, á Hveravöllum eða Færeyjum. Ekki er þörf á að vera sjálfur í mynd, nóg er að taka mynd af bókinni og umhverfinu.
Lestur er að sjálfsögðu bestur og vonum við að allir njóti sumarlestursins sem best.
Gleðilegt lestrarsumar!

Sumarlestur

Lestrarþjálfun barna er sameiginlegt verkefni heimila og skóla. Lestur eykur orðaforða, eflir lesskilning og er góð lestrarfærni undirstaða ævináms og þess að geta aflað sér upplýsinga.

Við hvetjum foreldra og forsjáraðila til þess að kynna sér Lestrarstefnu Ísafjarðarbæjar og viðhalda lestri barna sinna í sumar með því að ýta undir yndislestur, þannig að börnin fái sem best notið lestursins. Mikið er til af allskyns góðum hugmyndum á Netinu til að hvetja til lesturs eins og t.d. hér. Einnig er Bókasafnið á Ísafirði með sitt árlega lestrarátak sem sérstaklega er ætlað 6-12 ára börnum og lýkur með uppskeruhátíð. Nánari upplýsingar má nálgast hér

Við setjum okkur það markmið hér í skólanum að vera á landsmeðaltali í lestri. Því miður hefur það ekki náðst í vetur, en með góðu átaki í sumar og haust ætti árangur að nást. Æfingin skapar meistarinn í lestri jafnt og öðru og fátt betra en að njóta lestrar í sumarfríinu. Gleðilegt lestrarsumar - bæði börn og fullorðnir!

 

Skólaslit

Í gærkvöld var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 149. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Guðbjörg Halla Magnadóttir, deildarstjóri unglingastigs og verðandi skólastjóri setti athöfnina, en að því loknu tóku kynnar við, þau Einar Orri Einarsson og Sigurbjörg Danía Árnadóttir, nemendur í 9.bekk.

Kristján Arnar Ingason skólastjóri, flutti ávarp, en hann lætur nú af störfum eftir 2 ára starf. Þá fluttu Óskar Ingimar Ómarsson og Soffía Rún Pálsdóttir ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 

Nemendur buðu upp á þrjú tónlistaratriði. Ívar Örn Hálfdánarson flutti frumsamið lag á gítar, sem ber nafnið Dropar. Bríet Emma Freysdóttir flutti lagið úr Amélie eftir Yann Tiersen á píanó. Að síðustu léku þær Elísabet María Gunnlaugsdóttir og Soffía Rún Pálsdóttir fjórhent á píanó, þjóðlagið Á Sprengisandi í útsetningu Ísfirðingsins Vilbergs Viggóssonar.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Sölvey Marie Tómasdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Aurora Lív Jóhannsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir í 10. bekk og hana hlaut Stefán Eyjólfsson.

 

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Helena Stefánsdóttir.

Viðurkenningu fyrir listræna hæfileika, jákvæðni og áhugasemi í myndmennt hlaut Soffía Rún Pálsdóttir.

Viðurkenningu fyrir brennandi áhuga, kraft og dugnað í heimilisfræði hlaut Kristján Hrafn Kristjánsson.

Stöðin Heilsurækt gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þær viðurkenningar hlutu Elísabet María Gunnlaugsdóttir og Eyþór Freyr Árnason.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun, vinnusemi, góð skil og framfarir í dönsku og hlaut Elsa Ragnheiður Stefánsdóttir þau verðlaun.

 

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða metnað, góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Orri Norðfjörð.

Viðurkenningu fyrir metnað, góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Orri Norðfjörð.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlaut Grétar Logi Sigurðsson.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Bríet Emma Freysdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlutu þau Árný Fjóla Hlöðversdóttir og Haukur Fjölnisson.

Viðurkenningu fyrir frumkvæði, ábyrgð og áreiðanleika í tækniráði hlutu þeir Alexander Valsson og Orri Norðfjörð.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2008 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

 

Menningarmót

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, efndu Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum til verkefnisins ,,Heill heimur af börnum - börn setja mark sitt á Íslandskortið". Hugmyndin var að hvetja börn til að miðla því sem þeim finnst mikilvægt og áhrifaríkt í lífi sínu og umhverfi á sjónrænan hátt s.s. fólk, landslag, menning, listir og áhugamál, og koma því svo til skila á nýju gagnvirku Íslandskorti.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir kom í heimsókn til okkar í apríl og leiddi verkefnið á miðstigi. Markmiðið var að koma til móts við þá kafla aðalnámskrár grunnskóla sem fjalla um menningarfærni og næmi og virkni í samfélaginu. Þá hefur framtakið inngildingu og þátttöku í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

Grunnskólinn á Ísafirði er nú kominn á kortið og hægt að smella á það hér.